Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. ágúst 2025

NTR ráðstefna: Framtíðarhorfur á vinnumarkaði

Rebecka Prentell, sérfræðingur hjá ThinkTank. Ljósmynd/Axe Jón

Rebecka Prentell, sérfræðingur hjá ThinkTank, fjallaði um framtíðarvinnumarkaðinn, stjórnmálin, alþjóðavæðinguna og stéttarfélögin á Norðurlöndunum. ThinkTank er í eigu sænska stéttarfélagsins Vision og er hugsmiðja sem rannsakar framtíðarvinnumarkaðinn.

Hún hóf mál sitt á að vekja upp spurningar um þau sameiginlegu úrlausnarefni sem við tökumst á við í okkar samfélögum á Norðurlöndunum og á vinnumarkaðnum.


Ráðstenfnugestir á NTR-ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Axel Jón

„Við vinnum stöðugt í að greina og svara spurningum stéttarfélaganna um hvernig framtíðarvinnumarkaðurinn muni líta út. Við vitum ekki hve langt inn í framtíðina við getum horft því heimsmyndin er stöðugt að taka breytingum. Þá mun gigg-hagkerfið vaxa og stafræn þróun hafa áhrif á opinber störf. Lýðræði, loftslagsmál, skautun í opinberum umræðum og popúlismi spilar þar stóra rullu. Þetta virðast vera yfirþyrmandi málefni sem við reynum að greina hvert og eitt fyrir sig,“ sagði Rebecka.

„Við reynum einnig að meta þær vísbendingar eða tákn sem við teljum að muni hafa áhrif á framtíðina. Hvaða tilhneigingar það eru sem munu hafa áhrif á framtíðarvinnumarkaðinn verða ekki til í tómarúmi heldur byggja á virðismati í nútímanum. Við þurfum að geta nýtt nýja tækni og að vinnustaðirnir séu meðvitaðir að starfsfólk sé ávallt tekið með í þessar breytingar sem eru að verða. Hins vegar geta þessar breytingar skapað skautun í umræðum um hvernig við nýtum okkur nýja tækni en líka, eins og við sjáum og varðar aðrar hnattrænar breytingar, eins og í loftslagsmálum. Það þurfa að vera virk og lifandi samskipti þarna á milli aðila.

Kostnaðurinn við sjálfbærni leggist ekki á herðar launafólks
Þá þarf að vera félagsleg sjálfbærni á vinnumarkaðnum en hún má ekki vera með neikvæðum formerkjum þannig að kostnaðurinn við sjálfbærni verði lagður á launafólk, sem oftast er raunin. Alþjóðaviðskipti hafa breyst mikið á stuttum tíma og hefur Bandaríkjaforseti hoggið í aðfangakeðjurnar með tollastríði sem hefur haft áhrif á okkar samfélög. Við sem búum í Evrópu þurfum nú að taka ákvarðanir sjálf vegna þessarar breyttu heimsmyndar – ákvarðanir sem við áður eftirlétum Bandaríkjunum að taka. Traustið á lýðræðið hefur líka dvínað. Hið frjálslynda lýðræði hefur hopað, borgaraleg réttindi minnkað og stjórnvöld margra ríkja hafa takmarkað stoðir lýðræðisins með því að hefta t.d. tjáningarfrelsi. Þá hefur grunnþjónusta samfélaganna og aðrir innviðir legið undir stöðugum árásum popúlískra aðferða og skautunar í pólitískri umræðu.

Gervigreindin taki yfir störf á vinnumarkaðnum
Einnig hefur gervigreindin breytt hvernig við horfum á störf á vinnumarkaði og lítur það öðruvísi við en þegar iðnbyltingin átti sér stað. Þetta er tæknibylting eins og komið hefur fram á þessari ráðstefnu og nú eru merki um að þessi nýja tækni muni taka yfir störf. Þá er þetta efnahagsleg spurning sem Norðurlöndin standa frammi fyrir – er gervigreindin að spara peninga hjá hinu opinbera eða mun hún kalla á aukna mönnum og aukin útgjöld? Við vitum að gervigreindin getur í raun ekki skapað neitt nýtt, aðeins unnið með eitthvað annað sem mennirnir hafa þegar búið til.

Stéttarfélög gegna mikilvægu hlutverki nú á þessum skrýtnu tímum sem við lifum. Þau þurfa m.a. að sjá til þess að að réttindi launafólks séu tryggð og gefi sér tíma og afli sér þekkingar og skilnings á hvernig gervigreindin er notuð á vinnustöðunum. Mikilvægt er að þetta verði umfjöllunarefni í kjarasamningum í framtíðinni,“ sagði Rebecka Prentell.