19. ágúst 2025
NSO ráðstefna: Varnarmál Norðurlandanna á óvissutímum

Jarno Limnéll, doktor í hernaðarvísindum og þingmaður fyrir NCP á finnska þinginu. „Rússar þekkja jafnvel löggjöfina okkar betur en við. Þeir finna glufur sem þeir ráðast á og við á þinginum höfum brugðist snöggt við og lokað á þá.“ Samsett mynd/Axel Jón
Á öðrum degi NSO-ráðstefnunnar í Hanaholmen í Espo í Helsinki sagði formaður stéttarfélagsins PRO í Finnlandi, Niko Simola, að umræðan um varnarmál í þeirri ógn sem steðjar að úr austri væri nauðsynleg. Ráðstefnustaðurinn Hanaholmen er samstarfs- og menningarmiðstöð Svíþjóðar og Finnlands sem byggist á samstarfi landanna í áratugi. Löndin skipuleggja m.a. málstofur um sameiginlega mál sem varða Norðurlöndin.

Niko Simola, formaður PRO í Finnlandi.
„Varnarsamstarf hefur aldrei verið mikilvægara en akkúrat núna. Norrænt samstarf stéttarfélaga og stjórnmála skiptir miklu máli á þeim tímum sem við lifum núna,“ sagði Niko við formlega setningu ráðstefnunnar í dag.

Jarno Limnéll ræddi um varnarmál Norðurlandanna á NSO-ráðstefnunni í dag.
Jarno Limnéll, doktor í hernaðarvísindum og þingmaður fyrir NCP á finnska þinginu, flutti fyrirlestur um varnarmál vegna árásarstríðs Rússa í Úkraínu og fleiri þátta sem varða þjóðaröryggi og viðbragðsáætlanir.
„Mikið varnarsamstarf hefur verið á milli Norðurlandanna og á þessum óróatímum sem við lifum er norræn samvinna ákaflega mikilvæg. Hún byggir á miðlun upplýsinga, samstöðu og samstarfi. Ég tel að við lifum á sögulegum tímum, ég hef starfað við öryggismál alla ævi, í hernum, í iðnaði, við tæknimál, verið háskólakennari og starfa nú sem þingmaður. Allir fjölmiðlar nú á dögum fjalla um öryggismál vegna stríðsátakanna í heiminum. Ég hef ekki séð áður svo mikinn áhuga á þjóðaröryggismálum, hef aldrei orðið vitni að því áður á mínum starfsferli,“ sagði Jarno.
Lögum um jarðsprengjur breytt á finnska þinginu
Hann sagði að á fundi þjóðarleiðtoganna í Hvíta húsinu væri ekki hægt að horfa framhjá hlutverki og mikilvægi Norðurlandanna þar.

Upplýsingaskilti sem varar við jarðsprengjum við landamæri Finnlands og Rússlands.
„Það var mikilvægt að forseti Finnlands og fulltrúar Nato voru á fundinum sem haldinn var í Hvíta húsinu í gær. Það hefur mikla þýðingu fyrir að réttar upplýsingar berist til stofnana ríkisins og svo almennings. Við í Finnlandi höfum verið að efla varnarmál og t.d. hafa fjárheimildir til varnarmála aldrei verið meiri en nú með varaforða til 60 ára á tímum þar sem efnahagsmálin í landinu gætu verið betri. Þá hefur finnska ríkisstjórnin lokað landamærunum til Rússlands, þangað fer enginn og þaðan kemur enginn. Einnig hefur finnska þingið breytt lögum og þar með sáttmálum um jarðsprengjur sem lagðar eru við landamæri landanna sem áður þótti óhugsandi að gera,“ útskýrði Jarno fyrir ráðstefnugestum.
Samstaða skiptir öllu máli til að gæta öryggis
„Það skiptir engu máli hve margar ritgerðir um öryggismál eru skrifaðar. Það sem skiptir öllu máli á endanum er samstaðan,“ sagði Jarno og bætti við að þjóðaröryggismál snerust um tvennt: Miðlun upplýsinga og vellíðan almennings.
„Öryggismál snýst um tvennt: Miðlun upplýsinga og svo viðhorf og líðan almennings til þess sem er að gerast í samfélaginu. Vegna þess hve miðlun upplýsinga er ólík, þar sem tilhneiging eða fordómar fyrir eða gegn einum einstaklingi eða hópi, sérstaklega á þann hátt sem talinn er ósanngjarn, er erfitt að ná fullkomnu öryggi í miðlun upplýsinga í heiminum.
Við á Norðurlöndunum erum með svipaða menningu og bregðumst á líkan hátt við áföllum. Öryggismál snúast einnig um hvernig við bregðumst við líðan fólks á óvissutímum. Núna vitum við ekki hverjar afleiðingarnar verða fyrir Norðurlöndin á næstu vikum vegna fundar Trumps og Putins um daginn. Ég get lofað því að heimsmyndin er að breytast og það mun reyna á öryggi og varnir Norðurlandanna sem má í einfaldri mynd lýsa svo að við stefnum annaðhvort í átt að friði eða stríði. Við vitum það ekki enn,“ sagði Jarno alvarlegur á svip.
Hann sagði að í Finnlandi hefði átt sér stað lífleg umræða frá innrás Rússa í Úkraínu um hvort landið væri í raun í stríði.
„Við erum mitt á milli stríðs og friðar hér í Finnlandi og með fjölþáttaáhrifum eins og netárásum og algórytmaárásum gerðist sá atburður að öll stafræn þjónusta lá niðri í stuttan tíma vegna netárásar Rússa á innviði okkar, og sem dæmi getum við átt á hættu að þjónusta eins og 112 leggist niður vegna reglulegra netárása Rússa. Slíkar stafrænar árásir eins og þessar eru orðnar að reglulegum árásum og þegar internetið liggur niðri er ekki hægt að veita nauðsynlega innviðaþjónustu sem almenningur er vanur að reiða sig á. Einnig er hættan sú að slíkt sambandsleysi leiði til stjórnleysis innan samfélaganna, þar sem fólk bregst ólíkt við neyðarástandi og er misvel undirbúið, sagði Jarno.
Gervigreindin notuð sem árásartól á innviði
Jarno sagði að Rússar réðust einnig á ljósleiðara til að lama innviðina.
„Sem dæmi hafa Rússar eyðilagt sæstrengi sem valdið hefur truflunum og sum innviðaþjónusta hefur legið niðri vegna þessara árása eins og ég sagði áðan. Norðurlöndin eru tæknivæddasta svæði heimsins. Í kringum 98 prósent allra samskipta fara í gegnum sæstrengi milli landanna og því eru varnarmálin að þessu leyti gríðarlega mikilvæg. Stjórnvöld hafa nú tekið á það ráð að fela sæstrengi fyrir Rússum, taka þá út úr opinberum kortum um staðsetningu sæstrengja, þannig að öryggi þeirra sé tryggt. Þjóðaröryggi byggist á samstarfi við aðrar þjóðir og samstarfi milli aðila innanlands, en það er í raun mjög erfitt að tryggja öryggi þjóðar án samstarfs við vinaþjóðir. Þess vegna er samstarf innan NATO enn mikilvægara en nokkurn tíma áður. Þá þurfa ríkin að vera með varaleiðir þegar óvæntir atburðir verða, eins og t.d. þegar rafmagnið fer af borgum o.s.frv. Sama á við almenna borgara eins og að eiga varabirgðir til einnar viku; peningaseðla, mat, lyf, vatn o.s.frv.

