20. ágúst 2025
NSO ráðstefna: Norrænt samstarf

Mika Mickelsson, ritari hjá Norðurlandarráði og starfsmaður í Utanríkisráðuneytinu í Finnlandi .Samsett mynd/Axel Jón
Mika Mickelsson, ritari hjá Norðurlandaráði og starfsmaður í Utanríkisráðuneytinu í Finnlandi sagði frá störfum Norrænu ráðherranefndarinnar. Mika sagði að störf nefndarinnar væru fjölbreytt og snérist það ekki eingöngu um störf ráðherranna heldur um samstarf og þátttöku allra, þar með talið borgaranna. Einkum þegar horft væri á hlutverk stéttarfélaganna en það samstarf við nefndina hefur mikla þýðingu og styrkir lýðræði landanna.
„Norðurlöndin hafa frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar starfað saman á sviði stjórnmálanna. Árið 1971 var Norðurlandaráð á samnorrænum vettvangi stofnað og síðan þá hefur samstarfið sífellt aukist. Þá hefur vegabréfafrelsi milli Norðurlandanna gilt frá 1954. Frá stofnun þess hefur samstarfið verið um allt stjórnsýslusvið landanna með einum skipuðum samstarfsráðherra og eru höfuðstöðvar ráðsins í Kaupmannahöfn. Samstarf Norðurlandanna er elsta svæðisbundna samstarf í heimi á vettvangi stjórnmálanna og samanstendur af nokkrum ráðherranefndum á mismunandi sviðum. Það byggir á Helsinki-sáttmálanum, sem undirritaður var árið 1962,“ sagði Mika.
Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi
Fram kom hjá Mika að pólítísk framtíðarsýn fyrir árið 2030 væri að Norðurlöndin yrðu samkeppnishæf, umhverfisvæn og félagslega sjálfbær til langrar framtíðar með samstarfi þjóðanna en framtíðarsýnin er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi.

Mika Mickelsson ræðir um norrænt samstarf á vettvangi NSO.
„Samstarf er á vettvangi þjóðþinganna gengur vel vegna þess að samfélögin okkar eru keimlík. Við deilum sameiginlegum félagslegum gildum og við stefnum saman í sömu átt,“ sagði Mika.
Samstarf milli Eystrasaltslandanna og Norðurlandanna eflt
„Við í Finnlandi þurfum að búa okkur undir stríð og höfum verið að auka viðnámsþrótt og munum halda því áfram. Í norrænu samstarfi höfum við unnið að því að tryggja samfélagsöryggi í Finnlandi en einnig á hinum Norðurlöndunum til frambúðar. Á formennskutímanum leggur Finnland sérstaka áherslu á samfélagsöryggi.
Seigla Norðurlandanna er aukin með því að efla alhliða og víðtækan viðbúnað vegna kreppuástands og blandaðra ógna sem geta skapast. Þróun seiglu og getu til að bregðast við kreppum verður að vera samræmd og taka tillit til allra stefnusviða á samræmdan hátt til að auka viðbúnað. Ríkisstjórnarsamstarf landanna í 14 ráðherranefndum veitir skilvirka umgjörð til þessarar vinnu.
Ferðafrelsi milli landanna er okkur einnig mjög mikilvægt. Við viljum njóta þessa ferðafrelsis áfram; að við getum unnið, lifað og menntað okkur óhindrað á milli landa. Þetta er mikilvægt og stöðugt er verið að vinna í að takmarka ýmsar hindranir á landamærum landanna hvað varðar frjálsa för fólks. Stafræn þjónusta yfir landamæri eins og lestur vegabréfa geta þó enn verið hindrun.
Áskoranir í norrænu samstarfi
Norðurlöndin hafa gefið loforð um að styðja við Úkraínu og það verður án efa, eins og verið hefur, umræðuefni sem þarf að leiða til lykta. Aðrar áskoranir í norrænu samstarfi eru helstar þær að við stöndum frammi fyrir hnattrænum áskorunum eins og loftslagsbreytingum sem munu hafa áhrif á hreina orkuframleiðslu og sjálfbærni í framtíðinni. Um leið skiptir máli að við séum í fremstu röð meðal þjóða heims í sjálfbærni. Við á Norðurlöndunum byggjum okkar samfélög á trausti og viðnámsþoli lýðræðisins. Það eru auðvitað áskoranir fólgnar í því að við missum ekki þessi sameiginlegu gildi okkar. Þá er litið með jákvæðum augum innan Evrópusambandsins til Norðurlandanna sem einskonar fyrirmyndar fyrir aðrar þjóðir. Styrkur okkar liggur í því hvað við eigum lík samfélög og deilum sameiginlegum gildum eins og ég sagði áðan.
Mikilvægt er að auka áfram og styrkja samstarfið við Eystrasaltsríkin en þau eru í raun inni á skipulagsriti Norðurlandanna. Ég veit ekki hvort Eystrasaltríkin verði sameinuð okkur á þessum vettvangi, það er ómögulegt að segja, en samstarfið er þjóðunum mikilvægt. Við vinnum með Eystrasaltsríkjunum í ráðherranefndinni en samfélög okkar eru nokkuð lík og við eigum margt sameiginlegt.
Að lokum vil ég segja að stjórnarfar landanna er mjög svipað og við deilum sömu gildum. Það er örugglega okkar helsti styrkur í áframhaldandi og farsælu samstarfi Norðurlandaþjóðanna,“ sagði Mika að lokum.