Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. september 2025

Málefni fangavarða í ólestri

Heiðar Smith, formaður Fangavarðafélags Íslands. Samsett mynd/Axel Jón

Heiðar Smith, formaður Fangavarðafélags Íslands, sagði í frétt á Vísi í gær að aðstæður væru óviðunandi innan fangelsisins á Litla-Hrauni og kallaði hann eftir lausnum sem aðstoði við að leysa vandann strax. Hann sagði að ráðist sé á fangaverði og skvett á þá ýmsum líkamsvessum. Formaður Sameykis segir óásættanlegt að fangaverðir þurfi að búa við mjög slæmar starfsaðstæður, mikla streitu í starfi, álags og öryggisleysi vegna þrengsla og við því verða stjórnvöld að bregðast við strax.

Málefna fangavarða hefur verið um árabil í töluverðum ólestri. Álag í starfi er mikið og skortur er á fangavörðum. Þá hafa fangaverðir undanfarin ár gagnrýnt stjórnvöld fyrir að laun þessa hóps sé ekki í samræmi við ábyrgð og álag í starfi. Það blasir við að stjórnvöld skella skollaeyrum við ákalli fangavarða um úrlausn þessa aðkallandi mála sem formaður Fangavarðafélags Íslands vekur athygli á og hafa gert um langa hríð.

„Það er verið að ráðast á okkur, það er verið að skvetta á okkur allskonar líkamsvessum. Við erum að lenda í allskonar hótunum, áreitni og hvað eina. Nýtt fangelsi leysir ekki vandann sem steðjar að fangavörðum í dag. Þeir eru oftar beittir ofbeldi, hótunum og ýmissi áreitni nú en áður,“ segir Heiðar. Þá segir hann að plássleysið skapi meiri spennu meðal fanga og geri fangavörðum erfiðara að færa þá til innan fangelsins ef eitthvað kemur upp á. „Plássleysi er stærsta vandamálið en einnig vantar fleiri fangaverði,“ segir formaður Fangavarðafélags Íslands.

Afstaða - félag fanga, forstöðumenn tveggja fangelsa og öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar og Fangavarðafélag Íslands sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um liðna helgi þar sem lýst er slæmu viðvarandi ástandi í fangelsismálum.

„Ástand fullnustukerfisins einkennist af langvarandi vanfjármögnun, ófullnægjandi innviðum og aukinni öryggisáhættu gagnvart bæði föngum og starfsfólki. Þrátt fyrir viðvaranir frá bæði eftirlitsaðilum og stofnuninni sjálfri í áratugi hefur nauðsynleg uppbygging setið á hakanum,“ segir í yfirlýsingu hópsins.

Fram hefur komið í máli fangavarða á undanförnum árum að streita er, og verður alltaf, viðloðandi í þessu starfi. Fangaverðir vinna með mjög erfiða einstaklinga og samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið kemur í ljós að miklu meiri streita fylgir starfi fangavarðar heldur en annars staðar í löggæslunni. Einnig er áfallastreita 10 prósentum meiri í störfum fangavarða en hjá lögreglu. Þá kallar Heiðar eftir því að meira fjármagn verði sett í Fangavarðaskólann því meiri þörf sé nú en áður að fá menntaða fangaverði til starfa.

Formaður Sameykis, Kári Sigurðsson, segir að það óásættanlegt að stjórnvöld hafi hunsað áhyggjur fangavarða og þau þurfi að bregðast við þeim slæmu starfsaðstæðum sem ríkt hefur í alltof mörg ár hjá þessum hópi.

„Ég tek undir áhyggjur Heiðars. Þetta ástand sem hann lýsir hvernig starfsaðstæður fangavarða eru er algjörlega óviðunandi. Fangaverðir starfa við mjög erfiðar aðstæður við þröngan kost og við þessu neyðarástandi á vinnustöðum fangavarða verða stjórnvöld að bregðast strax við. Það er ljóst Fangelismálastofnun hefur verið fjársvelt í mörg ár sem hefur bitnað illilega á kjörum og líðan fangavarða í starfi. Ekki hefur verið endurnýjaður stofnanasamningur frá árinu 2017. Það er mikið sanngirnismál að fangaverðir fái leiðréttingu á sínum kjörum í gegnum stofnanasamning og að störf þeirra verði metin að verðleikum.“

Sjá hér sameiginlega yfirlýsingu Fangavarðarfélags Íslands, Afstöðu, til ábyrgðar, forstöðumanns Litla-Hrauns, forstöðumanns Hólmsheiðar, og öryggisstjóra Fangelsismálastofnunar.