8. október 2025
Bótaréttur fangavarða: Mikilvæg trygging í krefjandi starfi

„Það ætti ekki að vera daglegt brauð að fangavörður eigi á hættu að fá yfir sig þvag og saur, hvort sem það er í vitin eða á hár og klæðnað eða annarsstaðar.“ Ljósmynd/Kveikur/RÚV
Eftir Jennýju Stefánsdóttur
Umræðu um heildarstefnu á sviði fangelsismála á Íslandi ber ítrekað á góma og birtast okkur reglulega fréttir af ástandi í fangelsum landsins. Aukin athygli á málaflokkinn er þörf og löngu tímabær.
Það er ljóst að Fangelsismálastofnun hefur verið fjársvelt um lengri tíma, sem hefur bein áhrif á vinnuaðstæður og kjör fangavarða. Fangaverðir eru félagsfólk í Sameyki stéttarfélagi í almannaþjónustu og um lengri tíma hefur verið reynt að ná fram nýjum stofnanasamningi sem tryggir fangavörðum mannsæmandi laun í samræmi við ábyrgð, verkefni og vinnuaðstæður. Núverandi stofnanasamningur Fangelsismálastofnunar ríkisins og SFR (sem nú er Sameyki) var undirritaður þann 15. júní 2017 og hefur því verið í gildi í tæp sjö ár. Þrátt fyrir ákvæði í 18. gr. stofnanasamningsins um að hann skuli endurskoðaður eigi sjaldnar en annað hvert ár.
Stofnanasamningurinn fjallar um grunnröðun starfa og viðbótarforsendur eins og starfsreynslu og símenntun. Fangavörðum er í dag grunnraðað í launaflokka samkvæmt 4. og 5. gr. þessa samnings, til dæmis er fangavörður I með kr. 498.536 í grunnlaun, fangavörður II með kr. 514. 093 í grunnlaun, aðstoðarvarðstjóra er grunnraðað í launaflokk 12 og með kr. 540.743 og grunnlaun varðstjóra eru kr. 571.143. Er hér tekið mið af launatöflu ríkisins og Sameykis sem gildir frá 1. september 2025. Ég held að flestir geti verið sammála um að grunnlaun umræddrar stéttar séu lág og töluvert lægri en ábyrgð og verkefni segja til um. Vinnuumhverfi þeirra er síbreytilegt og nýjar áskoranir gera starf þeirra enn flóknara og meira krefjandi. Sameyki hefur barist fyrir bættum kjörum stéttarinnar í mörg ár en án árangurs. Stofnanasamningsviðræður eru í gangi á milli aðila og bindur Sameyki vonir við að bragarbót verði gerð þarna á. Samningsvilji er fyrir hendi hjá báðum aðilum en skortur á fjármagni stendur í vegi.
Víðtækari bótaábyrgð í kjarasamningi Sameykis og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisins
Í þessu samhengi er sérstaklega mikilvægt að ræða um bótarétt fangavarða, sérstaklega í ljósi breyttrar framkvæmdar hjá ríkislögmanni og þeirra óásættanlegu vinnuaðstæðna sem fangavörðum er ætlað að starfa við.
Á borð Sameykis rata árlega fjölmörg mál þar sem fangaverðir leita aðstoðar Sameykis, m.a. vegna atvika sem hafa komið upp í starfi þeirra. Ákvæði um bótarétt, líkt og það sem er að finna í 7.1.6. gr. kjarasamnings Sameykis við ríkið, er hluti af flestum kjarasamningum sem Sameyki gerir. Má þar nefna samninga við ríkið, Reykjavíkurborg, Vinakot og Klettabæ. Á þessum starfsstöðum starfar félagsfólk Sameykis við aðstæður sem geta verið krefjandi og stundum beinlínis hættulegar.
Samkvæmt kjarasamningi Sameykis og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisins, er kveðið á um bótarétt þegar starfsmaður verður fyrir líkams- eða munatjóni við að sinna einstaklingi sem að takmörkuðu eða engu leyti getur borið ábyrgð á gjörðum sínum, eða einstaklingi sem dæmdur hefur verið til fangelsisvistar eða vistaður í fangelsi. Í slíkum tilfellum á starfsmaður rétt á bótum fyrir tjón sitt, og við mat og uppgjör kröfunnar gilda almennar reglur skaðabótaréttarins. Embætti ríkislögmanns fjallar um bótakröfu samkvæmt grein þessari og annast uppgjör bóta í umboði fjármálaráðuneytisins.
