Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. febrúar 2025

Breyting á úthlutunareglum fræðslu styrkja til stofnana og starfsstaða

Stofnanir og starfsstaðir félagsfólks geta sótt um styrki vegna fræðslutengdra verkefna sem snúa að því að þróa hæfni þess félagsfólks sem samningsaðilar greiða iðgjald fyrir í sjóði. Um er að ræða Þróunar- og símenntunarsjóð Sameykis, Fræðslusjóð Sameykis og Mannauðssjóðinn Heklu. Hvaða sjóður það er ræðst af samningsaðila.

Þann 1. febrúar taka gildi uppfærðar úthlutunarreglur fyrir Þróunar- og símenntunarsjóð en úthlutunarreglur fyrir Mannauðssjóðinn Heklu er enn í vinnslu. Stærsta breytingin er stofnun Torgssjóðs hjá Reykjavíkurborg en önnur helsta breytingin snýr að fræðsluferðum erlendis en styrkupphæð vegna verkefna sem fara fram erlendis getur að hámarki numið 85% af heildarkostnaði. Ekki er heimilt að sækja um mismuninn, 15%, undir einstaklingsstyrkjum (starfsmenntunar-, starfsþróunar-, vísindaverkefni). Þá er einnig hámark á greiðslu fyrir gistingu og er miðað við ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins sem byggir á SDR gengi og skiptist í fjóra flokka.

 

Þróunar og símenntunasjóður Sameykis
Stofnanir, ráðuneyti og atvinnurekendur sem greiða í Þróunar- og símenntunarsjóð Sameykis geta sótt um styrki vegna verkefna sem snúa að þróun mannauðs og leiða af sér nýsköpun, framþróun og/eða breytt verklag, s.s. námskeið, fagráðstefnur og fræðsluferðir. Þá eru veittir styrkir til að setja upp skilgreint verklag í mannauðsmálum. Þeir sem geta sótt um í sjóðinn eru Ás styrktarfélag, Fríhöfn, Isavia, Klettabær, Matís, Rarik, ríkisstofnanir, ráðuneyti fyrir starfsfólk í FSS, starfsstaðir sem heyra undir SFV - Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, sjálfseignastofnanir og Vinakot.

Nánari upplýsingar, umsóknargátt og úthlutunarreglur má finna hér á vef Sameykis.

 

Fræðslusjóður Sameykis vegna Reykjavíkurborgar
Á grundvelli bókunar 10 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu frá 2024 hafa aðilar farið í skoðun og greiningu á nýtingu iðgjalda til fræðslumála og fyrirkomulagi fræðslusjóða. Samkomulag hefur náðst milli aðila um að frá 1. febrúar 2025 verði iðgjald sem nemur 0,25% af heildarlaunum greitt í svokallaðan Torgssjóð sem verði í vörslu Reykjavíkurborgar, en það var áður greitt til Fræðslusetursins Starfsmenntar. Torgið er hluti af fræðslukerfi Reykjavíkurborgar og verður Torgssjóður starfsþróunarsjóður sem ætlað er að styðja við þróun fræðslumála innan Reykjavíkurborgar, þ.m.t. í stafræna þróun fræðslumála á vettvangi fræðslukerfisins Torgsins. Markmiðið er að koma til móts við sífellt fjölbreyttara starfsumhverfi starfsfólks og tryggja framboð á fræðsluefni til starfsfólks innan fræðslukerfisins.

Breytingin felur í sér að starfsstaðir Reykjavíkurborgar sækja um styrki vegna fræðsluferða og sérhæfðra ráðstefnuferða í Fræðslusjóð Sameykis, en vegna annarra verkefna sækja þeir um í Torgssjóð.

Nánari upplýsingar, umsóknargátt og úthlutunarreglur má finna hér.

 

Fræðslusjóður Sameykis vegna Félagsbústaða, Faxaflóahafna og Strætó
Félagsbústaðir, Faxaflóahafnir og Strætó geta sótt um styrki vegna verkefna sem snúa að þróun mannauðs og leiða af sér nýsköpun, framþróun og/eða breytt verklag, s.s. námskeið, fagráðstefnur og fræðsluferðir.

Nánari upplýsingar, umsóknargátt og úthlutunarreglur má finna hér á vef Sameykis.

 

Mannauðssjóðurinn Hekla vegna sveitarfélaga
Mannauðssjóður Samflots, Mannauðssjóður Kjalar og Mannauðssjóður KSG hafa sameinast undir merkjum Mannauðssjóðsins Heklu sem tók til starfa 1. janúar 2025. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til fræðsluverkefna á vegum sveitarfélaga og stofnanna þeirra sem tengjast markvissri starfsþróun starfsfólks sveitarfélaga. Auk þess rekur sjóðurinn mannauðssetur sem mótar stefnu og vinnur tillögur að fræðslutækifærum auk þess að styðja og skipuleggja fræðslu til stofnana m.a. um skipulag og framsetningu símenntunnaráætlana. Mannauðssetur leggur áherslu á samtarf við tengda fræðsluaðila. Í vinnslu eru nýjar úthlutunarreglur og umsóknargátt en ekki er tekið við umsóknum á meðan sú vinna stendur yfir.

Nánari upplýsingar má finna hér.