Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. nóvember 2025

Verkfallsrétturinn – heilagur réttur launafólks nema hjá sumum

„Eitt helsta einkenni verkfalls er að venjuleg störf þeirra sem eru í verkfalli leggjast niður að einhverju eða öllu leyti. Orðið verkfall er gagnsætt að þessu leyti. Verkin falla niður.“

„Þessi lög er ólög, það er ekkert réttlæti í þeim og hæfir ekki íslenskri þjóð að hafa slík lög sem varna því að launafólk geti sótt sér kjarabætur. Það sæmir ekki réttlætiskennd okkar að geta ekki sótt kjarabætur eins og annað launafólk. Að hafa slík ólög í nútímanum misbýður okkur sem störfum við fangavörslu, því það fylgir enginn réttur nema á annan veginn, gegn okkur fangavörðum, og slíkt fyrirkomulag er ósanngjarnt og hreinlega galið á allan hátt.“

Eftir Egil Kristján Björnsson

Ég segi að verkfallsrétturinn er heilagur réttur launafólks og það eiga allir að hafa þann rétt í neyðartilfellum til að ná samningsaðilum að kjaraborðinu til samtals. Það eru stéttir sem hafa þennan rétt, eins og læknar og hjúkrunarfræðingar, einnig flugumferðarstjórar. Áhrifin þegar þessar stéttir fara í verkfall eru gífurleg. Það er alltaf hægt að útfæra verkföll til að tryggja lágmarksöryggi í samfélaginu, eins og í tilvikum sjúkrahúsa og flugumferðar. Þegar þessar stéttir fara í verkfall er litið á það alvarlegum augum. Þá er sest við samningaborðið og til þess er leikurinn gerður – að ná samningsaðilum saman til að ræða kröfurnar og finna sameiginlega lausn.

Á vef ASÍ segir: „Eitt helsta einkenni verkfalls er að venjuleg störf þeirra sem eru í verkfalli leggjast niður að einhverju eða öllu leyti. Orðið verkfall er gagnsætt að þessu leyti. Verkin falla niður. Verkfall getur verið hvers konar rof á þeirri vinnu sem launafólki er skylt samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi að inna af hendi, enda sé aðgerðin framkvæmd með aðild stéttarfélags og uppfylli formskilyrði laga nr. 80/1938.“1

Það hafa þó ekki allar stéttir þennan rétt, fangaverðir mega til dæmis hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun, skv. 8. gr. laga um fullnustu refsinga2 og lög nr. 94/1986 um kjaramál opinberra starfsmanna.3

Almennt er talið að fangaverðir séu ríkinu svo nauðsynlegir að þeir geti alls ekki farið í verkfall, því þá myndi öryggi ríkisins verða stofnað í hættu. Gott og vel – ef það væri þá einhver önnur leið til að bæta kjörin eins og með kjararáði eða gerðardómi. Einnig væri hægt að færa rök fyrir því að ef fangaverðir væru svo stór hluti af öryggi ríkisins þá ætti að borga þeim mannsæmandi laun.

 

Fangelsismálastofnun hefur ekki umboð
Ég er starfandi fangavörður og hef verið það í 16 ár. Þegar ég hóf störf sem fangavörður var ég svo sem ekkert að spá í þetta. Seinna hef ég meira verið að hugsa þessi mál þar sem ég hef verið að skipta mér af kjaramálum fangavarða og sit í stjórn Sameykis. Við erum með stofnanasamning við Fangelsismálastofnun en stofnanasamningur er hluti af kjarasamningi og er meðal annars ætlað að stuðla að skilvirkara launakerfi sem tekur mið af þörfum og verkefnum stofnunar og starfsmanna hennar. Að jafnaði skal stofnanasamningur endurskoðaður á tveggja ára fresti, en sá stofnanasamningur sem við sem störfum við fangavörslu vinnum eftir er síðan 2017.

Drögum að nýjum samningi var hafnað af Fangelsismálastofnun með þeim rökum að ekki væru til peningar og ekki fengjust peningar í nýjan stofnanasamning. Með öðrum orðum að stofnunin hefði ekkert samningsumboð, sem gerir málið nokkuð snúið gagnvart okkur því við höfum ekki umboð til að sækja kjarabætur hjá stjórnvöldum, við erum ekki með það vald og þau úrræði sem þarf til að sækja kjarabætur eins og annað launafólk. Ef svo væri þá værum við í góðum málum og þyrftum ekki á stofnuninni að halda til að sækja kjarabætur.

 

Þurfum að sækja kjararéttindi okkar til baka á ný
Staðan er því komin í algjöran hnút, við getum ekki farið í verkfall eða gert eitthvað til að búa til pressu á stjórnvöld né Fangelsismálastofnun og þetta virðist vera órjúfanlegur veggur að eiga við – og engar afleiðingar eru fyrir stofnunina ef hún neitar samningsgerð. Niðurstaðan er því að þeir sem samþykktu að afsala sér verkfallsrétti voru að taka ákvörðun sem snertir okkur alla tíð. Það ætti að vera frumskilyrði hjá launafólki að afsala sér aldrei neinum rétti. Ef við samþykkjum að afsala okkur einhverjum kjara- og starfsréttindum, þá er það ekki verkalýðsbarátta og þá ætti verkalýðsforystan að hugsa sinn gang. Við þurfum að breyta þessu og sækja þennan rétt aftur, það þarf að breyta lögum til þess og hvað með það!

 

Ríkið mismunar launafólki eftir starfsstéttum
Þessi lög er ólög, það er ekkert réttlæti í þeim og hæfir ekki íslenskri þjóð að hafa slík lög sem varna því að launafólk geti sótt sér kjarabætur. Það sæmir ekki réttlætiskennd okkar að geta ekki sótt kjarabætur eins og annað launafólk. Að hafa slík ólög í nútímanum misbýður okkur sem störfum við fangavörslu, því það fylgir enginn réttur nema á annan veginn, gegn okkur fangavörðum, og slíkt fyrirkomulag er ósanngjarnt og hreinlega galið á allan hátt.

Í Belgíu hafa fangaverðir verkfallsrétt og þeir fara í verkfall stöku sinnum. Þegar það gerist þá eru allir fangar læstir inni og lögreglan er látin sjá um rest. Þar í landi þykir ekki nema eðlilegt að það fólk sem starfar við fangavörslu hafi sömu réttindi og annað launafólk. Ríkið hefur notfært sér þessa stöðu og mismunað þeim stéttum sem ekki hafa verkfallsrétt, reynslan talar sínu máli og það virkar engan veginn ef ekki er hægt að grípa í svo veigamikið vopn og verkfall til að knýja fram launakjör. Ríkið er því með öll tromp í hendi sér.


Höfundur starfar sem fangavörður og situr í stjórn Sameykis.

 

Heimildir:
1. Alþýðusamband Íslands. (e.d.). Hvað er verkfall? https://asi.is/vinnurettarvefur/vinnurettur/stettarfelog-og-vinnudeilur/vinnustodvanir/verkfoll/hvad-er-verkfall/
2. Lög um fullnustu refsinga nr. 15/2016. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016015.html
3. Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1986094.html