Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. september 2025

Opinber þjónusta, gervigreind og menntun í brennidepli

Oft þarf ekki meira til að skilgreina Kaupmannahöfn: pylsuvagn, hjól í bunkum og tímalausar byggingar. Ljósmynd/Axel Jón

„Við getum lært gríðarlega mikið af nágrönnum okkar, og jafnframt lagt okkar af mörkum með reynslu af litlu samfélagi sem þarf að bregðast hratt við breytingum,“

Eftir Axel Jón Ellenarson

Í ágústlok komu saman fulltrúar opinberra starfsmanna á sveitarfélagsstiginu frá öllum Norðurlöndunum til að ræða málefni á NTR-ráðstefnu, (stéttarfélög opinberra starfsmanna á Norðurlöndunum; Íslandi, Færeyjum, Finnlandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð) sem hafa bein áhrif á framtíð vinnumarkaðarins og þjónustu við almenning. Þar var rætt um tæknibreytingar og gervigreind, símenntun og færniþróun, framtíð vinnumarkaðarins og hlutverk stéttarfélaga í hröðum samfélagsbreytingum. Ráðstefnan var haldin í Kaupmannahöfn. Gestgjafi ráðstefnunnar var danska stéttarfélagið HK Kommunal, með formanninn Lene Roed í fararbroddi. Í opnunarræðu sinni sagði Lene að stéttarfélögin stæðu frammi fyrir nýjum áskorunum.

„Við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum sem enginn getur leyst einn. Því er norræn samstaða og samvinna lykillinn að því að verja réttindi starfsfólks og tryggja áframhaldandi öfluga opinbera þjónustu í samfélögum okkar.“


Lene Roed, formaður HK Kommunal, við setningu ráðstefnunnar. Ljósmynd/Axel Jón

Alls tóku 35 fulltrúar úr BSRB-félögunum þátt í ráðstefnunni, þar á meðal frá Sameyki, Kili stéttarfélagi, FOSS, Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar, Starfsmannafélagi Mosfellsbæjar, Starfsmannafélagi Kópavogs og Starfsmannafélagi Vestmannaeyja. Fulltrúar landanna ræddu sérstaklega hvernig íslenskur vinnumarkaður stendur nú frammi fyrir svipuðum áskorunum og hin Norðurlöndin; hraðri tæknibyltingu, auknum kröfum til opinberrar þjónustu sveitarfélaganna og vaxandi þörf fyrir símenntun.

„Við getum lært gríðarlega mikið af nágrönnum okkar, og jafnframt lagt okkar af mörkum með reynslu af litlu samfélagi sem þarf að bregðast hratt við breytingum,“ sagði Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags.


Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags, með formönnum NTR. Formennskan flyst á milli landa eftir hverja ráðstefnu. Ljósmynd/Axel Jón

Gervigreind og óvissan um óvissuna
Øystein Holm-Haagensen, ráðgjafi hjá norska stéttarfélaginu Delta, flutti erindi um gervigreind og áhrif hennar á vinnumarkaðinn. Hann vitnaði til orða Donald Rumsfeld um „óþekkta óvissu“ og sagði að gervigreindin myndi hafa mikil áhrif á opinber störf. „Við stöndum frammi fyrir óvissu sem við getum ekki einu sinni lýst. Það sem gildir um gervigreindina er óvissa um óvissuna um það óþekkta svo ég vitni í þekkt orð Rumsfeld. Við vitum ekki hvernig gervigreindin mun þróast – en við vitum að hún mun hafa áhrif á störf okkar allra.“


Øystein Holm-Haagensen.Ljósmynd/Axel Jón

Hann minnti á að á tímum iðnbyltingarinnar jókst framleiðni stórlega, en laun fylgdu ekki á sama hraða nema með skipulagðri baráttu verkalýðsfélaga. „Sagan kennir okkur að tækniframfarir leiða ekki sjálfkrafa til bættra lífskjara. Það er hlutverk okkar að tryggja að framleiðniaukning skili sér í launaumslagið,“ sagði Øystein. Þá sagði hann að stéttarfélögin yrðu að hvetja fólk til þátttöku í notkun gervigreindar, halda fræðslunámskeið og fá trúnaðarmenn vinnustaðanna til þátttöku í innleiðingu á gervigreind. „Við hjá Delta teljum að stjórnendur þurfi að taka meiri þátt í þessari tæknibyltingu með því m.a. að vekja upp umræðu á opinberum vettvangi og á vinnustaðnum sem snýst um siðferði og þekkingu við notkun gervigreindar,“ sagði Øystein að lokum.

