Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. nóvember 2025

Gervigreindarlæsi

Skúli Bragi Geirdal, sviðsstjóri Netvís.

„Rétt eins og við nálgumst fræðslu á sviði miðlalæsis um mismunandi miðla og upplýsingaveitur þá getum við yfirfært þá nálgun á hvernig við meðhöndlum og vinnum með gervigreind í lífi og starfi. Gervigreindarlæsi miðar að því að efla hæfni okkar í að leita að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt.“

Eftir Skúla Braga Geirdal

Fyrirvari: Þessi grein er skrifuð af manneskju af holdi og blóði frá upphafi til enda.

Það er varla að maður stígi stafrænt fótspor núorðið án þess að gervigreindin komi þar við sögu að einhverju leyti. Auglýsingaveggir samfélagsmiðla vilja ólmir segja mér hvernig ég geti hámarkað afköst mín í starfi með aukinni notkun gervigreindar. Bottarnir taka undir í athugasemdakerfunum og djúpfalsanir af þjóðþekktum og heimsfrægum einstaklingum segja mér staðreyndir málsins. Á sama tíma sendir algóritminn minn mér myndbönd af sannfærandi gerviáhrifavöldum í líki grískra guða sem segja mér hvernig ég geti komist í betra form með því að reka einkaþjálfarann minn og velja frekar sérsniðið gervigreindarprógramm. „Ætli starfið mitt sé líka í hættu?“ Finnum við okkur í sömu stöðu og sykurinn þegar gervisætan fór að ryðja sér til rúms á markaði? En er það svo slæmt, er ekki Pepsi betra sem Pepsi Max? Ég drekk allavega meira af því í dag...

Líklega er ég bara leiðinlegur og á móti tækniþróun og nýsköpun ef ég fer eitthvað að lesa innihaldslýsinguna, efast um gæði vörunnar og setja spurningarmerki við framleiðsluhraðann. Er ég yfir höfuð nógu greindur til að efast um gervigreindina? Ég gæti vissulega spurt mállíkanið, spjallmennið eða farið í gamla góða Google-leiðangurinn þar sem Gemini réttir mér hjálparhönd... bíddu ha? Er það líka gervigreind?... Sem betur fer mæta nú í tæka tíð krúttlegu gervigreindarbörnin þegar ég fer að hafa of miklar áhyggjur, mikið ofboðslega er þetta allt sniðugt.

 

Gervigreindarlæsi er lykilhæfni í nútíma samfélagi
Markmið þessarar greinar er ekki að vera á móti notkun gervigreindar (höfundur er það alls ekki). Þess í stað skulum við horfa til þess hvernig við tryggjum örugga og ábyrga notkun við innleiðingu á gervigreindarlausnum. Rétt eins og við nálgumst fræðslu á sviði miðlalæsis um mismunandi miðla og upplýsingaveitur þá getum við yfirfært þá nálgun á hvernig við meðhöndlum og vinnum með gervigreind í lífi og starfi. Gervigreindarlæsi miðar að því að efla hæfni okkar í að leita að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt. Í tvö ár hefur verið í þróun fræðsla um gervigreindarlæsi hjá Netvís – Netöryggismiðstöð Íslands (áður SAFT) og eftirspurnin er mikil frá skólum um allt land.

Til þess að þessi lestur nýtist sem best koma hér 10 heilræði/hugvekjur í gervigreindarlæsi sem gott er að hafa á bak við eyrað þegar við notum gervigreindina næst við upplýsingaleit, textaskrif, samantekt, myndvinnslu, hversdagslegt spjall eða einfaldlega til aðstoðar við dagleg verk:

1. Könnum heimildir
Heimild er ekki sama og heimild. Ef hlekkur fylgir svari frá mállíkani gervigreindar er mikilvægt að kanna áreiðanleika hans.

2. Förum fram á heimildir
Ef gervigreindin lætur heimildir ekki fylgja skulum við biðja um þær. Það er sjálfsögð krafa.

3. Einstaklingurinn á myndinni þarf að gefa leyfi
Góð regla er að þegar við tökum eða deilum myndum þarf einstaklingurinn sem er á myndinni að gefa samþykki. Sama á við um myndir af öðrum sem við vinnum með gervigreindartólum eða öðrum myndvinnsluforritum.

Lög um kynferðislega friðhelgi
„Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þ.m.t. falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“

4. Gerðu verkið að þínu eigin
Lögum textann sem gervigreindin skapar fyrir okkur. Þín skoðun og sköpun skiptir máli.

5. Láttu gervigreindina spyrja þig
Það getur verið gagnlegt að biðja gervigreindina um að spyrja okkur spurninga til baka um viðfangsefnið. Bæði til að fá okkur til að hugsa og til að skapa samtal um uppbygginguna á verkinu.

6. Upplýsingaverksmiðja en ekki gervigreind
Gott er að hugsa um gervigreindarmálllíkön sem upplýsingaverksmiðjur frekar en greind. Magnús Smári Smárason verkefnastjóri gervigreindar við Háskólann á Akureyri orðaði þetta vel í grein sinni: „Afurðin er ekki sannleikur eða viska, heldur fjöldaframleidd upplýsingavara: texti, tölvukóði, myndir. Eins og í öllum verksmiðjum verða til gallaðar vörur, í þessu tilfelli „ofsjónir“ eða rangfærslur. [...] Við erum orðin eins og „samskeytarar“ við enda færibandsins, sem þurfum að gæðastýra og setja vöruna saman á ábyrgan hátt.“

7. Staður og stund
Veltum fyrir okkur hvaða verkefni við ætlum að leysa sjálf og hvað við viljum að gervigreindin leysi. Hvar þurfum við sköpun og hvar þurfum við fjöldaframleiðslu?

8. Tölum líka við fólk
Gervigreindin getur verið góður staður til að koma einhverju frá sér. Stundum fer spjallið á slíka dýpt að eins og um besta vin er að ræða. Höfum bakvið eyrað að gervigreindin er ekki manneskja. Það er gott að tala líka við fólk, sérstaklega um erfið mál.

9. Góðar hugmyndir taka tíma
Heilinn í okkur er hannaður til að hugsa en ekki til að vera mataður af upplýsingum. Hlaupum ekki alltaf beint í gervigreindina eftir svörum. Gefum okkur líka svigrúm til að hugsa og leysa málið.

10. Stattu með sjálfum þér
Þín skoðun skiptir máli. Verum ekki hrædd við að taka ákvarðanir. Þú ert frábær eins og þú ert. Láttu hvorki gervigreind eða manneskju segja þér neitt annað.


Höfundur er sviðsstjóri Netvís – Netöryggismiðstöðvar Íslands