Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. janúar 2025

Kári Sigurðsson tekur við formennsku hjá Sameyki

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG

Kári Sigurðsson, sem verið hefur varaformaður Sameykis, hefur tekið við formennsku hjá félaginu frá og með deginum í dag. Hann tekur við formennsku af Ingibjörgu Sif Sigríðardóttur sem gegnt hefur því hlutverki frá 11. október 2024. Ingibjörg Sif verður áfram í stjórn félagsins og tekur við sem varaformaður Sameykis samfara því að Kári tekur við formennsku. Hún mun hverfa aftur til sinna fyrri starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur.


Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, varaformaður Sameykis.

„Kári er vandaður maður og vel að því kominn að taka við formennskunni af mér. Ég tók þá ákvörðun að vel hugsuðu máli að snúa mér að þeim störfum sem ég hef sinnt áður hjá Orkuveitunni. Ég mun áfram sitja í stjórn félagsins sem varaformaður og við í stjórninni stöndum einhuga saman að því að Kári taki við sem formaður félagsins,“ segir Ingibjörg Sif.

Kári er reynslumikill og öflugur í félagsmálum og hefur setið í stjórn félagsins frá því snemma á árinu 2020. Áður en hann settist í stjórn Sameykis var hann trúnaðarmaður á sínum vinnustað hjá Reykjavíkurborg. Hann hóf störf við félagsmiðstöðvarnar í Breiðholti fyrir 17 árum, fyrst í hlutastarfi í Félagsmiðstöðinni 111 og síðan í Félagsmiðstöðinni við Hólmasel frá 2008 í fullu starfi. Hann starfaði sem verkefnastjóri forvarna hjá Reykjavíkurborg og hafði umsjón með starfi Flotans sem er flakkandi félagsmiðstöð sem sinnir vettvangsstarfi utan opnunartíma félagsmiðstöðvanna.

Starfsfólki Sameykis var tilkynnt um þessa ákvörðun stjórnar á starfsmannafundi í morgun. Stjórn félagsins er kosin á þriggja ára fresti á félagslegum grunni samkvæmt lögum félagsins. Næsta stjórnarkjör í félaginu fer fram í mars 2027.

Stjórn og starfsfólk Sameykis þakkar Ingibjörgu Sif fyrir gott starf sem formaður félagsins og óskar nýjum formanni, Kára Sigurðssyni, velfarnaðar í sínum störfum fyrir Sameyki.