Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. nóvember 2025

Lagabreytingar ræddar trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis

Á fundi í trúnaðarmannaráði Sameykis í dag var fjallað m.a. um fyrirhugaðar lagabreytingar fyrir næsta aðalfund sem fram fer 26. mars 2026, áminningarskylduna, afmæli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem hefði orðið 100 ára o.fl.

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, talaði um að félagið væri í ákveðinni varnarbaráttu fyrir réttindum opinberra starfsmanna sem BSRB leiddi á þeim vettvangi. Hann sagði að verjast þurfi þeim ásetningi ríkisstjórnarinnar að fella úr starfsmannalögum ríkisstarfsmanna áminningarskylduna en frumvarp þess efnis er nú í samráðsgátt stjórnvalda. „Við stöndum í varnarbaráttu því ríkisstjórnin hyggst fella út lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem við erum alfarið mótfallin og höfum beitt okkur gegn t.d. með stuðningi BSRB og svo hefur félagið ásamt bandalaginu skilað inn umsögn um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda,“ sagði Kári.


Kári Sigurðsson á fundi í trúnaðarmannaráði í dag. Ljósmynd/Axel Jón

Kári sagði frá því að Sameyki muni standa fyrir því að haldið verði upp á 100 ára afmæli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar 17. janúar 2026.

„Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar er að sjálfsögðu hluti af Sameyki eins og SFR, með mikla sögu sem við viljum virða og að sjálfsögðu halda upp á með þeim hætti að bjóða félagsfólki, núverandi og fyrrverandi, til veislu í Ráðhúsi Reykjavíkur í janúar.“

Þá sagði hann að fræðslunámskeið félagsins hafi slegið í gegn hjá trúnaðarmönnum og það væri mjög ánægjulegt. „Við erum mjög glöð með þátttöku trúnaðarmanna í námskeiðum félagsins sem nýtast þeim vel í þeim krefjandi verkefnum sem þeir eru í. Mæting á þessa fræðslufundi félagsins komu okkur á óvart – hve vel þau eru sótt og eru biðlistar á sum þeirra. Þetta er mjög vel gert og eins og ég sagði þátttakan framar öllum vonum. Námskeiðin munu án efa efla trúnaðarmenn félagsins og nýtast vinnustöðunum mjög vel.“

Þá greindi formaður Sameykis frá skipulagi starfshópa og nefnda félagsins og tóku trúnaðarmenn vel í að starfa í hinum ýmsu hópum sem munu koma til með að hafa áhrif á störf og mótun félagsins. Skipað var í eftirfarandi nefndir: Skemmtinefnd, rýnihópi hvernig virkja skal ungt fólk innan félagsins, þrýstihóp sem vinnur að kröfugerð fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og fundar með frambjóðendum, kjara- og starfsumhverfisnefnd. Fleiri nefndir eru þegar starfandi eins og vaktavinnunefnd, og umhverfis- og loftslagsnefnd.

Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis, fór yfir fjárhagsáætlun fyrir árið 2026. Hann sagði að það væri nýbreytni hjá félaginu að fara yfir áætlunina svo snemma og sagði að félagið hafi staðið frammi fyrir breytingum í starfseminni. Hjá Sameyki er nú starfandi teymi í kjaradeild og í sjóðadeild sem vinnur að úrlausn mála hratt og örugglega. Þá hefur verið dregið úr útgáfustarfsemi og tímarit félagsins er ekki lengur sent til alls félagsfólks eins og áður var gert, er samt sem áður prentað áfram og hægt að fá það sent heim til sín sé þess óskað.


Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis.

„Við lögðum kapp á að kynna fjárhagsáætlun á þessum fundi trúnaðarmanna félagsins en það hefur ekki verið gert svo snemma hjá félaginu áður. Við höfum verið að bæta í og breyta forsendum og leggjum nú mikla áherslu á beina þjónustunni og aðlaga hana að þörfum félagsfólks. Við höfum breytt áherslum þannig að nú erum við með starfandi ráðgjafateymi sem er fyrsta snerting við félagsfólk því við viljum að úrlausn mála félagsmanna gerist mjög hratt. Þyngri mál fara svo áfram inn á sviðin, kjarasvið og svið sjóða o.s.frv. Við höfum einnig viljað draga úr ýmsum kostnaði, og hvað varðar útgáfumálin höfum við viljað draga úr prentun og annarri útgáfustarfsemi og færa miðlun upplýsinga yfir á samfélagsmiðla og upplýsingafundi. Ég vek athygli á að Tímarit Sameykis er enn gefið út en félagsfólk þarf að óska sérstaklega eftir því að fá það sent heim til sín og hægt er að gera það á vef Sameykis,“ sagði Gunnsteinn.

Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur Sameykis, ásamt því að stýra fundinum fór hún yfir desemberuppbótina, sem má sjá hér, og svaraði spurningum trúnaðarmanna þar um.


Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur Sameykis.

„Starfsmaður sem er í starfi fyrstu viku í nóvember á rétt á desemberuppbót miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Desemberuppbót er föst krónutala og tekur ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Skal hún greidd út eigi síðar en 15. desember 2025,“ sagði Jenný.


Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, varaformaður Sameykis og formaður laganefndar.

Í lok fundar fór Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, varaformaður Sameykis og formaður laganefndar, yfir tillögur að lagabreytingum sem stjórn hyggst leggja fram fyrir næsta aðalfund sem verður haldinn í mars á næsta ári. „Helstu lagabreytingarnar sem verið er að vinna að eru; formaður verði kosinn í opinni kosningu með svokallaðri blandaðri leið þar sem trúnaðarmenn velja til starfa uppstillingarnefnd eða framboðsnefnd. Þá þarf formaður og stjórnarmenn að safna ákveðnum fjölda meðmælenda til að geta boðið sig fram í stjórn Sameykis,“ sagði Ingibjörg Sif.

Þetta er í samræmi við það sem formaður Sameykis hefur rætt áður á fundum félagsins, að stjórnin hyggst opna félagið meira en áður svo félagsfólk geti sjálft haft aðkomu að kosningu í stjórn Sameykis með beinni hætti.


  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd