Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. ágúst 2025

NTR ráðstefna: Dómgreindar- og tilfinningalaus gervigreind

Cristiana Veljø, sérfræðingur í stafrænni tækni og framtíðargreiningum . Ljósmynd/Axel Jón

Christiane Vejlø, sérfræðingur í stafrænni tækni og framtíðargreiningu og höfundur bókarinnar Hvað er gott atvinnulíf? (Hvad er et godt Arbejdsliv?), talaði um hina nýju tækni sem er að ryðja sér til rúms á vinnumarkaði og sambandi mannsins við stafræna tækni og gervigreind. Gervigreindin er nú í örum vexti og hefur þegar breytt fjölda starfa á vinnumarkaðnum, benti Christiane á.

Gervigreindin ný tegund af tækni sem krefst athygli notenda
„Gott atvinnulíf er fyrst og fremst hvernig við ákveðum að eiga samskipti okkar á milli. Með tilkomu gervigreindarinnar hefur vinnumarkaðurinn breyst. Við vitum að mörg störf munu tapast og um 80 prósent þeirra munu breytast að einhverju leyti með tilkomu gervigreindarinnar, en á móti munu skapast um 20 prósent ný störf.

Gervigreindin mun auka þekkingu á vinnumarkaðnum og getur búið til texta, myndir, fyrirlestra, talnagröf o.m.fl. Í árdaga gervigreindar var hún passíft verkfæri en verður núna virkur þátttakandi á vinnumarkaðnum. Auðvitað getur gervigreindin ekki eldað mat en hún getur búið til mataruppskriftir. Hún getur greint sjúkdóma og er notuð æ meira af læknum og almenningi í sjúkdómsgreiningar.


Cristiana Veljø sagði að gervigreindin sé ekki hugsandi fyrirbæri. Ljósmynd/Axel Jón

Þá þurfum við að spyrja okkur hvað gerir okkur að manneskjum í tengslum við þessa breyttu tíma. Við verðum að styrkja það sem við teljum að geri okkur að manneskjum en munurinn á gervigreind og okkur er að hún hefur ekki t.d. tilfinningar, hún getur vakið upp líðan eins og vellíðan o.s.frv. en um leið getur hún dregið ályktanir. Gervigreind er ekki hugsandi fyrirbæri heldur byggir hún á framenda sem eru öpp og forrit sem sniðin eru til að sækja upplýsingar á Internetinu, nýtir sér algóritma sem maðurinn hefur sett þar inn og notar með nýjum hætti eða framsetningu.

Gervigreind notuð til að framleiða fjölmiðlaefni
Gervigreindin er í auknum mæli notuð til að búa til fjölmiðlaefni, myndir og myndbönd sem notuð er á öllum miðlum Internetsins og í samfélagsöppum. Gervigreindin er ekki með hlýjar hendur sem við njótum í samskiptum og í störfum okkar á vinnumarkaðnum. Við erum félagsverur – gervigreind er það ekki. Við viljum t.d. sjálfvirknivæða ýmsa þætti okkar starfa en þá er mikilvægt að hafa í huga að við viljum hittast, brosa til hver annars og eiga samskipti án gervigreindar og tækni vegna þess að við erum félagsverur. Með öðrum orðum, við viljum ekki að tæknin verði allsráðandi í lífi okkar og starfi, heldur að við ráðum yfir tækninni til að auðvelda okkur störfin,“ sagði Christiane.

Hún sagði að vel væri hægt að sjá handbragð gervigreindarinnar þegar hún væri notuð í fréttaflutningi, á falsfréttamiðlum og samfélagsmiðlum á neikvæðan hátt til að hafa áhrif í ýmsum tilgangi, eins og að ná völdum á pólitískum vettvangi. Eins væri hún notuð til að kynna vörur og þjónustu á samfélagsmiðlum.

„Áróður fyrirtækja sem reka gervigreindarþjónustu og framleiðslu á forritum sem búa til gervigreindarefni er auglýstur: „Hættið að ráða manneskjur í vinnu“ og „Gervigreind mætir ekki timbruð í vinnuna“. Þessi samskipti á milli gervigreindar og fólks eru víða orðin mikill hausverkur því fólk greinir muninn á gervigreind og raunveruleika á samfélagsmiðlunum. Þannig er gervigreind notuð til að grafa undan störfum á vinnumarkaðnum. Við tökum líka eftir ef notuð er gervigreind til að búa til fjölmiðlaefni, greinar, fréttir, myndskeið og ljósmyndir þegar við skoðum efnið betur,“ sagði Christiane.


Á meðan Christiane flutti erindi sitt um gervigreind bað sá sem þetta ritar hana um að búa til ljósmynd af fyrirlestrinum: „Búðu til ljósmynd frá NTR-ráðstefnunni með NTR logo og Christiane Vejlø sem fyrirlesara.“ Eins og sést þá gætu þau sem ekki þekkja til haldið að myndin væri í raun ljósmynd frá fyrirlestrinum sem hún er alls ekki heldur fyrsta ljósmynd þessarar fréttar. Mynd/Gervigreind AI

Christiane sagði að gervigreind hefði ekki dómgreind og ekki siðferði. Hún gæti ekki verið sá áttaviti að greina á milli hvað er rétt og rangt í tilverunni, og yrði það aldrei. Enn sem komið er býr maðurinn einn yfir þeim hæfileikum umfram tækni eins og þessa. Þá sé nauðsynlegt að bera upp þá siðferðilegu spurningu hvernig hún er notuð og í hvaða tilgangi. „Þetta er umræðuefni sem verður að ræða á vinnumarkaðnum,“ sagði Christiane að lokum.