Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. ágúst 2025

BSRB og ASÍ fagna áherslu á jöfnuð og sterka innviði í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar

Launafólk og fánar aðildarfélaga BSRB og ASÍ á 1. maí á Ingólfstorgi. Ljósmyn/Hari

BSRB og ASÍ hafa skilað sameiginlegri umsögn um áform ríkisstjórnarinnar um mótun atvinnustefnu. Markmið stefnunnar er að fjölga vel launuðum störfum um land allt og styðja við hagvöxt í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði. BSRB og ASÍ fagna þessum áformum og styðja markmiðið.

Í umsögninni er bent á að mikill hagvöxtur síðustu ára hafi að stórum hluta byggst á fólksfjölgun fremur en aukinni framleiðni. Til að atvinnustefnan nái árangri þarf því að efla grunnstoðir samfélagsins: innviði, félagsleg stuðningskerfi, mannauð með þekkingu og færni sem og rannsóknir og nýsköpun.

Jöfnuður og skipulagður vinnumarkaður
Hagvöxtur og verðmætasköpun er ekki trygging fyrir bættum hag almennings. BSRB og ASÍ leggja áherslu á að skipulagður vinnumarkaður, sterk stéttarfélög og öflug verkalýðshreyfing séu forsenda þess að ávinningur hagvaxtar skili sér til almennings.

Sterkir innviðir styðja við verðmætasköpun og jöfnuð
Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu grunninnviða og félagslegra innviða. Vaxandi ójöfnuður á undanförnum árum hefur m.a. tengst skorti á viðráðanlegu húsnæði og ódýrum samgöngum. Nauðsynlegt er að tryggja öllum aðgengi að húsnæði, leikskólum, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi óháð efnahag. Sterkir félagslegir innviðir hafa jákvæð áhrif á efnahagsþróun til lengri tíma.

Umgjörð atvinnulífsins
BSRB og ASÍ benda á að atvinnustefna þarf að vera samofin stefnu um nýtingu orku og auðlinda, þannig að hún styðji við fjölbreytt, vel launuð og góð störf sem samfélagsleg sátt ríkir um. Heildarsamtökin kalla einnig eftir því að stjórnvöld setji skýrari markmið um veitingu skattastyrkja og endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar, þannig að þau styðji við atvinnustefnuna.

Að lokum er ríkið hvatt til að greina betur hvaða menntun og hæfni verði mest þörf fyrir í framtíðinni, svo hægt sé að undirbyggja verðmætasköpun og sterka innviði til lengri tíma. Annars sé hætta á að vaxandi misræmi m.t.t. til menntunar og færni á vinnumarkaði verði ein stærsta hindrunin í framkvæmd stefnunnar. 

Hægt er að lesa umsögnina í heild sinni hér á vef BSRB.