Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. nóvember 2025

Brot á jafnræðisreglunni

Hugsuðurinn (Le Penseur) eftir franska myndhöggvarann Auguste Rodin.

„Ég var því búinn að fá kjaftshögg. Ég hugsaði að gráðan mín væri nú kannski ekki upp á marga fiska og mögulega var þessi launahækkun hvort eð er ekki þess virði. En við þá gremju sá ég maðkinn í mysunni – hvers vegna var öðrum verðlaunað fyrir háskólagráðu sem nýtist við störf sundlaugarvarðar á meðan hinum væri sagt að hún nýtist ekki í starfi?”

Eftir Þórð Kristófer Ingibjargarson


Í þessum pistli vil ég rekja aðdragandann að því að ég fékk háskólagráðuna mína metna við störf sundlaugarvarðar. Ég hef unnið í hluta- og sumarstörfum í sundlaug ásamt að vera félagsmaður í Sameyki frá árinu 2018 en sumarið 2024 lauk ég BA-gráðu í heimspeki við Háskóla Íslands. Ég hafði alltaf verið með þá flugu í hausnum að ég gæti fengið launahækkun ef ég lyki háskólaprófi, en einnig stúdentsprófi, og um leið og útskriftarplaggið var komið þá sendi ég það á minn forstöðumann.

Plaggið var síðan áframsent á launadeild Reykjavíkurborgar og svarið frá þeim var skýrt; „BA í heimspeki myndi ekki teljast á fagsviði sundlaugarvarðar. Ef [Þórður] hefði menntað sig í íþróttafræðum þá væri t.d. sú menntun á fagsviði.“ Ég var því búinn að fá kjaftshögg. Ég hugsaði að gráðan mín væri nú kannski ekki upp á marga fiska og mögulega var þessi launahækkun hvort eð er ekki þess virði. En við þá gremju sá ég maðkinn í mysunni – hvers vegna var öðrum verðlaunað fyrir háskólagráðu sem nýttist við störf sundlaugarvarðar á meðan hinum væri sagt að hún nýttist ekki í starfi?

Röksemdirnar fyrir heimspekingnum voru því ófullnægjandi og ég var knúinn til þess að ráðast á rót vandans – jafnræðið – og berjast fyrir sjálfsvirðingu minni sem einstaklingi ásamt nytsemi heimspekinnar innan samfélagsins almennt.

Ég bý svo heppilega að því að eiga eldsprækan trúnaðarmann til taks á vinnustaðnum mínum og því upplýsti ég hann um málið og hann hvatti mig enn frekar að takast á við úrskurð kerfisins. Trúnaðarmaðurinn minn benti mér á ýmsar leiðir en sú fyrsta var að fara með málið í gegnum Sameyki og þaðan að launadeildinni en sú vinna tók ansi langan tíma og skilaði afar litlum árangri sem var miður.

Ég fór því að öðrum ráðum trúnaðarmannsins en það var að reyna á sjálfa jafnræðisregluna í gegnum mannauðsteymi MÍR, sem sundlaugar Reykjavíkur heyra undir, en þar fór boltinn loks að rúlla. Við það hófust tölvupóstasamskipti, ásamt nokkrum löngum símtölum, sem loks leiddu málið á þá leið að þau voru sammála mér að brotið hefði verið á jafnræðisreglunni og næstum sléttum 6 mánuðum frá því að ég hóf baráttuna þá fékk ég það svar að ég hefði unnið þennan slag. Ég fékk launahækkun og launaleiðréttingu 6 mánuði aftur í tímann ásamt að fólk með alls kyns háskólagráður fékk einnig launahækkun. Ég vil því hvetja félagsmenn, og aðra lesendur, til þess að standa með sjálfum sér og réttindum sínum og rísa upp andspænis breyskum sleggjudómum kerfisins.


Höfundur er félagi í Sameyki.