21. nóvember 2025
Horft fram á veginn

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis.
„Samstaða stéttarfélaga og virkt félagsfólk er lykillinn að styrk verkalýðshreyfingarinnar til framtíðar. Við verðum að efla stéttarfélagsvitund fólks; það eru öfl í landinu sem hafa hag af því að sú vitund dofni með næstu kynslóðum.“
Eftir Kára Sigurðsson
Samfélagsþróunin er hröð og því er gríðarlega mikilvægt að horfa fram á veginn og átta sig á þeim áskorunum sem stéttarfélög standa frammi fyrir, hvort sem þau eru á almenna vinnumarkaðinum eða á hinum opinbera. Við megum ekki sofna á verðinum og taka því sem gefnu að réttindi sem hafa áunnist haldist óbreytt. Það er heldur ekki sjálfgefið að þróun vinnumarkaðarins verði alltaf jákvæð, til dæmis varðandi styttingu vinnuvikunnar, orlofsréttindi og laun.
Samstaða stéttarfélaga og virkt félagsfólk er lykillinn að styrk verkalýðshreyfingarinnar til framtíðar. Við verðum að efla stéttarfélagsvitund fólks; það eru öfl í landinu sem hafa hag af því að sú vitund dofni með næstu kynslóðum. Mikil verðmæti felast í að virkja ungt fólk innan félagsins og við höfum tekið fyrstu skrefin til að ná betur til þess, meðal annars á samfélagsmiðlum félagsins. Það er mikilvægt að ungt fólk finni að Sameyki sé vettvangur þar sem rödd þess skiptir máli og framtíð vinnumarkaðarins mótist í samstarfi við það. Bakland Sameykis er sterkt og nú þurfum við að leggjast á árarnar, ná til unga fólksins og fá það með okkur í lið. Það er klisja að tala um framtíðina og ungt fólk en klisjur eru sem betur fer oft byggðar á staðreyndum eins og í þessu tilfelli.
Undanfarnar vikur og mánuði höfum við í Sameyki átt ótal ánægjuleg og lærdómsrík samtöl við félagsfólk okkar. Við höfum hitt fjölbreytta hópa, bæði á vinnustöðum, á fundum og í hádegisverðum hér á skrifstofu Sameykis. Það hefur verið virkilega gefandi að hitta ykkur, heyra af reynslu ykkar og ræða áskoranir og tækifæri í starfinu. Þessi samtöl minna okkur á hversu öflugt, fjölbreytt og mikilvægt félagsfólk Sameykis er í samfélaginu öllu.
Eitt af því sem hefur komið skýrt fram í þessum heimsóknum er hversu mikilvægur trúnaðarmaðurinn er á hverjum vinnustað. Trúnaðarmenn eru tengiliðir, ráðgjafar og málsvarar samstarfsfólks síns. Þeir eru burðarás í starfi Sameykis og lykillinn að því að tryggja virðingu, réttindi og gott samstarf á vinnustöðum. Skráning trúnaðarmanna á námskeið á vegum félagsins hefur í haust verið til mikillar fyrirmyndar. Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum trúnaðarmönnum fyrir þeirra mikilvæga starf og þann metnað sem þeir sýna dag hvern.
Að lokum langar mig að minna ykkur á að Sameyki er stéttarfélag allra hópa. Við leggjum mikla áherslu á að félagsfólk okkar fái tækifæri til starfsþróunar og við viljum gera öllum hópum hátt undir höfði, hvort sem félagsfólk er með formlega menntun eða ekki.
Nú þegar árið er á enda vil ég þakka félagsfólki Sameykis fyrir gott samstarf og samstöðu á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.
Leiðargreinin birtist fyrst í Tímariti Sameykis, 4. tbl. 2025
Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu