Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. ágúst 2025

Ný skýrsla sýnir konur á vinnumarkaði þurfa þola alltof mikið álag í langan tíma

Í skýrslunni kemur fram að 30 prósent kvenna svöruðu að þær hafi verið fremur oft andlega úrvinda eftir vinnudaginn síðastliðin 10 ár.

Ný skýrsla Félagsvísindastofnunar sem er unnin fyrir Tryggingastofnun í samstarfi við Félags- og húsnæðismálaráðuneytið, Vinnueftirlitið og Velferðarvaktina var kynnt á málþingi sem fram fór 21. ágúst sl. Í skýrslunni er varpað ljósi á reynslu og aðstæður kvenna á aldrinum 50-66 ára sem eru fjölmennasti hópur fólks á örorkulífeyri.

Samkvæmt niðurstöðunum eru konurnar í þessum hópi líklegri til að hafa verið í meira líkamlega og andlega krefjandi vinnu en aðrar konur í sama aldurshópi, þær hafa frekar orðið fyrir ofbeldi og búið við erfiðar fjárhagsaðstæður og minna húsnæðisöryggi.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá BSRB, flutti erindi á málþinginu út frá kröfum Kvennaárs 2025. Ljósmynd/BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá BSRB, flutti erindi á málþingi um reynslu og aðstæður kvenna með örorkulífeyri í tengslum við kröfur Kvennaárs 2025. Hún setti niðurstöður rannsóknarinnar í samhengi við Kvennaár 2025 og kröfu BSRB um leiðréttingu á virði kvennastarfa og sagði: „Í rannsókninni má glöggt sjá hvernig álag á vinnumarkaði, umönnunarábyrgð og ofbeldi er algengt hjá konunum í þessum hópi og er mögulega ástæða þess að konur eru miklu líklegri til að missa starfsgetu á efri árum en karlar.“


Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagði á 1. maí að ofbeldi gegn konum væri ekki minna hér á landi en í þeim löndum sem þjóðin ber sig saman við – Norðurlöndin. Á myndinni er Sonja Ýr ásamt forystufólki verkalýðshreyfingarinnar með líkneski af Venus á herðum sér sem Messíana Tómasdóttir, listakona, teiknaði upprunalega fyrir kröfugönguna árið 1970. Mynd/Kvennaár 2025

Mikilvægt að fylgjast með áhrifum nýja kerfisins
„Það er nauðsynlegt að fá grunnlínu upplýsinga svo hægt sé að meta hvort breytingarnar á almannatryggingakerfinu, sem taka gildi 1. september, hafi áhrif,“ segir Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar. Meðal breytinga eru hvatar til atvinnuþátttöku, nýtt samþætt sérfræðimat og heildstæðari endurhæfingarþjónusta.

Þá kemur fram í skýrslunni að 30 prósent kvenna svöruðu að þær hafi verið fremur oft andlega úrvinda eftir vinnudaginn síðastliðin 10 ár, 27 prósent þeirra stundum, og 26 prósent sögðust alltaf eða mjög oft vera andlega úrvinda eftir vinnudaginn. Hlutfall kvenna á vinnumarkaði er allt of hátt sem líður illa og eru undir miklu tilfinninga- og andlegu álagi í vinnunni.

Skýrsluna má lesa hér