3. febrúar 2025
Tímarit Sameykis á leið í pósti til félagsfólks

Tímarit Sameykis, 1. tbl. 2025.
Tímarit Sameykis er á leið glóðvolgt í pósti til félagsfólks. Í fyrsta tölublaði á þessu ári er umræðan tileinkuð ofbeldi gegn konum. Kynferðislegt ofbeldi gegn konum er alvarlegt samfélagslegt vandamál á Íslandi. Í tímaritinu er rætt við Jennýju Kristínu Valberg, framkvæmdastýru Bjarkarhlíðar um þennan vanda, hverjar birtingarmyndir ofbeldis eru gegn konum í nánum samböndum en líka hvernig gerendur beita ofbeldi á vinnustöðum. Einnig skrifar Drífa Snædal, talskona Stígamóta um afleiðingar ofbeldis gegn konum. Fjallað er um húsnæðismarkaðinn á Íslandi í tímaritinu og rætt er við Björn Traustason, framkvæmdastjóra Bjargs. Þá skrifar Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá HMS, um stöðuna á húsnæðismarkaðnum.
Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, varaformaður Sameykis, skrifar í leiðaragrein að ofbeldi á vinnustöðum getur tekið á sig ýmsar myndir – frá líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi yfir í andlegt ofbeldi, einelti og misnotkun valds. Þá segir hún að Kvennaár 2025 getur orðið vettvangur til að knýja fram raunverulegar breytingar. „Með samstilltu átaki stjórnvalda, stéttarfélaga og atvinnulífsins er hægt að skapa menningu þar sem ofbeldi ekki er liðið í neinum birtingarmyndum.“
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, skrifar um Kvennaár 2025. „Við búum enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við er að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt að framlag kvenna og kvára til samfélagsins er gróflega vanmetið sem endurspeglast í launamun kynjanna.“
Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, segir í viðtali að félagið gæti byggt miklu fleiri íbúðir. Hann segir að þéttingarstefnan sé komin á endastöð og vill brjóta nýtt land í Úlfársárdal þar sem skipulagt hafði verið tíu þúsund íbúða hverfi. Björn segir að sú uppbygging þar hafi verið stöðvuð með einu pennastriki.
Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá HMS, skrifar um stöðuna á húsnæðismarkaðnum og segir að stjórnvöld verði bæði að líta til skemmri og lengri tíma til þess koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn og tryggja að húsnæði sé til á viðráðanlegu verði.
Guðrún Rakel Eiríksdóttir, sviðsstjóri forvarna hjá VIRK, skrifar um kulnun á íslenskum vinnumarkaði.
Fastir liðir eins og venjulega eru í tímaritinu: Skop Halldórs Baldurs, Stoppað í matargatið, Af vettvangi Sameykis, krossgátan og verðlaunahafi krossgátulausnarinnar o.m.fl.
Þau sem vilja afþakka Tímarit Sameykis í pósti geta smellt hér og fyllt út formið á síðunni.
