27. október 2025
„Árás á réttindi launafólks“ – Ögmundur Jónasson gagnrýnir áform um afnám áminningarskyldu

Ögmundur Jónasson, fv. formaður BSRB, og Lísbet Sigurðardóttir, lögmaður hjá Viðskiptaráði. Ljósmynd Axel Jón
Úlfljótur, félag laganema við Háskóla Íslands, stóð fyrir hátíðarmálþingi 22. október sl. sem bar yfirskriftina „Réttarvernd starfsmanna ríkisins – of rík eða réttmæt og eðlileg?”. Þar var m.a. fjallað um áform ríkisstjórnarinnar um að afnema úr lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ákvæði um áminningarskyldu.
Til málþingsins mættu Reimar Pétursson, lögmaður, Ögmundur Jónasson, fyrrum alþingismaður, ráðherra og formaður BSRB, og Lísbet Sigurðardóttir, lögmaður hjá Viðskiptaráði Íslands.
Reimar hóf málþingið og í máli hans kom fram að áminningarferlið væri eitt af lykilúrræðum stjórnsýsluréttarins í starfsmannalögum og þjónaði því hlutverki að tryggja réttláta málsmeðferð áður en til uppsagnar kæmi. Ferlið felur í sér að starfsmanni er veitt formleg áminning vegna ávirðinga í starfi og honum gefinn kostur á að bæta ráð sitt áður en gripið er til harðari úrræða eins og uppsagnar.
„Ef að raunverulega er um það að ræða að starfsmaðurinn hefur gert eitthvað af sér í starfi sem leiðir til uppsagnar, þá verður að velja áminningarleiðina. Ef starfsmaður fær áminningu og fær síðan aftur áminningu innan ákveðins tíma, þá er ferlið fullnægjandi, og þá er hægt að segja honum upp störfum,“ sagði Reimar.

Auglýsing um málþingið.
Hann undirstrikaði jafnframt að ekki væri heimilt að „dulbúa uppsögn sem skipulagsbreytingu eða eitthvað slíkt“. Með því að fylgja áminningarferlinu er tryggt að ákvörðun um starfslok byggi á málefnalegum, gagnsæjum og lögmætum grundvelli, í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til opinberrar stjórnsýslu. Þá sagði hann að uppsagnir á opinberum vinnumarkaði lytu mun strangari reglum en á hinum almenna. „Ríkisstarfsmenn njóta meiri verndar þar sem áminningarferli, andmælaréttur og formleg málsmeðferð tryggja að uppsagnir byggi á málefnalegum og lögmætum grundvelli.“
Erindi Ögmundar Jónassonar var afdráttarlaust. Hann varaði eindregið við áformum stjórnvalda um að fella áminningarskylduna úr lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hann sagði að með því væri verið að veikja réttarstöðu launafólks, draga úr ábyrgð stjórnvalda og grafa undan grundvallarhugmyndum um réttláta málsmeðferð í opinberri stjórnsýslu.
„Við verðum að bregðast við þessum ásetningi ríkisvaldsins um að nema þessi tilteknu réttindi úr lögum því við erum að tala um grundvallarmannréttindi.“
Ögmundur sagði að samkvæmt gildandi lögum bæri að veita starfsmanni skriflega áminningu og gefa honum kost á að bera hönd fyrir höfuð sér, leiðrétta misskilning eða bera af sér rangar sakir ef því væri að skipta og bæta ráð sitt ef um slíkt væri að ræða, áður en til frekari aðgerða kæmi. „Nú ætlar hins vegar ríkisstjórnin að fella þessa skyldu atvinnurekenda niður. Það þýðir að hægt væri að reka fólk án þess að það fengi tækifæri til að tjá sig eða verja sig, án þess að réttlætið fengi að hafa sinn gang. Þetta er ekkert annað en árás á réttindi launafólks,“ sagði Ögmundur og bætti við: „Þetta er ekki umbót, þetta er afturför.“
Hann gagnrýndi jafnframt Viðskiptaráð og aðra hagsmunaaðila úr atvinnulífinu fyrir að styðja frumvarpið og klappa því lof í lófa.
