31. október 2025
„Hrekkjavaka á Landakoti“ – starfsmaður rekinn fyrirvaralaust

„Hrekkjavaka á Landakoti“.. Kristófer Ingi Svavarsson, trúnaðarmaður Sameykis.
Kristófer Ingi Svavarsson, trúnaðarmaður Sameykis á Landakoti, lýsir atburðarás í pistli þegar starfsmaður Landspítalans á Landakoti, kona á sjötugsaldri sem hefur unnið á spítalanum í áratugi, var rekin án fyrirvara og án þess að lögbundið áminningarferli væri virt, að því er fram kemur í pistli Kristófers Inga sem birtist á Vísi undir heitinu „Hrekkjavaka á Landakoti“.
Í pistlinum segir Kristófer að konan hafi verið send heim með uppsagnarbréf í veikindafríi, án samtals eða viðvörunar sem hann lýsir sem „hrekkjavöku í heilbrigðiskerfinu“ þar sem mannúð, samkennd og virðing víkja fyrir „kulda og yfirgangi embættismanna“.
„Engin viðvörun, engin samkennd – aðeins bréf og bless,“ skrifar hann og gagnrýnir stjórnendur Landspítalans harðlega fyrir framkomu sem hann segir bera vott um „siðferðislegt tómarúm“.
Þá spyr Kristófer hvort slíkt hefði verið látið viðgangast gagnvart lækninum, framkvæmdastjóranum eða prófessornum með tengslanetið, og segir málið sýna rótgróna stéttaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins. „Þegar áminningarferlið er sniðgengið og starfsfólk fellt með pennastriki er ekki lengur um mistök að ræða heldur menningu,“ skrifar hann og lýsir vinnustaðnum á Landakoti sem „vettvangi kuldans, ekki kærleikans“.
Sameyki hefur vakið athyglii á að ríkisstjórnin hyggst afnema úr starfsmannalögum opinberra starfsmanna áminningarskylduna sem gefur starfsfólki tækifæri og rétt til að bera hönd yfir höfuð sér þegar ólögmætar og fyrirvaralausar uppsagnir verða án útskýringa.
Lesa pistil Kristófers Inga Svavarssonar hér.
Sjá fleiri fréttir um málið:
„Árás á réttindi launafólks“ – Ögmundur Jónasson gagnrýnir áform um afnám áminningarskyldu
Stjórn BSRB krefst þess að ríkisstjórnin dragi áform sín til baka
Skerðing réttinda starfsfólks jafngildir stríðsyfirlýsingu