Ákvæði 7.1.6 í kjarasamningi Sameykis og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs, og sambærileg ákvæði í öðrum kjarasamningum Sameykis, felur í sér víðtækari bótaábyrgð vinnuveitanda en almennar reglur skaðabótaréttar kveða á um. Það gerir starfsmönnum kleift að beina skaðabótakröfu sinni beint að vinnuveitanda vegna líkams- eða munatjóns sem þeir verða fyrir í starfi sínu, án þess að þurfa að sækja bætur á hendur þeim einstaklingi sem tjóninu olli. Í bókun 5 (frá 2011) við kjarasamninginn sem enn er í gildi kemur fram að samningsaðilar voru sammála um þegar umrætt ákvæði kom inn í kjarasamninga að tilefni hafi verið til að bæta og tryggja bótarétt þeirra starfsmanna sem slasast við að sinna eða hafa afskipti af fólki sem að takmörkuðu eða engu leyti getur borið ábyrgð á gerðum sínum. Þá segir jafnframt í umræddri bókun: ,,Hluti af starfsskyldum þessara starfsstétta sem ákvæðið á við um getur falist í því að grípa inn í og stöðva hættulegt atferli hjá einstaklingum. Komið geta upp aðstæður þar sem slíkt verður ekki gert án þess að viðkomandi starfsmaður setji sjálfan sig í ákveðna hættu á því að slasast við framkvæmd starfs síns. Þekkt eru dæmi um að starfsfólk hafa orðið fyrir áverkum í slíkum tilfellum. Þá er jafnframt ljóst að auknar líkur eru á því að starfsfólk sem vinna við slíkar aðstæður verði fyrir árás af hendi þeirra sem þeim er ætlað að hafa umsjón eða eftirlit með. Rétt þykir að tryggja þessu starfsfólki bótarétt vegna þess tjóns sem þeir þannig verða fyrir.“
Ákvæðið tryggir að starfsfólk, t.a.m. fangaverðir, þurfi ekki að standa frammi fyrir þeirri flóknu og erfiðu stöðu að þurfa að höfða mál gegn einstaklingum sem sjálfir eru sjálfsagt ófærir um að bera skaðabótaábyrgð og eftir atvikum einstaklingum sem þeir sinna daglega í störfum sínum.
Breytt framkvæmd ríkislögmanns
Það ætti ekki að vera daglegt brauð að fangavörður eigi á hættu að fá yfir sig þvag og saur, hvort sem það er í vitin eða á hár og klæðnað eða annarsstaðar. Þetta er hins vegar sá veruleiki sem fangaverðir búa við í dag og eru slík atvik því miður algeng. Í málum af þessum toga hefur verið byggt á kjarasamningsákvæðinu og 26. gr. skaðabótalaga. Þannig hefur starfsfólki verið tryggðar bætur vegna atvika af þessum toga, jafnvel þótt tjón sé minniháttar. Fram til þessa hafði verið samið við ríkislögmann um greiðslu bóta til starfsfólks sem verða fyrir því að fá þvag eða saur í vit eða á aðra staði líkamans á bilinu 150-600 þúsund krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-5557/2021 hefur verið notaður sem fordæmi í sambærilegum málum en í því máli var gerð bótakrafa í sakamáli gegn árásarmanni sem hrækti á fangavörð en hrákinn lenti á andliti og líkama fangavarðarins. Í því máli var fallist á greiðslu miskabóta þrátt fyrir að viðkomandi hefði ekki leitað til læknis, enda var hún með grímu þegar atvikið átti sé stað. Dómurinn undirstrikar að líkamstjón, í skilningi skaðabótalaga, nær einnig til andlegs tjóns sem hefur áhrif á líðan tjónþola.
Ríkislögmaður hefur nú breytt framkvæmd sinni og hafnar bótaskyldu í málum sem þessum á grundvelli þess að ekki hafi verið sýnt fram á að viðkomandi hafi orðið fyrir líkams- eða munatjóni, t.d. vegna atviks sem fól í sér að viðkomandi fangi fékk munnvatn annarrar manneskju á sig. Ríkislögmaður taldi það ekki leiða sjálfkrafa til tjóns. Ríkislögmaður hefur einnig hafnað bótaskyldu í máli þar sem þvagi var skvett á fangavörð sem endaði í hári, handlegg og á peysu viðkomandi. Vert er að taka fram að þessi tvö mál eru nefnd sem dæmi en málin eru mun fleiri og hefur ríkislögmaður hafnað bótakröfum í töluvert fleiri málum af sama toga.
