Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. september 2025

Ríkið dæmt að greiða starfsmanni orlof á fasta yfirvinnu

Þann 19. júní sl. féll dómur í Landsrétti sem varðar rétt starfsmanna til orlofs af yfirvinnulaunum. Niðurstaðan getur haft bein áhrif á réttarstöðu félagsmanna og því er mikilvægt að bregðast skjótt við.

Málshöfðandi var starfsmaður Umbra-þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins sem taldi sig hlunnfarinn í launum þar sem honum hafði ekki verið greitt orlofsfé vegna yfirvinnutíma á grundvelli kjarasamningsreglu þar um. Hvort tveggja héraðsdómur og Landsréttur féllust á kröfur starfsmannsins um orlofsgreiðslu af yfirvinnu. Stefndi, ríkið, byggði sýknukröfu í málinu á því að orlofsfé hefði þegar verið greitt af heildarlaunum starfsmannsins og væri greitt alla mánuði ársins gegnum fasta yfirvinnu, þ.m.t. þegar starfsmaðurinn væri í orlofi og því án vinnuframlags. Í dómi héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti með vísan til forsendna, kom fram að ekki hefði verið samið sérstaklega um það við starfsmanninn að orlofsfé yrði ekki greitt af yfirvinnu. Vísað var til dómafordæmis Hæstaréttar í máli nr. 618/2006 og dreifibréfs fjármálaráðuneytisins nr. 2/2006 og komist að þeirri niðurstöðu að ríkið yrði að bera hallann af slíku samningsleysi. Fallist var því á kröfur starfsmannsins um að honum hafi borið að fá orlof greitt á yfirvinnulaun hans.

Hvað þýðir þetta fyrir félagsfólk?
• Starfsmenn sem ekki hafa sérstaklega samið sig frá rétti til orlofs af yfirvinnu eiga heimtingu á slíkum greiðslum.
• Félagið varar eindregið við því að undirrita samninga sem fela í sér afsal á þessum rétti.
• Rétturinn helst óbreyttur fyrir þá sem þegar hafa fengið orlof greitt af yfirvinnu og rétt að vara einnig við því að undirrita samninga sem fela í sér breytingu á því.
• Dómurinn staðfestir jafnframt að það skiptir ekki máli þótt greitt hafi verið orlof af yfirvinnu á meðan starfsmaður var í orlofi.

Félagið hvetur félagsmenn til að:
1. Kanna strax réttarstöðu sína.
2. Senda vinnuveitanda skriflega kröfu um vangoldið orlof af yfirvinnu, ef við á.

Mikilvægt er að félagsfólk bregðist strax við ef við á og setji kröfu sína sannarlega og skriflega fram, í því skyni að forðast það að síðar verði litið á tafir á framsetningu krafna sem tómlæti af þeirra hálfu.

Unnt er að leita til kjaradeildar Sameykis fyrir frekari ráðgjöf og aðstoð.

Lesa má dóm Landsréttar hér.