19. ágúst 2025
NSO ráðstefna: Innviðaöryggi samfélaganna

Janne Känkänen á NSO-ráðstefnunni í dag. Samsett mynd/Axel Jón
Janne Känkänen er forstjóri Neyðarbirgðastofnunar Finnlands (NESA) og hélt hann erindi um innviðaöryggi á NSO-ráðstefnunni sem haldin er í Helsinki. Känkänen býr yfir mikilli reynslu af sérstökum verkefnum stjórnvalda um björgun fyrirtækja í vanda og fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra þegar neyðarástand skapast í samstarfi við Evrópusambandið. Áður en hann tók við núverandi starfi sínu hafði Känkänen gegnt ýmsum stöðum innan finnska efnahags- og atvinnumálaráðuneytisins og nokkrum stjórnunarstöðum í málefnum innviðaöryggis frá árinu 2008. Þá er Känkänen með meistaragráðu í hagfræði frá Háskólanum í Helsinki.
NESA er sjálfstæð stofnun sem rekur 2 milljarða evra neyðarbirgðasjóð og samhæfir víðtækt net finnskra fyrirtækja sem eru talin mikilvæg fyrir viðnámsþrótt þjóðarinnar. Stofnunin ber ábyrgð á að viðhalda stefnumótandi stöðu Finnlands í þjóðaröryggismálum.
Nauðsynlegt að hafa getu til að bregðast við áföllum innanlands
„Stefna stofnunarinnar vegna breytinganna í heimsmálunum er sú að innviðakerfin bregðist strax rétt við þegar breytingar verða á umhverfi okkar vegna stríðsátaka en líka vegna efnahagslegra breytinga sem stríðsátök valda. Við þurfum að tryggja að afhendingaröryggið standist þannig álag innanlands þó við reiðum okkur venjulega á að verðmætakerfi á heimsvísu rofni ekki. Í afhendingarþáttum reiðum við okkur á flutningskerfi frá Kína og frá ESB en við þurfum líka að hafa getu til að bregðast við innanlands.

Leiðbeiningar um neyðarbirgðir fyrir 72 klst.
Til að mæta og vera viðbúin óvæntu ástandi þá höfum við búið til ákveðin fagsvið sem hafa umsjón með að innviðir þoli áföll; vatnsveitu, tækniöryggi, matvælaöryggi og fleira. Þessi undirbúningur um aukið öryggi innviðanna byggist á samstarfi við Norðurlandaþjóðirnar og stofnunin sem ég stend í forsvari fyrir þarf að hafa getu til að horfa fram á veginn og vera undirbúin fyrir að neyðarástand af þessari stærðargráðu geti skapast. Við viljum tryggja að innviðirnir gangi áfram þó áföll dynji yfir okkur. Samstarfið byggir á miðlun upplýsinga um öryggismál; netöryggi, tæknivarnir eins og hýsingarþjónustu og sæstrengi, fjármálaumhverfi tengt fjármálaöryggi, gas, hita, vatn, rafmagn, loftgæði, land, haf, heilsuvernd og þar fram eftir götum.
Með þessu sköpum við tengslanet allra þessara ólíku aðila og er einkageirinn þar ekki undanskilinn. Núna er Finnland tilbúið fyrir óvænta atburði. Við höfum gefið út leiðbeiningar fyrir almenning um að fólk þurfi að hafa á heimilum sínum áætlun fyrir 72 klst. Það þarf að hafa tryggt sér mat, vatn, útvarp, rafhlöður o.fl. ef til neyðarástands kemur.
Grunnþættir ríkisins verða að vera til staðar í landinu af öryggisástæðum vegna óvissunnar sem við búum við. Það eru nú til birgðir í ákveðnum birgðageymslum víða um land sem eru mikilvægar. Þar er að finna olíu, þotubensín, lyf og lækningatæki, korn, áburð og hráefni til matvælaframleiðslu. Við erum ekki með lífræn matvæli í geymslu en höfum aðgang að náttúruauðlindum til að tryggja fæðuöryggi. Þá erum við með birgðir af mikilvægustu lyfjum til langs tíma ef til stríðs kemur. Hjá Evrópusambandinu er stefnan sú að allar nauðsynlegar birgðir sem ég nefni hér séu til fyrir alla Evrópu og hægt að nálgast þær í öllum aðildarlöndum ESB.
Kalla má út 300 þúsund manna varalið til að sinna innviðaöryggi
Ég vil segja í lokin að við eigum í góðu samstarfi og stöðugu samtali við stéttarfélögin í Finnlandi til að tryggja aðgang að hæfu starfsfólki sem hefur kunnáttu til að takast á við stórar krísur. Auk þess erum við með hermenn sem eru tilbúnir að taka þátt þegar alvarlegt ástand skapast. Þá má kalla til varnarlið, um 300 þúsund manns, sem mun sinna því hlutverki að verja innviðina innan borgarasamfélagsins.
Í Finnlandi er líffræðilegt aldursbil að breytast. Þjóðin er að eldast sem hefur í för með sér að efnahagsleg geta þjóðarinnar minnkar í raun. Það hefur áhrif á hvernig heildarkökunni er skipt til að viðhalda innviðaþróun. Ákveðin þróunarverkefni eru starfandi sem mæla orkugetu og notast við smáar en öflugar orkustöðvar sem munu geta séð borgum og bæjum fyrir lágmarksrafmagni. Þetta er til hliðar við innviðina sem nú þegar eru fyrir hendi. Þar til vara erum við tilbúin með orkukerfi sem keyrir á kolabruna og er annars ekki í notkun, enda aðeins hugsað til að nota í neyð þegar rafmagnsinnviðir bregðast,“ sagði Janne Känkänen, forstjóri Neyðarbirgðastofnunar Finnlands (NESA).