Bótaskylda andlegs og líkamlegs tjóns samkvæmt skaðabótalögum
Samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, nánar tiltekið 1. mgr. 1. gr., á sá sem verður fyrir líkamstjóni rétt á skaðabótum. Með „líkamstjóni“ er átt við bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar tjóns. Þetta er skýrt í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til laga 50/1993.
Þetta þýðir að andleg vanlíðan og áfall vegna atvika í starfi, eins og að fá þvag eða saur yfir sig, getur fallið undir þessi ákvæði og verið bótaskylt, sbr. einnig dómur héraðsdóms sem vísað er til hér að ofan. Rökstuðningurinn byggir fyrst og fremst á því að það liggi í hlutarins eðli að það valdi vanlíðan og óþægindum þegar fangi, sem fangavörður gætir, hrækir á þann síðarnefnda eða safnar þvagi og saur og kastar í hann. Ennfremur er veruleg smithætta fólgin í því að komast í snertingu við líkamsvessa annarra, sem getur leitt til alvarlegra heilsufarsvandamála og krafist læknisfræðilegrar íhlutunar. Tjón viðkomandi verður fyrst og fremst sannað með þeim gögnum sem liggja fyrir, skýrslu/atvikaskráningu fangelsisins, og framburði viðkomandi fangavarðar fyrir dómi. Óljóst er hvaða málefnalegu ástæður búa að baki því að ríkislögmaður hefur vikið frá fyrri framkvæmd sinni og afstöðu, einkum þar sem engar breytingar hafa orðið á gildandi lögum, dómaframkvæmd eða ákvæðum kjarasamninga.
Sameyki harmar breytta framkvæmd ríkislögmanns
Í ljósi þess hversu krefjandi starf fangavarða er, er skýrt að öflugur bótaréttur er grundvallaratriði en á þeim tíma sem ákvæðið kom inn í kjarasamning voru aðilar sammála um mikilvægi þess að vernda starfsfólk í almannaþjónustu sem sinna áhættusömum störfum. Þau rök eiga jafn vel við í dag.
Sameyki harmar þessa breytingu á framkvæmd ríkislögmanns. Félagið telur að þessi afstaða sé ekki til þess fallin að bæta starfsumhverfið. Það er óásættanlegt að starfsmenn í opinberri þjónustu þurfi að sæta slíkri meðferð án þess að fá viðurkenningu á tjóni sínu og fullnægjandi bætur. Ljóst er að Sameyki fyrir hönd félagsfólks mun láta reyna á umrædda afstöðu fyrir dómstólum til að fá úr því skorið hvar mörk ákvæðisins liggja.
Að því sögðu er ljóst að starfsaðstæður fangavarða, sem hér hafa verið raktar, endurspeglast ekki í launakjörum þeirra. Sameyki er hins vegar reiðubúið til viðræðna við Fangelsismálastofnun um hvernig megi á viðeigandi hátt taka tillit til þessa í launakjörum starfsfólks. Það er augljóst að breytinga er þörf og brýnt að finna réttar lausnir að settu markmiði.
Sameyki og Félag fangavarða skora á stjórnvöld að greiða fyrir gerð nýs stofnanasamnings við fangaverði og tryggja fjármagn til að bæta kjör þeirra og vinnustæður. Þegar ekki er hægt að tryggja embættismönnum hjá íslenska ríkinu mannsæmandi vinnuaðstöðu og álag í starfi er fast við efri mörk, hlýtur það að vera eitt af forgangsmálum stjórnvalda að hlutast til um kjarasamningsbundna endurskoðun stofnanasamnings með opnum huga og auknu fjármagni. Að tryggja starfsmönnum í fangelsiskerfinu viðunandi vinnuskilyrði og réttlátan bótarétt er ekki aðeins spurning um starfsmannaréttindi heldur einnig grundvöllur öryggis og skilvirkni í íslensku réttarkerfi.
Höfundur er lögfræðingur Sameykis