Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. september 2025

Formannaráð BSRB fjallaði um réttindi og efnahagsmál

Formannaráð BSRB fundaði á Varmalandi. Ljósmynd/BSRB

Formannaráð BSRB kom saman á Varmalandi í Borgarfirði 29.–30. september. Á fundinum var fjallað um helstu hagsmunamál bandalagsins, meðal annars fyrirhugað afnám ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur á áminningarskyldunni hjá opinberu starfsfólki, sem muni veikja lögbundin réttindi opinberra starfsmanna og skapa óöryggi á vinnumarkaði.

Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB, var með erindi um áminningarskylduna og lagði áherslu á mikilvægi þess að BSRB stígi fast til jarðar, standi vörð um réttindi launafólks og bregðist við neikvæðri orðræðu um opinbert starfsfólk sem verið hefur áberandi í fjölmiðlum undanfarið.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, hélt erindi þar sem hún fór yfir stöðu efnahagsmála í byrjun vetrar. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, kynnti nýjar niðurstöður könnunar um stöðu launafólks.

Þá samþykkti formannaráðið ályktun þar sem lýst er eindregnum stuðningi við hinsegin réttindi og áréttað mikilvægi mannréttinda.