2. desember 2025
Mikilvægi náms og þróunar

Sameyki hefur á undanförnum árum byggt upp öflugt samstarf við Framvegis og Starfsmennt sem bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða og námsleiða á vorönn og haustönn
„Við hjá Sameyki vitum að fræðsla er ekki aðeins verkfæri til framgangs í lífi og starfi, heldur líka grundvöllur jöfnuðar á vinnumarkaði. Með því að tryggja aðgengi allra að námi og endurmenntun styrkjum við stöðu starfsfólks og stuðlum að jafnvægi á vinnumarkaði því eins og sagt er gjarnan; menntun er réttur – ekki forréttindi."
Eftir Jóhönnu Þórdórsdóttur
Fræðsla er eitt mikilvægasta verkfæri starfsfólks til að efla sig í starfi, mæta breytingum á vinnumarkaði og tryggja jöfn tækifæri allra. Sameyki leggur ríka áherslu á að félagsfólk hafi aðgang að fjölbreyttum námsleiðum í gegnum fræðslumiðstöðvarnar Framvegis og Starfsmennt, og að fræðslan sé í takt við nýjar áskoranir á vinnumarkaðnum, þar á meðal þær sem fylgja gervigreind og stafrænum umbreytingum.
Á vinnumarkaði dagsins í dag gerast breytingar hraðar en nokkru sinni fyrr. Ný tækni, breytt vinnuumhverfi og auknar kröfur um hæfni kalla á stöðuga endurmenntun og símenntun félagsfólks í Sameyki og almennt á vinnumarkaði. Til að mæta þessum breytingum þarf starfsfólk að hafa raunhæf og góð tækifæri til að efla sig og þróast í takt við þessar breytingar og þess vegna er fræðsla sem í boði er á vegum Sameykis eitt mikilvægasta jöfnunartæki vinnumarkaðarins.
Fræðsla fyrir allt félagsfólk
Sameyki hefur á undanförnum árum byggt upp öflugt samstarf við Framvegis og Starfsmennt sem bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða og námsleiða á vorönn og haustönn. Starfsmennt leggur áherslu á símenntun og starfsþróun fyrir opinbera starfsmenn, bæði í stað- og netnámi. Þar má meðal annars finna námskeið um gervigreind, teymisvinnu, samskipti, skipulag, þjónustu og stafræna hæfni. Framvegis býður jafnframt upp á fjölbreytt námskeið í gegnum Gott að vita, hvort sem er í staðnámi eða fjarnámi. Einnig sérhæfir Framvegis sig í að bjóða upp á annað tækifæri til náms fyrir þá sem hafa lagt lykkju á leið skólagöngu sinnar.
Námið hjá bæði Starfsmennt og Framvegis er hagnýtt og miðar að raunverulegum þörfum fólksins sem sinnir fjölbreyttum daglegum verkefnum. Það hjálpar starfsfólki við að taka næstu skref í starfsþróun, auka öryggi sitt á vinnumarkaði, njóta gleði og ná árangri í störfum sínum. Félagsfólk getur líka bókað samtal við náms- og starfsráðgjafa hjá Starfsmennt sér að kostnaðarlausu til að skýra sínar áherslur í fræðsluvali.
Menntun sem jöfnuður
Við hjá Sameyki vitum að fræðsla er ekki aðeins verkfæri til framgangs í lífi og starfi, heldur líka grundvöllur jöfnuðar á vinnumarkaði. Með því að tryggja aðgengi allra að námi og endurmenntun styrkjum við stöðu starfsfólks og stuðlum að jafnvægi á vinnumarkaði því eins og sagt er gjarnan; menntun er réttur – ekki forréttindi. Sameyki hefur um árabil lagt áherslu á að félagsfólk geti nýtt sér þau námskeið sem í boði eru hverju sinni og veitir félagsfólki námsstyrki til þess í gegnum Mínar síður Sameykis. Við lítum svo á að fræðslan sé samfélagsleg fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka.
Ein stærsta áskorun samtímans er hin hraða þróun gervigreindarinnar. Þessi nýja tæknibylting hefur á undanförnum árum breytt því hvernig við vinnum, lærum og hugsum. Gervigreind getur hjálpað okkur að vinna markvissar, bæta þjónustu og aukið skilvirkni í starfi en um leið krefst hún nýrrar þekkingar og ábyrgðar. Sameyki hvetur félagsfólk til að kynna sér vel hvernig nýta má gervigreind á gagnlegan og ábyrgan hátt. Þá er rétt að benda sérstaklega á að í samstarfi við Framvegis og Starfsmennt eru nú í boði námskeið sem fjalla sérstaklega um notkun gervigreindar í daglegum störfum og áhrif hennar á vinnuumhverfi. Að mennta sig í gervigreind og stafrænum hæfniþáttum er mikilvægt, og þau sem tileinka sér hana núna verða betur í stakk búin til að takast á við breytingar og ný tækifæri á vinnumarkaði framtíðarinnar.
Aldrei hefur það verið okkur betur ljóst sem störfum í fræðslumálum hjá Sameyki að fræðsla er fjárfesting í framtíðinni fyrir einstaklingana jafnt sem samfélagið allt því fræðsla eykur sjálfstraust og starfsánægju en opnar líka um leið á ný tækifæri. Fyrir vinnustaði getur fræðsla, ef rétt er að staðið, verið lykillinn að betri þjónustu, aukinni fagmennsku og betri starfsanda. Með öflugu fræðslustarfi í samstarfi við Framvegis og Starfsmennt tryggir félagið að félagsfólk haldi áfram að vaxa, takast á við nýja tíma og nýta kraft tækninnar til að bæta bæði störf og samfélag.
Höfundur er fræðslustjóri Sameykis.