Framtíðarvinnumarkaður í mótun
Rebecka Prentell frá ThinkTank sem sænska stéttarfélagið Vision á og rekur fjallaði um hvernig alþjóðavæðing, loftslagsáskoranir og tilkoma gigg-hagkerfisins breyta starfsumhverfi opinberra starfsmanna.


Rebecka Prentell frá ThinkTank sem er í eigu Vision stéttarfélagsins í Svíþjóð. Ljósmynd/Axel Jón

Hún sagði að opinberi vinnumarkaðurinn væri ekki aðeins að fást við nýja tækni heldur líka hvernig samfélögin eru skipulögð upp á nýtt vegna hennar. „Við erum ekki aðeins að fást við tæknibreytingar, heldur líka breytingar á hvernig samfélagið sjálft er skipulagt. Vinnumarkaðurinn verður sveigjanlegri – en án stéttarfélaganna gæti hann líka orðið ótryggari.“

Rebecka hvatti félögin til að leggja aukna áherslu á nýjar gerðir kjarasamninga sem tækju mið af fjarvinnu og notkun gervigreindar í daglegu starfi.

Símenntun og hugarfar vaxtar
Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar, flutti erindi á NTR-ráðstefnunni um símenntun og mikilvægi náms alla ævi. Hún lagði áherslu á að menntun væri ekki eitthvað sem lyki með skólaskyldu eða háskólanámi, heldur ferli sem fylgdi okkur alla tíð.


Guðfinna Harðardóttir hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt. Ljósmynd/Axel Jón

„Lífið sjálft er símenntun,“ sagði Guðfinna. „Við lærum hvert af öðru, á vinnustaðnum og í daglegu lífi. En við verðum líka að tryggja formlegar leiðir til náms, svo starfsfólk hafi raunveruleg tækifæri til að þróa hæfni sína.“ Hún undirstrikaði að grunnfærni – eins og læsi, stærðfræði og gagnagreining – væri hornsteinn í aðlögunarhæfni vinnumarkaðarins. „Hugarfar vaxtar,“ bætti hún við, „er lykillinn að því að einstaklingar, fyrirtæki og samfélög geti tekist á við breytingar.“ Starfsmennt hefur þróað öflugt símenntunarkerfi í samstarfi við stéttarfélög og opinbera aðila. Það vakti athygli annarra þátttakenda og ýtti undir hugmyndir um frekara norrænt samstarf á þessu sviði.

Sameiginleg yfirlýsing stéttarfélaganna
Í lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing þar sem lögð var áhersla á að tryggja öllu launafólki tækifæri til náms alla ævi, að stéttarfélög verði virkir þátttakendur í innleiðingu gervigreindar og að opinber þjónusta verði áfram burðarás norrænna samfélaga.


Formenn stéttarfélaganna undirrita sameiginlega yfirlýsingu í lok ráðstefnunnar. Ljósmynd/Axel Jón

„Við verðum að vera rödd launafólks á tímum mikilla umbreytinga,“ sagði Lene Roed í lokaorðum sínum. „Ef við stöndum saman getum við tryggt að breytingarnar verði til góðs – ekki til óöryggis. Framtíðin kemur hvort sem við viljum eða ekki. Spurningin er hvort við erum tilbúin að móta hana – eða látum við hana móta okkur?“

Næsta NTR-ráðstefna haldin í Færeyjum
Það var jafnframt tilkynnt að næsta NTR-ráðstefna verði haldin í Þórshöfn í Færeyjum árið 2027. Þar mun Birita Fritleifsdóttir Kjærbæk, varaformaður Starvsfelagsins, taka við formennsku af Lene Roed. „Þetta vekur miklar vonir um að gefa minni samfélögum stærra hlutverk í umræðunni,“ sagði Lene.


Lene Roed og Birita F. Kjærbæk. Ljósmynd/Axel Jón

„Færeyjar eru lifandi dæmi um hvernig smærri samfélög geta brugðist hratt við breytingum,“ sagði Birita. „Við hlökkum til að taka á móti ykkur og halda áfram þessari mikilvægu vegferð.“ Þá afhenti Lene Roed formennskuna til Biritu og færði henni við það tækifæri styttu af Iðunni, gyðjunni í norrænni goðafræði sem gegnir því hlutverki að gæta gulleplanna sem tryggja goðunum eilífa æsku.

NTR-ráðstefnan 2025 í Kaupmannahöfn sýndi að áskoranir norrænu samfélaganna eru sameiginlegar. Gervigreind og tæknibreytingar, vaxandi kröfur um símenntun, óstöðugleiki á vinnumarkaði og þörfin á sterkri opinberri þjónustu á við á öllum Norðurlöndunum.

Greinin birtist fyrst í Tímariti Sameykis 3.tbl.


Höfundur er samskiptastjóri og ritstjóri Tímarits Sameykis