Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. nóvember 2025

Land tækifæranna? - Staða innflytjendakvenna í íslensku samfélagi

Frá kvennaverkfalli 24. október sl. Ljósmynd/Kvennaár

„Niðurstöður Vörðu sýna að hærra hlutfall innflytjendakvenna en innfæddra kvenna er í launuðu starfi á vinnumarkaði (81% á móti 74%) og sömuleiðis í fullu starfshlutfalli (77% á móti 60%).”

Eftir Sóllilju Bjarnadóttur, sérfræðingur í rannsóknum, og Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu - Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins.

Í október voru 50 ár liðin frá því að mikill meirihluti kvenna á Íslandi lagði niður launuð og ólaunuð störf til að krefjast þess að framlag þeirra á vinnumarkaði og inni á heimilum yrði metið til jafns við framlag karla. Í tilefni þeirra tímamóta hefur árið verið helgað kvennabaráttu auk þess sem ýmsir aðilar hafa fjallað um stöðu kvenna og efnt til viðburða í tilefni kvennaárs.

Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins hefur undanfarin fimm ár lagt árlega fyrir könnun meðal launafólks í heildarsamtökunum BSRB og ASÍ. Í könnuninni er aflað gagna um stöðu launafólks í víðu samhengi og voru niðurstöður hennar birtar nýlega. Hér verður fjallað um stöðu innflytjendakvenna í samanburði við innfæddar konur og greint frá stöðu þeirra út frá þeim gögnum sem aflað var í könnun Vörðu um stöðu launafólks á Íslandi 2025.

 

Atvinnuþátttaka innflytjendakvenna meiri en innfæddra kvenna
Niðurstöður Vörðu sýna að hærra hlutfall innflytjendakvenna en innfæddra kvenna er í launuðu starfi á vinnumarkaði (81% á móti 74%) og sömuleiðis í fullu starfshlutfalli (77% á móti 60%). Auk meiri atvinnuþátttöku meðal innflytjendakvenna er einnig talsverður munur á starfsvettvangi og starfsgreinum sem þær starfa í, samanborið við innfæddar konur. Mun hærra hlutfall innflytjendakvenna en innfæddra starfar hjá einkareknu fyrirtæki (65% á móti 40%) en innfæddar konur starfa í meiri mæli hjá ríki (27% á móti 15%) og sveitarfélögum (24% á móti 13%).

 

Mikill munur á atvinnugreinum
Rannsóknir Vörðu og annarra hafa ítrekað sýnt að vinnumarkaðurinn er kynskiptur, þar sem konur eru í mun meiri mæli í ákveðnum störfum en karlar í öðrum. Þrátt fyrir að konur séu bornar saman innan hóps kvenna kemur einnig fram talsvert mikill munur á atvinnugreinum sem innfæddar og innflytjendakonur starfa í. Þannig starfa til að mynda tæplega 15% innflytjendakvenna við ræstingar en sama á einungis við um 1% innfæddra kvenna. Munurinn sést í fleiri atvinnugreinum þar sem mun hærra hlutfall innflytjendakvenna en innfæddra kvenna starfar. Það á m.a. við um ferðaþjónustu (11% á móti 6%), veitingahús og mötuneyti (11% á móti 2%), framleiðslu (6% á móti 2%) og fiskvinnslu (5% á móti 1%). Nokkuð stór hluti innflytjendakvenna starfar þó einnig í hefðbundnum kvennagreinum; heilbrigðisþjónustu (14% á móti 26%) og í skóla- og fræðslumálum (14% á móti 15%) en í þeim greinum er hlutfall innfæddra kvenna hærra.


Mynd 1. Heildartekjur kvenna eftir uppruna. 

Meiri atvinnuþátttaka en lægri atvinnutekjur
Þrátt fyrir að hærra hlutfall innflytjendakvenna en innfæddra kvenna sé í launuðu starfi og í fullu starfshlutfalli eru atvinnutekjur þeirra umtalsvert lægri. Þannig eru ríflega átta af hverjum tíu innflytjendakonum með 749 þúsund krónur eða lægri heildartekjur á mánuði (82%) en sama á við um sex af hverjum tíu meðal innfæddra kvenna (63%). Innflytjendakonur eru auk þess líklegri til að búa á tekjulægri heimilum. Það á við um 76% þeirra samanborið við tæplega helming innfæddra kvenna (46%) þar sem heildartekjur heimilisins eru 999 þúsund krónur eða lægri.


Mynd 2. Í eigin húsnæði.

Innflytjendakonur eru í mun meiri mæli á almennum leigumarkaði
Rannsóknir Vörðu hafa ítrekað sýnt að staða innfæddra og innflytjenda á húsnæðismarkaði er gjörólík. Mun hærra hlutfall innflytjendakvenna en innfæddra kvenna er í leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði (43% á móti 10%) og í leiguhúsnæði á vegum atvinnurekanda (7% á móti 0,4%). Að sama skapi er mun fátíðara að innflytjendakonur séu í eigin húsnæði (30% á móti 75%).

 

Verri fjárhagsstaða innflytjendakvenna
Lægri atvinnutekjur, heimilistekjur og gjörólík staða innflytjendakvenna á húsnæðismarkaði endurspeglast í fjárhagsstöðu þeirra. Hærra hlutfall innflytjendakvenna en innfæddra á erfitt með að ná endum saman (44% á móti 29%) og skortir félags- og efnisleg gæði (38% á móti 22%).

 

40% innflytjendakvenna búa við slæma andlega heilsu
Þegar líkamleg heilsa innflytjendakvenna og innfæddra kvenna er skoðuð sést að nánast enginn munur er á hlutfalli þeirra sem meta líkamlega heilsu sína frekar eða mjög slæma (18% og 18%). Allt önnur mynd blasir við þegar litið er til andlegrar heilsu þar sem fjórar af hverjum tíu innflytjendakonum búa við slæma andlega heilsu en 29% þeirra innfæddu.


Mynd 3. Slæm andleg heilsa.

Greiningar Vörðu á stöðu innfæddra og innflytjendakvenna leiða í ljós að skýr munur er á stöðu þeirra og aðstæðum. Rannsóknir Vörðu njóta sérstöðu þar sem þátttaka innflytjenda í könnunum stofnunarinnar er mjög góð en almennt er þátttaka innflytjenda í könnunum minni en innfæddra. Nauðsynlegt er að varpa ljósi á stöðu mismunandi hópa og nota gögn til opinberrar stefnumótunar og aðgerða. Rannsóknir Vörðu hafa ítrekað sýnt að staða innflytjenda er ólík stöðu innfæddra og sú mynd dregst hér upp enn og aftur.

Greinin birtist fyrst í Tímariti Sameykis 4. tbl. 2025.