29. október 2025
BSRB mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að stytta atvinnubótatímabilið

BSRB hefur skilað umsögn í samráðsgátt stjórnvalda vegna draga að frumvarpi um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir (mál S-206/2025), sjá hér. Þar er lagt til að tímabil atvinnuleysisbóta verði stytt úr 30 mánuðum í 18 mánuði og að fólk þurfi að hafa starfað í tólf mánuði áður en það á rétt á atvinnuleysistryggingum, í stað þriggja mánaða eins og nú gildir.
BSRB mótmælir þessum breytingum harðlega og bendir á að þær kalli á umfangsmikla skerðingu á réttindum atvinnuleitenda án þess að samráð hafi verið haft við aðila vinnumarkaðarins.
Frumvarpið gengur gegn niðurstöðum starfshóps sem vann að heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar
Á árunum 2021 til 2023 var starfandi sérstakur starfshópur stjórnvalda, þar sem allir helstu aðilar vinnumarkaðarins áttu fulltrúa. Hópurinn fékk það hlutverk að vinna að heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar. Þar náðist m.a. samkomulag um að lagt yrði til að bótatímabilið yrði 24 mánuðir, en á móti yrðu virkniúrræði efld. Starfshópurinn fékk hins vegar ekki tækifæri til þess að ljúka formlega störfum og skila af sér frumvarpi til ráðherra, en þau drög að frumvarpi sem nú hafa verið birt ganga lengra en nokkur aðili innan hópsins lagði til og án nokkurs samráðs.
Fullyrðingar í frumvarpinu standast ekki skoðun
Í frumvarpinu er því haldið fram að langtímaatvinnuleysi hafi farið lækkandi. Gögn Vinnumálastofnunnar sýna hins vegar hið gagnstæða; fjöldi langtímaatvinnulausra hefur aukist á síðustu tveimur árum og eru fleiri í dag en árið 2023. Þá gera efnahagsforsendur fjárlaga ráð fyrir auknu atvinnuleysi á næstu misserum.
Ef frumvarpið verður að lögum mun það bitna harkalega á þeim hópi sem hvað mest þarf á stuðningi að halda og í mörgum tilvikum ýta fólki út úr kerfinu og yfir til sveitarfélaga sem fjárhagsaðstoðartaka.
BSRB kefst þess að frumvarpið verði dregið til baka
BSRB krefst þess að ráðherra dragi frumvarpið til baka og að málið verði unnið á ný í samráði við aðila vinnumarkaðarins, á grundvelli þeirrar vinnu sem þegar hefur átt sér stað hjá starfshópi stjórnvalda.
Lesa má umsögn BSRB í heild sinni í Samráðsgátt hér.