25. ágúst 2025
NTR ráðstefna: Z kynslóðin og vinnumarkaðurinn

Z kynslóðin og vinnumarkaðurinn. Ljósmynd/ Alessandro Biascioli
Malte Moll Wingender, félagsfræðingur, vann að skýrslu hjá Analyze og Tal og var hún umfjöllunarefni hans á ráðstefnunni í dag. Malte sagði að Z-kynslóðin væri sú kynslóð fólks á aldrinum 18 til 30 ára sem lítur liti allt öðrum augum á vinnumarkaðinn en þau sem eldri eru. Í skýrslu sem unnin var um Z-kynslóðina kemur fram að hún er fyrsta kynslóðin sem elst upp við samfélagsmiðla og hefur upplifað bæði bankahrun og heimsfaraldur, ásamt auknu sjálfræði innan fjölskyldunnar sem hefur haft áhrif á viðhorf þeirra og um leið vinnumarkaðinn.
„Í rannsókninni bjuggum við til tvo rýnihópa sem byggja á 3500 svörum þessarar kynslóðar sem er nú starfandi á vinnumarkaðnum. Fyrst og fremst vilja þau sem af þessari kynslóð eru starfa við eitthvað sem skilar árangri, þau vilja sjá fram á að störf þeirra skilji eitthvað eftir sig. Það skiptir þau máli hve há launin eru, hvernig þeim líður á vinnustaðnum, að þau eigi frítíma utan vinnutímans, að skil séu á milli vinnu og einkalífs, að það sé gott andrúmsloft á vinnustaðnum og þangað sé ekki kvíðvænlegt að koma.