„Ríkisstjórnin er að brjóta niður grundvallarréttindi launafólks í nafni skilvirkni og sparnaðar sem vel að merkja er hægt að ná fram samkvæmt núgildandi lögum. Að fella út áminningarskylduna er ekkert annað en árás á réttláta málsmeðferð og varnarskjöld starfsfólks gagnvart yfirvaldi. Og þegar Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins klappa þessu lof í lófa, þá sýnir það bara eitt – að þeim er sama um réttindi vinnandi fólks, í lagi sé að ganga á hlut þess svo lengi sem það þjónar þeirra eigin hagsmunum.“
Ögmundur sagði að tal um samræmingu réttinda hjá hinu opinbera og á almennum markaði undir formerkjum réttlætis væri innantóm blekking. Allt gengi þetta úr á að samræma niður á við og hafa réttindi af fólki, rýra réttarstöðu launafólks. Taldi hann slíkt viðhorf ekki sæmandi í ríki sem vildi kenna sig við lýðræði og velferð. „Þetta er ekkert annað en tilraun til að kroppa réttindi af fólki,“ sagði hann. „Þegar farið er að tala um sparnað og hagræðingu sem réttlætingu á því að draga úr mannréttindum, þá vitum við að við erum á hættulegri braut.“
Í erindi sínu lagði Lísbet Sigurðardóttir áherslu á að opinberir starfsmenn nytu umframréttinda sem ekki væru í samræmi við almennan vinnumarkað. Hún hélt því fram að uppsagnarvernd, veikindaréttur og orlof opinberra starfsmanna gerði opinbera stjórnsýslu ósveigjanlega og drægi úr skilvirkni í rekstri ríkisins. Lísbet byggði rök sín á úttektum og könnunum Viðskiptaráðs sem tekur undir tillögur ríkisins um að afnema áminningarskyldu og veikja þar með stjórnsýsluvernd opinberra starfsmanna. „Í núverandi mynd stendur lagaumgjörð um uppsagnir opinberra starfsmanna gegn eðlilegum sveigjanleika í rekstri ríkisins,“ sagði Lísbet. Hún sagði jafnframt að „afnám þessarar umframverndar mun veita nauðsynlegt svigrúm til þess að bregðast við ef starfsmenn bregðast skyldum sínum eða brjóta af sér í starfi.“ Hins vegar er þessi mynd afar einhliða þar sem hún gefur í skyn að ríkið beri kostnað af að geta ekki sagt starfsfólki upp störfum með sama hætti og á almennum vinnumarkaði.
Lísbet tekur ekki tillit til raunverulegs kostnaðarhlutfalls opinbers reksturs, mannfjöldaþróunar eða þess hvernig opinber þjónusta hefur þurft að stækka í takt við fjölgun íbúa – frá um 140 þúsund manns árið 1950 í yfir 390 þúsund nú. Hún horfir fram hjá því að aukinn fjöldi starfsfólks í heilbrigðis-, mennta- og félagslega kerfinu endurspeglar eðlilega þörf samfélagsins fyrir velferð og þjónustu, ekki óhóf eða sóun.
Viðskiptaráð, sem stendur að baki úttektunum sem Lísbet vísar til, er hagsmunasamtök sem tala fyrir markaðsvæðingu og niðurskurði opinberrar þjónustu. Samtökin hafa um árabil barist gegn réttindum opinberra starfsmanna og launafólks almennt. Þau leggja til að svipta opinbera starfsmenn hluta af sínum grundvallarréttindum í stað þess að bæta kjör og starfsöryggi á almennum markaði.
BSRB hefur ítrekað bent á að leiðin fram á við sé ekki að „jafna niður á við“ heldur að tryggja jafnræði upp á við – að launafólk á almennum vinnumarkaði njóti sömu réttinda og öryggis og starfsfólk í opinbera geiranum. Slík stefna styrkir velferðarsamfélagið í heild og stuðlar að stöðugleika og réttlæti, fremur en sundrungu milli hópa á vinnumarkaði.