Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. október 2025

Ný alþjóðleg skýrsla UNI Global afhjúpar ofbeldisfaraldur í umönnunarstörfum

UNI Global Union leggur áherslu á að ofbeldi í umönnunarstörfum sé afleiðing vanmats og skorti á starfsfólki.


Ný alþjóðleg skýrsla frá UNI Global Union, (Alþjóðleg samtök stéttarfélaga með yfir 20 milljónir félagsmanna í meira en 150 löndum sem starfa m.a. við opinbera þjónustu- og umönnun), sýnir að ofbeldi og áreitni gegn opinberum starfsmönnum sem starfa við umönnun er útbreiddur vandi. Skýrslan byggir á svörum ríflega 15 þúsund starfsmanna í 80 löndum. Í könnuninni sögðust meira en átta af hverjum tíu hafa orðið vitni að eða orðið fyrir ofbeldi, mismunun eða áreitni við störf sín. Í skýrslunnii er dregið fram að hægt er að koma í veg fyrir ofbeldi á vinnustöðum sem samhentum aðgerðum í samvinnu við stjórnvöld og stéttarfélög.

Fjórðungur upplifir óöryggi á vinnustað, og nærri þriðjungur verður fyrir ofbeldi að minnsta kosti einu sinni í hverjum mánuði. Að sögn skýrsluhöfunda endurspeglar þessi staða bæði kerfisbundna vanfjármögnun þjónustunnar og langvarandi skort á starfsfólki í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu sem eykur líkurnar á að verða fyrir ofbeldi í vinnunni. Tveir þriðju þolenda eru konur, sem sýnir hvernig kynjamunur og vanmat á umönnunarstörfum spila saman.

Skýrslan, Protecting Those Who Care, dregur einnig fram hvernig stéttarfélög um allan heim hafa hafið baráttu til að stöðva þessa þróun, m.a. Kanada, sem hefur fellt inn í kjarasamninga opinberra starfsmanna, fræðsluáætlanir og jafnvel nýja löggjöf til að koma í veg fyrir ofbeldi og tryggja stuðning við þolendur. Um leið er lögð meiri ábyrgð á vinnuveitendur. Þessar aðgerðir byggja m.a. á alþjóðlegum samningi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 190 um ofbeldi og áreitni á vinnustöðum.

UNI Global Union leggur áherslu á að ofbeldi í umönnunarstörfum sé afleiðing vanmats og skorti á starfsfólki. Samtökin krefjast þess að stjórnvöld fjármagni raunverulegar forvarnir, innleiði lög sem tryggja öryggi starfsfólksins og vinni með stéttarfélögum að aðgerðum sem miða að því að vernda starfsfólk. Vinnuveitendur eigi að setja fram skýra stefnu um að ofbeldi sé ekki liðið, veita starfsfólki þjálfun og skapa öruggt umhverfi þar sem það getur starfað án þess að eiga á hættu á að verða fyrir obeldi.

Að sögn UNI er þetta spurning um mannlega reisn og virðingu fyrir opinberum starfsmönnum sem starfa við félagsþjónustu í heilbrigðiskerfinu, fólki sem heldur uppi heilbrigði samfélaganna á skilið virðingu og vernd og að þurfa ekki að óttast að verða beitt áreitni og ofbeldi í vinnunni.

Reykjavíkurborg með virka aðgerðaáætlun gegn ofbeldi á vinnustöðum
Reykjavíkurborg birti aðgerðaráætlun fyrir árin 2025-2028 í desember á síðasta ári þar sem áhersla er lögð á að uppræta ofbeldi og kynbundið ofbeldi í starfsumhverfi borgarinnar, sérstaklega þar sem ummönnunarstéttir verða oft fyrir miklu álagi og búa frekar við áhættu að verða fyrir ofbeldi í vinnunni en aðrar. Áætlunin undirstrikar ábyrgð stjórnenda á því að skapa öruggt vinnuumhverfi þar sem starfsfólk nýtur virðingar og verndar, og að verklag og viðbrögð sé skýr og gagnsæ. Í áætluninni er kall eftir þjálfun starfsfólks og stjórnenda í að greina og bregðast við ofbeldi og eflingu stuðningskerfa sem tryggja að þolendur fái aðstoð án þess að þurfa upplifa ótta við afleiðingar. Sérstaklega er bent á mikilvægi fræðslu um kynbundið ofbeldi, sem á sér oft rætur í menningarlegum viðhorfum og valdatengslum segir í skýrslunni.

Þá kemur fram í áæluninni að Reykjavíkurborg hyggst vinna markvisst að því að rjúfa þögnina um ofbeldi á vinnustöðum, styrkja trúnað við starfsfólk og byggja upp virkt samstarf milli vinnustaða, stéttarfélaga og félagsþjónustu. Þetta samræmist þessari nýju skýrslu UNI Global Union sem sýnir að ofbeldi og áreitni gegn opinberum starfsmönnum í umönnunarstörfum er vaxandi vandamál. Með slíkum aðgerðum leggur Reykjavíkurborg áherslu á að vernda þá sem sinna umönnunarstörfum, tryggja réttindi þeirra og stuðla að virðingu, jafnrétti og öryggis í allri þjónustu borgarinnar.