Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. ágúst 2025

NTR ráðstefna: Kröfur á vinnumarkaði og hugarfar vaxtar

Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar. Ljósmynd/Axel Jón

Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar, flutti fyrirlesturinn sinn á dönsku. Hún sagði að hún hefði lært nokkur ný orð í tungumálinu á ráðstefnunni og baðst svo afsökunar ef hún segði eitthvað rangt á dönsku og uppskar hlátur í salnum.

Guðfinna sagði að lífið væri símenntun, kynslóðirnar lærðu hver af annarri svo lengi sem þær lifðu. Þátttaka fullorðins fólks fer vaxandi í símenntun og auðvitað lærir það af yngra fólki og öfugt. Norrænt tengslanet fyrir símenntun er nú orðið mjög gott og skiptir miklu máli til að auka þekkingu fólks í störfum sínum.

„Nám og kennsla er ekki endilega það sama. Nám er oftast formlegt og endar sem skólagráða en hið óformlega nám er algengast, þar sem við lærum af öðru fólki í lífi og starfi og er oft ómeðvitað nám ef ég gæti tekið svo til orða. Þá á sér stað sjálfsnám á Internetinu. Svo eru það mistök sem við gerum og lærum af þeim, að því gefnu að við viðurkennum mistökin.“

Guðfinna talaði um færni í starfi; vitneskju, óformlega og formlega hæfni, færni og loks afstöðu fólks eins og jákvæðni og öryggi.

„Markmiðið með þessu öllu saman er að frammistaðan, að leysa verkefnin sem verða sýnileg öðrum og að þau heppnist vel. Maður þarf alltaf að muna hvaða hluta af þessari færni við þurfum að þjálfa í framtíðinni. Þá þurfum við að þjálfa starfsfólk til nýrra verkefna og starfa svo það finni til öryggis í starfinu en líka hjá sjálfu sér. Vellíðan í þessu sambandi skiptir máli og þess vegna er ákveðinn lykill að hafa jákvætt viðhorf til símenntunar. Ég tala oft um hugarfar vaxtar og lokaðs hugarfars. Kröfurnar og áskoranir samfélagsins til hæfni, þekkingar og stöðugs vaxtar geta verið okkur ofviða. Hugarfar vaxtar er hversu opin erum við fyrir breytingum hjá okkur sjálfum og á vinnustaðnum en lokað hugarfar er þegar við erum mótfallin breytingum,“ sagði Guðfinna.

Að lokum ræddi Guðfinna um PIAAC sem er rannsóknarskýrsla á vegum OECD. PIAAC stendur fyrir Programme for the International Assessment of Adult Competencies (Alþjóðleg könnun á hæfni fullorðinna). Hún er alþjóðleg rannsókn á vegum OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) sem mælir færni og hæfni fullorðinna á lykilsviðum sem skipta máli fyrir vinnumarkaðinn, nám og daglegt líf.

PIAAC leggur áherslu á þrjú meginsvið: Læsi – hæfni til að skilja, meta, nota og taka þátt í lesnum textum, talnaskilning – hæfni til að nota, túlka og miðla stærðfræðilegum upplýsingum og hugmyndum og lausn vandamála í stafrænu umhverfi – hæfni til að nota stafræna tækni, samskiptatól og net til að afla og meta upplýsingar, eiga samskipti og leysa hagnýt verkefni.

Traustið hið norræna gull
„Það er margt mjög gott á Norðurlöndunum í málefnum símenntunar og samtalið og samstarfið um símenntun er virkt. Það er mikil þátttaka á símenntunarnámskeiðum og fjármögnun er með ágætum, þetta traust er kannski okkar norræna gull. Þá er samtalið um símenntun á milli aðila á vinnumarkaðnum í góðum farvegi. Það er þó áfram afar nauðsynlegt að stéttarfélögin haldi áfram samtali við sitt félagsfólk um símenntun og hjálpi því að finna hvatann til að mennta sig og bæta við grundvallarhæfni eins og í lestri, reikningi og greiningum,“ sagði Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar að lokum.