17. september 2025
Málefni Sameykis rædd á trúnaðarmannaráðsfundi í dag

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis. Ljósmyndir/BIG
Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, setti fund í trúnaðarmannaráði í dag. Hann sagði að félagið ætli að styrkja samtalið við félagsfólk í Sameyki. Kári sagði að það væri nauðsynlegt að ræða mál opinbers starfsfólks því undanfarið hefur verið vegið að starfsfólki því ríkisstjórnin hyggst skerða réttindi opinberra starfsmanna með því að afnema lögbundin réttindi opinberra starfsmanna. Þá sagði hann það skipti máli að félagið nái betur til ungs fólks.
„Það er mitt hjartans mál að ná til ungs fólks. Það ætlum við að gera út á við með því að efla Instagram og hefja notkun á TikTok samfélagsmiðlinum. Þegar litið er Inn á við höfum við eflt skrifstofuna með því að endurskipuleggja félagið og ráðið inn starfsfólk svo þjónustan við félagsfólk verði betri.“
Opið stéttarfélag og umbun trúnaðarmanna
Þá hvatti Kári félagsfólk um að koma með ábendingar um lagabreytingar fyrir næsta aðalfund. „Við þurfum að opna félagið og við gerum það t.d. með því að breyta lögum félagsins. Við erum með laganefnd og ég hvet ykkur til að skoða störf nefndarinnar og koma með tillögur um lagabreytingar,“ sagði Kári.
Kári hvatti trúnaðarmenn til að sækja fundi og vera enn virkari í starfi félagsins. Hann sagði að í félaginu væri ákveðin umbun sem fylgdi því að starfa sem trúnaðarmaður fyrir Sameyki og hygðist stjórn félagsins að breyta fyrirkomulagi um umbun til trúnaðarmanna.

Frá fundi trúnaðarmannaráðs í dag.
„Stjórn félagsins hefur í hyggju að breyta fyrirkomulagi vegna árlegrar umbunar til trúnaðarmanna sem greidd hefur verið í desember ár hvert. Breytingin felur í sér að ákveðin grunnupphæð er greidd til trúnaðarmanna en þeir sem sækja alla fundi og trúnaðarmannafræðslu hjá félaginu fá hærri greiðslu sem er greidd í einu lagi í maí,“ sagði Kári.
Orðið var gefið frjálst og trúnaðarmönnum sem voru í sal, og þeim sem mættir voru í gegnum fjarfundarbúnað, lýstu velþóknun sinni á nýtt fyrirkomulag að greiða umbun fyrir störf þeirra í maí í stað desember eins og áður.
Fjárhagsáætlun stendur undir væntingum
Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis, fór yfir sex mánaða uppgjör félagssjóðs og orlofssjóðs hjá Sameyki. Hann sagði að þessir sjóðir stæðu vel og fjárhagsáætlunin væri í jafnvægi.

Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis, fer yfir fjárhagsáætlunina.
„Við sjáum að reksturinn er í góðu jafnvægi, en í svona hálfs árs yfirliti má gera ráð fyrir einhverjum sveiflum í áætlunum. Við erum í 42 prósentum í félagssjóði í væntri afkomu samkvæmt fjárhagsáætluninni en miðgildið er 50 prósent. Í orlofssjóð stendur prósentan í 62 af væntri afkomu samkvæmt fjárhagsáætlun. Útleiga orlofshúsa hefur aukist sem er afar ánægjulegt. Þrátt fyrir aukinn kostnað vegna nýrra orlofshúsa og mikillar uppbyggingar stendur orlofssjóður vel,“ sagði Gunnsteinn.
Fræðsla styður við hlutverk trúnaðarmanna
Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri Sameykis, kynnti fræðslumál félagsins fyrir trúnaðarmönnum. Hún nefndi að færniþættir framtíðar ríma vel við hlutverk trúnaðarmannsins. Jóhanna sagði að í boði er fyrir félagsfólk töluvert mikið nám sem það getur sótt sér eftir ýmsum leiðum; staðnám, fjárnám, vefnámskeið og með blandaðri aðferð með staðbundnum hætti og með fjarfundabúnaði. Þá sagði hún frá samstarfi Sameykis í fræðslumálum við Félagsmálaskóla alþýðu, Fræðslusetrið Starfsmenn og BSRB.

Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri Sameykis.
Launatöfluauki eða ekki launatöfluauki
Ingólfur Björgvin Jónsson, deildarstjóri kjaradeidar Sameykis, fjallaði um launatöfluaukann. Samið var um launatöfluauka í síðustu kjarasamningum sem er í raun launaþróunartrygging, álíka og kauptaxtaauki á almennum vinnumarkaði, sem bregst við launaþróuninni milli vinnumarkaða. Með þessari launaþróunartryggingu á opinberum vinnumarkaði mun síður verða hætta á að laun opinberra starfsmanna dragist aftur úr launum starfsfólks á almenna vinnumarkaðnum.

Ingólfur Björgvin Jónsson, deildarstjóri kjaradeildar Sameykis,
„Launatöfluaukinn kemur til hækkunar á samningstímanum. Við erum búin að klára flestalla kjarasamninga þar sem launatöfluauki kemur til kastanna, Um er að ræða hækkanir hjá ríkisstarfsmönnum. Hjá Reykjavík eru þessar breytingar á launatöflunni sjálfvirkar og samið var um í kjarasamningum. Við sjáum líka hjá sveitarfélögunum að um er að ræða svipaðar hækkanir í launatöflum í kjarasamningum þar og eru hjá ríkinu,“ sagði Ingólfur um launatöfluaukann og bætti við: „Við höldum að við eigum inni 0,3 prósent hækkun í launatöflum hjá Reykjavíkurborg og við munum alveg pottþétt taka upp þessar viðræður í næstu kjarasamningum við borgina,“ sagði Ingólfur að lokum.
Eftir kaffihlé voru trúnaðarmönnum skipt upp í umræðuhópa þar sem umræðuefnin voru kjara- og réttindamál, Styrktar- og sjúkrasjóður, orlofsmál og orlofskostir, félags- og nefndarstörf hjá Sameyki ásamt reyndum trúnaðarmönnum sem miðluðu af reynslu sinni.
Formaður Sameykis þakkaði trúnaðarmönnum félagsins fyrir góða þátttöku og uppbyggilegar umræður og sleit fundi,