16. september 2025
Veikburða húsnæðismarkaður

Myndatexti: Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis. Ljósmynd/Axel Jón
Íslenski húsnæðismarkaðurinn byggir nær alfarið á séreignarstefnu þar sem um 80% íbúða eru í einkaeigu, segir Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis í grein um húsnæðismarkaðinn í nýjasta Tímariti Sameykis.
„Þetta hefur hamlað þróun annarra búsetuforma, svo sem leigufélaga og samvinnufélaga. Verkamannabústaðakerfið, sem áður tryggði tekjulágum fjölskyldum öruggt húsnæði, var lagt niður árið 2002 og hefur síðan ríkt skortur á stöðugum leigukostum,“ segir Gunnsteinn.
Þá segir hann að leigumarkaðurinn hér á landii sé veikburða og aðeins 5–6% íbúða standa almennt til útleigu. Háir vextir, verðbólga og aukin fjárfesting í íbúðum fyrir arð eða skammtímaleigu hafa magnað óstöðugleikann. „Þörf er á 10–12 þúsund íbúðum strax og 3–5 þúsund nýjum árlega til að mæta fólksfjölgun,“ segir Gunnsteinn.
Félög eins og Bjarg og Búseti hafa skapað nýja valkosti en hlutdeild þeirra er enn lítil. Í samanburði við Norðurlönd eru leiguíbúðir hér fáar og húsnæðisöryggi minna, að sögn Gunnsteins.
Greinin birtist í nýjasta Tímariti Sameykis sem er á leið í pósti til félagsfólks.
Vakin er athygli á að félagsfólk þarf að skrá sig á póstlista til að fá tímaritið heimsent í pappírsútgáfu.
Fá Tímarit Sameykis sent heim í pósti
.jpg)