Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. ágúst 2025

NSO ráðstefna: Fjölgun opinberra starfa í Noregi

Tore Leirfall hjá stéttarfélagi opinberra starfsmanna í Noregi, YS Stat, sagði að þar í landi hefur verið farið í verkefni til að viðhalda grunnþjónustunni úti á landsbyggðinni . Samsett mynd/Axel Jón

Tore Leirfall hjá stéttarfélagi opinberra starfsmanna í Noregi, YS Stat, (215.000 félagsmenn) sagði að þar í landi hefði verið ráðist í að viðhalda grunnþjónustunni úti á landsbyggðinni með verkefni sem snýst um að færa störf út á land með því að setja upp starfsstöðvar í stað þess að færa stofnanir til, sem er gríðarlega kostnaðarsamt. Tore sagði að þegar t.d. ráðuneyti væri endurskipulagt í Osló væri stöðugildum fækkað þar um 30-40 prósent til að mæta þessum breytingum um fjölgun starfa á landsbyggðinni. Fleiri sjónarmið gilda eins og húsnæðisskortur og verð á húsnæði sem er ódýrara á landsbyggðinni en í höfuðborg Noregs.

Þá sagði Tore að nauðsynlegt þætti að sameina sveitarfélög enn frekar nú en áður til að ná fram hraðari þróun í að fjölga störfum á landsbyggðinni. Verkefnið felst einnig í að styrkja grunnþjónustuna sem er nú þegar við lýði. Hvað varðar störf í grunnþjónustunni þar sem fólk býr nyrst í Noregi þarf að auka fjölbreytileika starfanna til að styrkja byggðina. Til dæmis eru opinber störf einhæf nyrst í Noregi, eins og við herþjónustu og landamæragæslu. Auka þarf möguleika fólks að starfa á slíkum svæðum um 25% en það er ekki einfalt mál segir Tore, því félagsfólk stéttarfélagsins langar ekki til að flytja nyrst í Noreg.

„Við virðum sjónarmið okkar félagsfólks auðvitað hvað þetta varðar en við viljum skapa fleiri störf út á landsbyggðinni. Þetta verkefni snýst um að skapa fleiri og fjölbreyttari opinber störf í héruðunum sem veita nauðsynlega grunnþjónustu. Í innanríkisráðuneytinu er unnið við að ráða fólk í dreifðum byggðum hjá ýmsum stofnunum ríkis og sveitarfélaga og heimsfaraldurinn kenndi okkur að það er vel hægt að sinna fjarvinnu þar sem ekki er nauðsynlegt að fólk hittist. Með þessum starfsstöðvum er verið að skapa þekkingarklasa sem hægt er sækja í og sameina ólík störf og þjónustu eins og húsnæðismál, fjármál og skattamál og ýmsa aðra þjónustu sem ríki og sveitarfélög veita. Niðurstaða þessa verkefnis er ekki komin í ljós en því mun ljúka síðar á þessu ári,“ sagði Tore.