Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. ágúst 2025

NSO ráðstefna: Upplýsingaóreiða verkfæri í stríðum

Henrik Haapajärvi, Henrik Haapajärvi, yfirmaður alþjóðamála hjá Verkalýðsfélaginu PRO í Finnlandi, fjallaði um upplýsingaóreiðu á óvissutímum. Samsett mynd/Axel Jón

Henrik Haapajärvi, yfirmaður alþjóðamála hjá Verkalýðsfélaginu PRO í Finnlandi og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Sönnu Marin, fjallaði um upplýsingaóreiðu á NSO-ráðstefnunni í dag. Hann byrjaði á að fjalla um áhrif árása Rússa á opinbera þjónustu í Úkraínu. Hann sagðist ekki vita hvort næðist að skapa frið því það færi gegn hagsmunum Rússa að gefa eftir landsvæði þar. Þeir vildu sækja frekar fram til að ná landsvæðum og pólitískum yfirráðum í landinu sem áður var hliðhollt Rússlandi.

Treystu á norrænt samstarf í COVID-19 faraldrinum
„Ég var starfsmaður í ríkisstjórn Finnlands sem hófst með COVID-19 faraldrinum. Þar með hófust afskipti mín af upplýsinga- og öryggismálum í Finnlandi sem fólust í að bregðast við því neyðarástandi. Það sem ég segi hér í dag er þó aðeins mínar persónulegu vangaveltur og reynsla sem tengjast öryggismálum á alþjóðasviði. Ég get ekki deilt upplýsingum sem varða alþjóðlega leynd hér með ykkur í dag.

Við vitum að kórónuveiran mun ganga yfir heimsbyggðina reglulega en faraldurinn kenndi okkur hvernig við eigum að bregðast við neyðarástandi sem við höfum nú lært og varðveitum til framtíðar. Í kórónuveirufaraldrinum ræddu ríkisstjórnir allra Norðurlandanna saman um viðbragðsáætlanir, t.d. hvort verið væri að brjóta mannréttindi o.fl. Viðbrögðin fólust líka í að veita opinberan fjárstuðning til stofnana og fyrirtækja svo atvinnulífið gæti gengið sinn vanagang eftir að faraldrinum lyki.

Stjórnvöld í Finnlandi treystu mikið á önnur Norðurlönd hvað varðar fyrstu viðbrögð við faraldrinum, t.d. umgengnisreglur/hömlur sem varða mannréttindi. Enginn vissi í raun hve banvænn faraldurinn yrði. Á þann þátt var ekki hægt að leggja eðlilegt mat, því í raun vissi enginn hvernig ætti að bregðast við þessari vá. Vegna þess hve lík Norðurlöndin eru að gerð hvað varðar innviði, samskipti og upplýsingamál má segja að þau hafi ráðið ágætlega við faraldurinn og okkur tókst að losna við of miklar takmarkanir. Refsingar eins og t.d. í Bretlandi þar sem hægt var að reka opinbera starfsmenn úr starfi ef þeir virtu ekki ferðatakmarkanir innanlands hljómaði framandlega í eyru okkur sem búa á Norðurlöndunum. Þá var mikilvægt að huga að heimildum ráðamanna til að bregðast við neyðarástandinu og vera með tilbúinn verkfærakassa með lausnum sem byggja á lagaákvæðum.

Upplýsingaóreiða verkfæri í stríði Rússa
Vegna upplýsingaóreiðu þegar Rússar réðust inn í Úkraínu trúði stór hluti fólks í upphafi að þeir væru í fullum rétti til að ráðast á nágrannaþjóð sína. Það tók tíma að veita réttar og sannar upplýsingar um ástæðu innrásarinnar. Sama gilti um upplýsingar vegna kórónuveirufaraldursins. Ráðherrar og embættismenn bera mikla ábyrgð og eiga auðvitað að veita sannar og réttar upplýsingar um hvað sé raunverulega að gerast. Í því sambandi skipta boðleiðir milli aðila máli. Uppruna upplýsinga þarf alltaf að staðreyna áður en þær eru veittar og svo birtar. Þannig er forðast að atburðir sem þessir verði fóður fyrir pólitískt skotfóður.

Hefðin er þannig að þegar neyðarástand skapast verða viðbrögðin að byggja á löggjöf sem veitir heimildir til að takmarka ferðir borgaranna á einn eða annan hátt. Það geta verið hryðjuverkaárásir eða faraldur alvarlegra smitsjúkdóma þar sem fólk getur dáið í stórum stíl. Þegar svona faraldrar og neyðarástand verður er mikilvægt að geta haft stjórn á miðlun upplýsinga. Við pössuðum okkur á að gefa ekki út neinar upplýsingar um staðreyndir faraldursins sem ekki var búið að staðreyna áður af þar til bærum aðilum innan okkar kerfa.

Allt var þetta gert til að að vernda velferð borgaranna. Ríkið ber þessa ábyrgð – að skapa félagslegt öryggi. Þá er þátttaka stéttarfélaganna að miðla réttum upplýsingum til félagsmanna sinna mjög áríðandi þegar skipulagðar eru nýjar varnir vegna þess að breytt heimsmynd blasir við,“ sagði Henrik að lokum.