Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

22. september 2025

Sameyki veitir rannsóknarstyrk

Sameyki veitir rannsóknarstyrk í tengslum við Stofnun ársins.

Sameyki veitir rannsóknarstyrk í tengslum við Stofnun ársins 2025 vegna lokaritgerðar meistaranema á sviði mannauðsmála.

Í ár er óskað eftir umsóknum meistaranema sem stefna á að vinna lokaverkefni veturinn 2025–2026. Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu stendur árlega fyrir vali á Stofnun ársins í vinnumarkaðskönnun sem unnin er í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Reykjavíkurborg og ná kannanirnar allt aftur til ársins 2006. Um að ræða eina stærstu reglulegu vinnumarkaðskönnun landsins.

Könnunin er afar mikilvægt innlegg í umræðuna um starfsumhverfi og vellíðan starfsmanna og gefur mjög góða mynd af starfsumhverfi og starfsaðstæðum starfsmanna í almannaþjónustu. Könnunin snýr að níu þáttum í starfsumhverfinu (stjórnun, starfsanda, launakjörum, vinnuskilyrðum, sveigjanleika í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd, ánægju og stolti og jafnrétti) og hafa þættirnir endurtekið komið fram í þáttagreiningu á gögnunum og hafa háan áreiðanleika. Í tengslum við könnunina hefur Sameyki staðið fyrir málþingi auk þess að veita styrk til meistaranema til þess að rannsaka og rita lokaritgerð um efni sem tengjast efni könnunarinnar. Eitt af markmiðum með vali á Stofnun ársins er að stuðla að umræðu um aðstæður á vinnustöðum og bæta starfsskilyrði og starfskjör félagsfólks með því að gefa þeim tækifæri til samanburðar á mismunandi vinnustöðum. Sameyki hefur ákveðið að veita einum meistaranema styrk til að skrifa meistararitgerð sem tekur mið af málefnum sem tengjast könnuninni Stofnun ársins. Styrkupphæðin er kr. 750.000, – sem dreifist á þrjá mánuði, en skilyrði fyrir styrkveitingu er að umsækjandi sé búinn með a.m.k. 30 ECTS-einingar í meistaranámi.

Við val á styrkþega er horft til notagildis rannsóknarinnar, hvert fræðilegt og hagnýtt gildi hennar er og hvernig hún getur nýst við að bæta starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem eru félagsmenn í Sameyki. Í umsókninni þarf að koma fram ítarleg greinargerð um rannsóknarviðfangsefni og rannsóknarspurningar sem og yfirlit um menntun og reynslu umsækjanda. Umsóknarfrestur er til og með 31. október 2025. Tilkynnt verður um hver hlýtur styrkinn á málþingi sem Sameyki stendur fyrir um mannauðsmál hins opinbera þann 12. febrúar 2026.

Allar upplýsingar veitir fræðslustjóri Sameykis, Jóhanna Þórdórsdóttir.