20. ágúst 2025
NSO ráðstefnan haldin næst í Færeyjum 2027

Niko Simola sagðist ánægður með NSO-ráðstefnuna þó að erindin hafi verið þung. Ljósmynd/Axel Jón
Á þessum síðasta degi samnorrænu ráðstefnu stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem haldin er í Hanaholmen rétt utan við Helsinki í Finnlandi var umræðuefnið samvinna, varnar- og öryggismál og húsnæðismarkaður á Norðurlöndunum.
Niko Simola, formaður Trade Union Pro, skipulagði málefni ráðstefnunnar að þessu sinni. Hann sagði að samnorræn samvinna opinberra starfsmanna á Norðurlöndunum væri mikilvæg til að veita stjórnvöldum aðhald í þeim málefnum sem stéttarfélögin berjast fyrir og ýta á eftir nauðsynlegum breytingum eins og á húsnæðismarkaði landanna. Þá sagði Niko að árásarstríð Rússlands í Úkraínu hefði gjörbreytt lífi borgaranna, að meðtöldum stjórnmálunum.
„Ég vil þakka ykkur kæru vinir fyrir þátttökuna. Ég vil leggja mikla áherslu á að með samvinnu stéttarfélaganna á þessum vettvangi getum við skapað saman betra samfélag, veitt félagsfólki okkar betri kjör og réttindi og veitt stjórnmálunum nauðsynlegt aðhald. Upplýsingarnar sem við deilum saman og skiptumst á um norrænan vinnumarkað og stöðu stjórnmálanna á Norðurlöndunum eru nauðsynlegar. Öryggis- og varnarmál ásamt húsnæðismarkaði í löndunum hafa verið fókuspunkturinn núna á þessari ráðstefnu og við skiljum hvers vegna. Umræðuefnið á þessari ráðstefnu er ekki beint á vettvangi stéttarfélaga en félagarnir í stéttarfélögunum okkar þurfa að fá upplýsingar um þetta vígbúnaðarkapphlaup sem er að aukast. Þetta eru erfiðir tímar. Ég er ánægður með þessa ráðstefnu. Umræðurnar hafa verið líflegar og þó að málefnið sé alvarlegt hefur verið mikið um hlátrasköll sem gleður alltaf. Þetta er mín síðasta ráðstefna á þessum vettvangi því ég mun ljúka störfum sem formaður stéttarfélagsins PRO og tek við nýju hlutverki á alþjóðlegum vettvangi stéttarfélagsins.

Ráðstefnugestir á NSO-ráðstefnunni í Helsinki.
Samvinna þjóðanna á sviði þjóðaröryggis er mikilvægari nú en áður. Heimsmyndin er svolítið svart-hvít en með ráðstefnum sem þessum eiga sér stað djúpar umræður um sameiginleg málefni og með samvinnu breytist heimsmyndin í lit vil ég segja. Þó að málefnið á ráðstefnunni sé alvarlegt og þungt viðureignar eigum við mikla von um að friður skapist á ný í okkar heimshluta. Við erum upplýstari eftir þennan góða fund hér og við hlökkum til næstu ráðstefnu sem haldin verður í Færeyjum árið 2027,“ sagði Niko að ráðstefnunni lokinni.