26. ágúst 2025
NTR ráðstefna: „Gervigreind, óvissa um óvissuna um það óþekkta“

Donald Romsfield fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hafði sitt að segja um óvissu og vissu á sínum tíma. Samsett mynd/Axel Jón
Øystein Holm-Haagensen, ráðgjafi um félags- og vinnumálastefnu hjá Delta stéttarfélagi í Noregi, hélt fyrirlestur um notkun gervigreindar á opinberum vinnumarkaði og hóf mál sitt á að vitna í Donald Rumsfeld, fyrrv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
„Donald Rumsfeld fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hafði ákveðinn hæfileika til að greina og orða ýmsan vanda. Mitt í Íraksstríðinu sagði hann í fjölmiðlum: „Það eru þekktar staðreyndir; það eru hlutir sem við vitum að við vitum. Við vitum líka að það er þekkt óvissa; það er að segja, við vitum að það eru hlutir sem við vitum að við vitum ekki. En það er líka óþekkt óvissa — það sem við vitum ekki að við vitum ekki.“ Það sem gildir um gervigreindina er óvissa um óvissuna um það óþekkta,“ sagði Øystein.

Øystein Holm-Haagensen á NTR-ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Axel Jón
„Það er erfitt að spá fyrir um framtíðina,“ sagði Øystein og hélt áfram: „Það sem við erum í óvissu með er notkun gervigreindar, hvort sama endurtaki sig og gerðist í iðnbyltingunni, að framleiðni aukist hjá fyrirtækjum en launin standi í stað. Gervigreindin hefur gert það að verkum að kostnaður við að auka framleiðni hefur fallið þúsundfalt á síðasta eina og hálfa ári. Veldisvöxtur hefur tekið við með notkun gervigreindar í stað hins línulega vaxtar áður. Steve Jobs hrundi af stað byltingu með uppfinningu snjallsímans og nú er ný tæknibylting hafin með tilkomu nýrrar tækni. Ég hef velt fyrir mér hvernig gervigreind muni mæta félögum okkar hjá stéttarfélaginu Delta.
Á þessu ári verður hægt að leysa helming verkefna Bandaríkjastjórnar með gervigreind sem dæmi, þó slíkt eigi ekki við á norrænum vinnumarkaði sem er allt öðruvísi uppbyggður en bæði sá breski og bandaríski. Við höfum velt þessari spurningu upp meðal félaga okkar í Delta; hvaða þýðingu notkun gervigreindar mun hafa á störfin. Svörin við þessari spurningu greinast í þrjá meginhluta; sjálfvirkni, atvinnutækifæri sem felast í verkefnum sem krefjast gervigreindar og skilvirkni sem eykur framleiðni.
Mörg verkefni félagsfólks hjá Delta snúast um gagnavinnslu og ef þau störf verða léttari blasir við að starfsfólk getur snúið sér að öðrum tengdum verkefnum sem gervigreindin hefur tekið við. Slík sjálfvirkni getur sparað 20% af vinnu, heilan dag í vinnuvikunni. Norskir stjórnendur á vinnustöðum óttast margir hverjir notkun gervigreindar og hvernig skuli notast við hana. Lausnin er helst sú að vinnustaðirnir geti öðlast þekkingu til að geta nýtt sér þessa nýju þekkingu og bjóði fólki tækifæri til að taka þátt í notkun gervigreindar á vinnumarkaði.
Við þurfum að hvetja fólk til þátttöku í notkun gervigreindar, halda fræðslunámskeið og fá trúnaðarmenn vinnustaðanna til þátttöku í innleiðingu á gervigreind. Við hjá Delta teljum að stjórnendur þurfi að taka meiri þátt í þessari tæknibyltingu með því m.a. að vekja upp umræður á opinberum vettvangi og á vinnustaðnum sem snúast um siðferði og þekkingu við notkun gervigreindar.