28. október 2025
Lokað á skrifstofu Sameykis í dag vegna ófærðar

Snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu í morgun, með gríðarmiklum töfum á umferð. Aldrei hefur mælst eins mikil snjókoma í Reykjavík í októbermánuði. Ljósmynd/Eggert/Morgunblaðið
Skrifstofa Sameykis verður lokuð eftir hádegi vegna ófærðar og slæmrar veðurspár sem tekur gildi nú síðdegis. Vegna þessa bendum við á að þjónusta Sameykis á Mínum síðum sefur aldrei þar sem hægt er að sækja sér upplýsingar og þjónustu.
Við vekjum athygli félagsfólks á eftirfarandi réttindum þeirra þegar verður gerast válynd.
Almennt um réttindi starfsfólks sem kemst ekki til vinnu vegna ófærðar
Í bréfi til ráðuneyta og ríkisstofnana þar sem fjallað er um laun og frítökurétt starfsmanna þegar óveður og/eða ófærð hamla vinnusókn kemur eftirfarandi fram:
„Almenna reglan er sú að starfsmaður sem ekki mætir til starfa af völdum ófærðar, er launalaus eða vinnur daginn/vaktina af sér síðar. Hafi almenn ófærð ríkt á viðkomandi svæði og þeir starfsmenn sem í hlut eiga, gert sitt ítrasta til að komast til vinnu eða komið strax og t.d. strætisvagnaleiðir opnuðust, vill ráðuneytið hér með beina því til stofnana að dagvinnulaun hlutaðeigandi starfsmanna verði ekki skert vegna slíkra fjarvista.“
Einnig er í bréfinu fjallað um það ef starfsmaður kemst ekki heim vegna óveðurs og eða ófærðar. Sjá bréf ráðuneytisins frá 23. febrúar 2000 hér.
Í kjarasamningi Sameykis við Reykjavíkurborg er kveðið á um þetta í gr. 9.5.5
Falli niður vinna á verkstað vegna veðurs eða annarra orsaka sem starfsmenn eiga enga sök á, skal skylt að greiða kaup fyrir fastan reglulegan vinnutíma.