Malte Moll Wingender flytur erindi sitt um Z-kynslóðina á ráðstefnunni í dag. Ljósmynd/Axel Jón
Hins vegar eru utanaðkomandi þættir eins og kreppur neðarlega á listanum. Þetta er forvitnilegt í ljósi þess að þessi kynslóð hefur gengið í gegnum erfiðleika samfélagsins ung að árum, eins og fjármálahrun,“ sagði Malte Moll.
Z-kynslóðin hefur áhyggjur af framtíðinni
Þegar kynslóðin er spurð um áhuga á störfum kemur í ljós að vellíðan skiptir miklu máli og þau vilja alls ekki vera á hamstrahjólinu eins og eldri kynslóðir hafa gert. „Þau hafa alist upp við að horfa á foreldra sína vinna baki brotnu langan vinnudag, vera alltaf þreytt þegar þau koma heim úr vinnunni, hafa ekki orku til að búa til mat eða njóta tíma með börnunum sínum. Svona gengur þetta allt þeirra líf, fara svo á eftirlaun og deyja – eins og kom fram í einu svari hjá þátttakaenda í könnuninni. Þetta er ekki það líf sem Z-kynslóðin óskar sér,“ sagði Malte Moll um unga fólkið á vinnumarkaðnum.
Fram kom í máli hans að ofarlega á lista áhyggjuefna Z-kynslóðarinnar er peningaskortur. 34 prósent þeirra sem svöruðu sögðust hafa áhyggjur af peningum og að fá ekki nægilega há laun til að lifa og eignast innihaldsríkt og gott líf. Þá hafa þau áhyggjur af því að standast ekki kröfur um hæfileika á vinnumarkaðnum. Þau sem eiga börn af þessari kynslóð hafa mun meiri áhyggjur en þau sem ekki eiga börn. Þá mælist streita í meira hlutfalli ef fólk er einmana í vinnunni. Ef enginn er til staðar, eða þeim finnast þau ekki njóta samvista við annað fólk á vinnustaðnum eða fá ekki hjálp við verkefnin, finna þau fyrir meiri einmanaleika en aðrir. Þannig að alls 45 prósentum svarenda finnast þau ekki búa yfir nægilegri hæfni í vinnunni, hugmynd sem er m.a. sprottin af einmanaleika.
Hvað geta stéttarfélögin gert fyrir Z-kynslóðina?
Mikilvægast er að vinnuveitendur viðurkenni það sem fram kemur í skýrslunni svo hægt sé að takast á við þessa stöðu með góðu móti. Í könnuninni kom einnig fram að 25 prósentum svarenda finnast þau ekki vera hluti af starfshópnum eða fá ekki að taka þátt, vera með í ráðum á vinnustaðnum og 17 prósentum finnast þau ekki vera metin að verðleikum. Þá ættu stéttarfélögin í samvinnu með vinnustöðunum að taka betur á móti fólki sem kemur til starfa úr námi.
Í stuttu máli þarf fólk að finna fyrir vellíðan og að það tilheyri á vinnustaðnum. Mikilvægi félagslegrar samveru, faglegrar nálgunar, endurgjafar og endurmats og góðra upplýsinga er aldrei ofmetið. Þannig mætti komast hjá þessum streituvöldum á vinnustaðnum og koma í veg fyrir kulnun í starfi hjá ungu fólki. Við þurfum að gá að þessu,“ sagði Malte Moll.
Hér að neðan eru dæmi um spurningar, og raðað niður eftir mikilvægi í skýrslunni.
Rök fyrir því að starfið sé eftirsóknarvert fyrir mig
• Að starfið sé spennandi fyrir mig – 52%
• Að ég geri eitthvað sem ég er góð/ur/gott í – 47%
• Að ég geti tekið þátt í vel fúnkerandi vinnustað með samstarfsfólki – 43%
• Að það sé sterkt félagslegt net og samheldni á vinnustaðnum – 42%
• Að ég fái há laun – 40%
• Að ég geti séð sjálfa/nn/sjálft mig bæði innan og utan starfsins – 36%
• Að ég get sett mitt mark á starfið – 35%
• Að starfið mitt skipti máli fyrir annað fólk – 35%
• Að ég leggi verulega af mörkum til starfsins – 32%
• Að ég get haldið jafnvægi milli einkalífs og starfs – 30%
Casper Damgaard 23 ára og Katrin Schou-Bundgaard 29 ára lýstu upplifun sinni á vinnumarkaðnum á ráðstefnunni. Þau sögðust hafa mætt ákveðnum fordómum gagnvart aldri og þekkingu á vinnustöðunum sem þau störfuðu á en Katrin tók fram að hún hafi hefði upplifað forvitni samstarfsmanna sinna vegna aldurs hennar, menntunar og reynslu.

Casper og Katrine, fulltrúar Z-kynslóðarinnar ræddu málefni ungs fólks á vinnumarkaði. Ljósmynd/Axel Jón
„Sumt fólk, eins og einn yfirmaður minn, tiltók ávallt á fundum hvað ég væri ungur að aldri. Mér þótti þetta vera niðurlægjandi framkoma. Þá mætti mér oft það viðmót að ég ætti að hafa mig hægan því fólk sem var búið að starfa lengur á vinnustaðnum en ég vissi meira en ég, að ég skyldi bara hafa mig hægan. Þetta fannst mér mjög óþægilegt,“ sagði Casper. „Ég hef þá reynslu á mínum vinnustað að þau sem eru eldri hafa tekið mér vel og deilt þekkingu sinni með mér auðfúslega,“ sagði Katrin.
Þá sagði Katrin að stéttarfélögin mættu vera sýnilegri á vinnustaðnum, kæmu til þeirra út í skólana og upplýstu um starfsemi sína. Þannig upplýsingum væri nauðsynlegt að koma á framfæri til ungs fólks. Casper sagði að það ríkti algjör óvissa um hvað stéttarflögin gætu boðið ungu fólki og þau mættu gera betur í þeim málum, því aðild að stéttarfélögum væri öllum mikilvæg. Þá bætti Katrin við að allir gætu tekið þátt í starfi stéttarfélaganna en þau yrðu að koma til móts við þetta tómarúm sem væri á milli þeirra og unga fólksins.