Öryggi, viðbúnaður og norrænt samstarf.
Þá hefur tilkoma gervigreindar skapað ákveðna ógn við raunveruleikann og við miðlun upplýsinga. Það er merkilegt að sjá hvernig fólk bregst við. Það hefur alltaf verið til sú aðferð að blekkja fólk til að trúa á það sem það sér og heyrir. Áður var t.d. dreift miðum úr flugvélum og plaköt hengd upp þar sem fólk var á ferðinni til að hafa áhrif á hugsanir og líðan þess. Nú á dögum eru samfélagsmiðlar og gervigreindin notuð til að skapa áróður og frásagnir. Viðbrögð gerviprófíla á samfélagsmiðlum birtast þegar settar eru fram einhverjar skoðanir um málefni Úkraínu. Ef ég segi á X-reikningi mínum eitthvað jákvætt um Úkraínu og að Rússland sé árásaraðili, sem hann er, þá bregst algórytminn við og gerviprófílar hefja einróma árásir á innleggið mitt um það þveröfuga.
Þá er algengt að gervivefsíður eru settar upp með fyrirtækjum og starfsfólki sem tengist þeim ekki neitt, oftast fólki sem er þekkt og hefur áhrif á samfélagsmiðlum. Slíkar gerviupplýsingar verða svo aðgengilegar með gervigreindinni ChatGTP. Þetta skapar mikla upplýsingaóreiðu.
Árásarríkið í austri
Rússland er árásargjarnt land. Við verðum að skilja það hvað sem öllum upplýsingum líður. Við skulum vera meðvituð um að hver og einn í samfélaginu skiptir miklu máli innan þess, og hver og einn þarf líka að taka ábyrgð á sínu öryggi. Sameiginleg vitund um sameiginlegt öryggi, bæði á netinu og í raunheimum, auk viljans til að að bregðast við þegar ógn steðjar að, skiptir öllu máli í varnarmálum.
Ég verð að segja að ég er svolítið óttasleginn þegar ég lít til framtíðar en ég er þó á ákveðinn hátt bjartsýnn því með tækninni vaknar upp siðferðisspurning sem krefst svara. Viljum við að við fæðingu barns setjum við örflögu í höfuð þess til að geta fylgst með öllum hreyfingum þess? Þetta er siðferðileg spurning sem getur verið auðveld fyrir sumt fólk, en annað alls ekki. Þetta er öryggismál en líka siðferðileg spurning. Við verðum að setja tækninni mörk hvað varðar réttar upplýsingar sem við setjum í dreifingu. Eitt stærsta verkefni sem NATO stendur fyrir snýr að þessum tækniframförum. Eftir innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur varnarbandalagið m.a. verið að fást við aðra siðfræðilega spurningu. Nú er notast við dróna til að drepa fólk. Þetta er virkilega mikil ógn þar sem svo virðist sem siðferði skorti þegar gerðar eru slíkar árásir. Hvernig eru þessar ákvarðanir teknar þar sem siðferðinu virðist sleppt þegar mannshöndin virðist ósýnileg?
Að lokum vil ég segja að við þurfum öll sem eitt að tala meira um frið og hafna stríði. Okkar gull á Norðurlöndunum er að við erum með sterka heri vegna þess að við notum þá ekki. Það er vopnauppbygging í gangi því við verðum að styrkja heri okkar þar sem Rússland fylgist með okkur. Það er raunveruleg ógn í austri. Að þessu leyti eiga nú sér stað miklar breytingar í að styrkja heri Norðurlandanna, og það hefur verið gert í Finnlandi.
Við byggjum upp traust með samvinnu og samstöðu gegn stríði og með friði. Þess vegna snúast varnarmál fremur um traust en öryggi og ég held að okkur muni ganga vel í framtíðinni – saman,“ sagði Jarno Limnéll að lokum.