18. ágúst 2025
NSO ráðstefna: Húsnæðismarkaður á Norðurlöndum í vanda

Niko Simola, formaður Trade Union Pro. Samsett mynd/Axel Jón
Finnar standa fyrir NSO ráðstefnunni í ár og við setningu hennar sagði Niko Simola, formaður Trade Union Pro, sem er stærsta stéttarfélag opinberra starfsmanna í Finnlandi, að húsnæðismál á Norðurlöndunum væru nauðsynlegt umræðuefni vegna þess hve stjórnlausar hækkanir kæmu illa niðri á kaupmætti launafólks.
Húsnæðismál i Færeyjum í ólestri
Anna Johannesen, ritari Starvsfélagsins í Færeyjum, sagði að húsnæðismálin í Færeyjum væru í ólestri. Á eyjunum búa um 55 þúsund manns og fjölgun íbúa hefur síðastliðin tíu ár verið í kringum sjö þúsund manns. Anna sagði að í svo litlu samfélagi hefði ekki verið hægt að bjóða öllum menntun vegna skorts á húsnæði fyrir menntastofnanir. Þess vegna flytti fólk frá eyjunum til að afla sér menntunar.

Anne Johannesen, ritari Starvsfelagsins.
„Við hjá Starvsfélaginu höfum viljað fá þetta fólk til baka eftir að það hefur lokið við að mennta sig, en vegna húsnæðisskorts og fjölgunar íbúa kemur fólk ekki aftur heim. Því miður hefur opinberum starfsmönnum í grunnþjónustunni fækkað vegna þess að við fáum ekki starfsfólk og því hefur verið afar erfitt að veita þá þjónustu sem við viljum veita og sem krafist er. Þá er það stór þáttur að frá árinu 2014 hefur verið verðbólga í Færeyjum sem hefur fælt brottflutta frá að snúa aftur heim úr námi og kaupa sér húsnæði eða byggja sér hús því byggingarefni fyrir nýtt húsnæði er mjög dýrt, enn dýrara ef fólk þarf að flytja efnið frá höfðustaðnum Þórshöfn út á landsbyggðina. Talið er að byggja þurfi 500 íbúðir á ári til að mæta núverandi húsnæðisþörf,“ sagði Anna.
Þá sagði hún að leiguverð hefði farið ört hækkandi í Færeyjum. Meðaltal greiddrar húsaleigu á mánuði á núverandi gengi var 6000 dkr. (115 þúsund ISK) árið 2014 en er nú um 12000 dkr. (230 þúsund ISK) árið 2023. „Bankarnir eru óviljugir til að fjármagna nýtt húsnæði í dreifðari byggðum,“ sagði Anne. „Fólk á erfitt með að fjármagna húsnæði og að koma sér þaki yfir höfðið vegna erfiðleika við að fjármagna íbúðakaup. Bankarnir eru tregir til að lána því lánin eru dýr og afborganir háar, sérstaklega fyrir ungt fólk. Til dæmis hefur ríkið byggt 400 íbúðir í Þórshöfn en aðeins er staðfest fjórir kaupendur því húsnæðið er of dýrt. Þetta segir alla söguna um ástandið á húsnæðismarkaðnum hjá okkur í Færeyjum,“ sagði Anna Johannesen.
Lausnin frekar óhagnaðardrifinn húsnæðismarkaður í gegnum leigufélög en hagnaðardrifinn fjárfestingamarkaður
Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis, fjallaði um húsnæðismarkaðinn á Íslandi. Hann greindi stuttlega frá sögu húsnæðismarkaðarins frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks breytti lögum þess efnis að fólk gat fengið 90% húsnæðislán: „Síðan þá hefur húsnæði hækkað stjórnlaust.“ Gunnsteinn sagði að húsnæðismálin væru í raun stærsta kjaramálið í dag á Íslandi. Þá sagði hann að háir og sveiflukenndir vextir, ásamt viðvarandi verðbólgu hefðu verið að stórum hluta knúin áfram af húsnæðiskostnaði og hefðu ýtt enn frekar undir óstöðugleika á húsnæðismarkaðnum.

Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis, flytur erindi sitt á NSO-ráðstefnunni í Helsinki.
„Leigumarkaðurinn er tiltölulega lítill og lítt þróaður á Íslandi en leigufélög eiga minna en 2% af öllu íbúðarhúsnæði á landinu á meðan íbúðarhúsnæði til útleigu í eigu einstaklinga er um 8% af heildarfjölda íbúða. Af íbúðum í eigu einstaklinga er nokkur hluti í skammtímaleigu fyrir ferðamenn (t.d. Airbnb). Það vantar líklega um tíu til tólf þúsund íbúðir í dag inn á húsnæðismarkaðinn til að anna eftirspurninni eða þörfinni. Áætlað er þessu til viðbótar að byggja þurfi árlega um þrjú til fimm þúsund íbúðir á ári á landinu öllu til að halda í við fólksfjöldaþróunina og þróun samfélagsins. Þá hef ég trú á að lausnin sé frekar óhagnaðardrifinn markaður í staðinn fyrir að hann sé hagnaðardrifinn fjárfestingamarkaður eins og nú er,“ sagði Gunnsteinn.
Ítarleg grein eftir Gunnstein R. Ómarsson um íslenska húsnæðismarkaðinn mun birtast í næsta tölublaði Tímarits Sameykis sem kemur út í september.
Húsnæðismál er stórpólitíkst mál
Formenn stéttarfélaga í Noregi og Svíþjóð tóku undir að vandi í húsnæðismálum væri mikill á Norðurlöndunum.

Britta Lejon, formaður ST stéttarfélags opinberra starfsmanna í Svíþjóð, sagði að störf eins og hjá hjúkrunarfræðingum og öðrum sem sinna grunnþjónustunni hjá hinu opinbera kæmu í veg fyrir að fólk gæti keypt sér ódýrara húsnæði vegna þess hvar störfin væru staðsett og þau krefðust nándar.
„Þetta er svipuð staða í Svíþjóð og lýst hefur verið á Íslandi og í Færeyjum. Við stöndum líka frammi fyrir því að launafólk hefur fjárfest í húsnæði en greiðir of stóran hluta af sínum launum í afborganir og í vexti af húsnæðislánum. Það er í raun kröfugerð í kjarasamningum að bæta úr þessum málum þannig að launin dugi fyrir allri framfærslu eins og þau gerðu áður. Það er nefnilega kaupmáttarrýrnun þegar bæði vextir af lánum og íbúðarhúsnæði hækka. Þróunin sem orðið hefur í Svíþjóð er að ungt fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn á venjulegum launum. Þau duga ekki. Ég vil líka nefna að á Stokkhólmssvæðinu getur verið erfitt fyrir vinnuveitendur að fá starfsfólk því það er heldur ekki til húsnæði fyrir fólk. Mér virðist skorta á umræðu í samfélaginu um húsnæðismál því þetta er stórpólitískt mál og ég hef áhyggjur af því að húsnæðismál séu ekki rædd í kosningabaráttu núorðið,“ sagði Britta Lejon.