16. maí 2025
Vel sóttur fundur trúnaðarmannaráðs Sameykis

Frá fundi trúnaðarmanna Sameykis 15. maí 2025.
„Á trúnaðarmannafundinum kynnti stjórn félagsins m.a. drög að fyrstu tillögum að formlegum og ítarlegum starfsreglum stjórnar félagsins, nauðsynlegar tillögur að skerðingum á ákveðnum úthlutunarreglum vegna taps sjúkrasjóðs félagsins undanfarin misseri og fjölgun nefndarfólks í laganefnd félagsins.“
Trúnaðarmannaráð Sameykis kom saman til fundar fimmtudaginn 15. maí á Grand hótel þar sem nokkur mál voru til umræðu. Kári Sigurðsson, formaður félagsins setti fundinn sem Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis, stýrði í kjölfarið. Um 90 manns sóttu trúnaðarmannaráðsfundinn í fundarsal auk um 40 manns í beinu streymi. Fundurinn, sem stóð í um tvær klukkustundir, einkenndist af málefnalegri samræðu og góðri þátttöku fundarmanna í umræðum um einstaka dagskrárliði. Að fundi loknum var boðið upp á léttar veitingar.

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis setti fundinn hjá Trúnðarmannaráði.
Starfsreglur stjórnar
Á fundinum voru í fyrsta sinn kynnt drög að tillögum að formlegum starfsreglum nýrrar stjórnar Sameykis. Skjalið er enn í vinnslu á vegum stjórnar, en tillögurnar eru á meðal áhersluatriða hennar um aukið gagnsæi og meiri upplýsingamiðlun til félagsfólks. Reglunum er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að unnt sé að gera starfslokasamninga á borð við þann sem nýlega var gerður og vakið hefur athygli og umtal. Að mati lögmanna krefst sú tillaga breytingar á lögum félagsins. Þá felst einnig í tillögum stjórnar að auka vægi trúnaðarmannaráðs Sameykis í störfum félagsins, en í því sitja í heild 330 trúnaðarmenn starfsstaða og stofnana um allt land.
Í heild fela megintillögur stjórnar um starfsreglur stjórnar í sér skýrar reglur sem varða mögulega hagsmunaárekstra stjórnar- og starfsfólks Sameykis, trúnaðaryfirlýsingar, sem starfsfólki og stjórn verður gert að undirrita, ákvæði er varða skyldur og réttindi fulltrúa í stjórn Sameykis, sem nýtast ekki síst þeim til kynningar sem hafa áhuga til að taka að sér trúnaðarstörf fyrir Sameyki, svo nokkur áhersluatriði séu nefnd en eftir á að afgreiða formlega. Nánari grein verður gerð fyrir þessari vinnu þegar nær dregur lokaútgáfu skjalsins.
Breytingar á reglum í Styrktar- og sjúkrasjóði
Á árinu 2024 varð tap á rekstri sjúkrasjóðs Sameykis sem nam um 65 milljónum króna. Félagið gerir skýlausa kröfu um fjárhagslega sjálfbærni í rekstri sjóðsins og hefur því gert tillögur að niðurskurði á ýmsum liðum í útgjöldum til ákveðinna fjárhagsliða. Tillögurnar eru enn í vinnslu og er ekki enn fyllilega ljóst hvar verður á endanum borið helst niður í niðurskurði og í hvaða mæli. Meðal þeirra liða sem ræddir voru á trúnaðarmannaráðsfundinum voru kostnaðarliðir er varða lækkun á hámarki sjúkradagspeningagreiðslna, lækkun á útgreiðslum vegna tannlæknakostnaðar og lækkun fæðingarorlofsstyrkja svo nokkuð sé nefnt.

Borghildur Sigurðardóttir, fjármálastjóri, og Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, fara yfir mál tengd sjúkrasjóði.
Breyttingar hjá Laganefnd
Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður laganefndar Sameykis, kynnti nýja skipan í laganefnd félagsins þar sem til þessa hafa setið sex, en verða átta til næsta aðalfundar. Í nefndinni eru, auk Ingibjargar, Suzana Vranjes, Kristín Erna Arnardóttir, Svanhildur Steinarsdóttir, Helga Bryndís Kristjánsdóttir og Egill Heiðar Gíslason. Með breytingunni hafa nú tekið sæti Garðar Svansson og Trausti Jónsson sem hafa dýrmæta þekkingu á málaflokknum sem nýtast mun laganefnd Sameykis í verkefnum sínum fram undan í undirbúningsvinnu fyrir næsta aðalfund.

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, varaformaður Sameykis og formaður laganefndar.
Fleiri ljósmyndir frá fundinum má skoða hér í myndasafni.




