Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

15. september 2025

Skerðing réttinda starfsfólks jafngildir stríðsyfirlýsingu

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/Árni Sæberg

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, er í viðtali í nýjasta Tímariti Sameykis. Hún segir í viðtalinu að styrkur BSRB hafi verið í áranna rás sá að stéttarfélögin innan bandalagsins séu sameinuð um ákveðin grunngildi; velferð, jöfnuð og jafnrétti fyrir alla landsmenn, ekki bara sumt fólk.

Formaður BSRB segir það jafngilda stríðsyfirlýsingu að leggja til að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði löguð að almennum vinnumarkaði sem myndi fela í sér skerðingu réttinda hjá opinberu starfsfólki. „Það jafngildir stríðsyfirlýsingu við verkalýðshreyfinguna.“

Þá segir Sonja að hagræðingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar munu ekki stoppa í gatið hvað varðar fjárlagahallann, sem myndast hafi vegna ófjármagnaðra skattalækkana hjá ríkisstjórn fyrri ára. „Hagræðingaraðgerðir munu því ekki stoppa í gatið en geta dregið enn frekar úr einkennum okkar sem norræns velferðarsamfélags.“

Brot úr viðtali við Sonju Ýr Þorbergsdóttur í Tímariti Sameykis sem er á leið til félagsfólks:

„Styrkur okkar [BSRB] hefur í áranna rás verið sá að við sameinumst um grunngildi um velferð, jöfnuð og jafnrétti fyrir öll en ekki bara sum. Þetta eru gildi sem við sameinumst um þvert á stjórnmálaskoðanir eða ólíka samfélagslega stöðu okkar að öðru leyti. Sérstaklega hefur BSRB lagt áherslu á fjölskylduna. Þetta hefur alltaf verið bandalaginu hjartans mál – að horfa til stuðningskerfa fyrir fjölskyldur. Rúmlega 80 ára saga BSRB er samofin samfélagsþróuninni og við höfum því reynslu af að starfa náið með ríkisstjórnum að heildarhagsmununum en líka af að vera í þeirri stöðu að þurfa að veita stjórnvöldum ríkulegt aðhald ef við teljum að þau séu að gæta sérhagsmuna á kostnað sameiginlegra hagsmuna. Við höfum náð fram mikilvægum kjara- og samfélagsumbótum en stundum þurfum við að há varnarbaráttu,“ segir Sonja Ýr.

Telurðu að ríkisstjórnin styðji stefnu verkalýðshreyfingarinnar um aukinn jöfnuð og réttindi borgaranna?

„Já, ég myndi segja að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé að finna mörg atriði sem ríma við stefnu BSRB. Við vorum þó ekki sérlega hrifin af því að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar skyldi vera að óska eftir hagræðingartillögum. Við bentum á að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla til margra ára vegna ófjármagnaðra skattalækkana, t.d. lækkunar á tryggingargjaldi, fjármagnstekjuskatti, erfðaskatti og bankaskatti. Hagræðingaraðgerðir munu því ekki stoppa í gatið en geta dregið enn frekar úr einkennum okkar sem norræns velferðarsamfélags.

Þegar hagræðingartillögurnar litu svo dagsins ljós töldum við margar þeirra draga taum Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs. Þar er til dæmis lagt til að starfsmannalög verði löguð að almennum markaði sem myndi fela í sér skerðingu réttinda hjá opinberu starfsfólki. Það jafngildir stríðsyfirlýsingu við verkalýðshreyfinguna. Að sjálfsögðu viljum við jafna kjörin milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins en það verður að jafna upp á við.

Stjórnvöld verða að horfast í augu við að hinn raunverulegi vandi í starfsmannamálum er starfsmannavelta, mönnunarskortur og mikil veikindafjarvera sem er jafnan rakin til mikils álags í störfum. Mesti sparnaðurinn fengist með því að grípa til aðgerða til að stemma stigu við þeim vanda – og það væri líka manneskjulegasta leiðin. Einn stærsti hópurinn sem missir starfsgetu og er á örorku er fyrrum starfsfólk heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þetta eru konur 50 ára og eldri. Önnur tillaga hagræðingarhópsins snýr að því að spara megi með því að auka valdheimildir ríkissáttasemjara, meðal annars til að grípa inn í vinnudeilur. Við höfum ítrekað sagt að það komi ekki til greina enda myndi það veikja verkfallsréttinn verulega og þar með samningsstöðu launafólks.

Viðtalið við Sonju Ýri Þorbergsdóttur, formanna BSRB, má lesa í Tímariti Sameykis sem er á leið til félagsfólks í pósti. Vaki er athygli félagsfólks í Sameykis á eftirfarandi: til að fá tímaritið sent heim þar að skrá sig á póstlista. Smelltu á hnappinn til að fá tímaritið heimsent.

 

Fá Tímarit Sameykis sent heim í pósti