Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. desember 2025

Fróðlegur morgunverðarfundur með starfsfólki Reykjavíkurborgar

Morgunverðarfundur var haldinn með félagsfólki sem starfar á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Samsett mynd/Axel Jón

Morgunverðarfundur var haldinn með félagsfólki sem starfar á skóla- og frístundasviði hjá Reykjavíkurborg. Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, stýrði fundi og fór yfir starfsemi Sameykis. Þá ræddi hann um áminningarskylduna sem er í kjarasamningum við Reykjavíkurborg. Í samráðsgátt stjórnvalda er frumvarp ríkisstjórnarinnar um að afnema áminningarskylduna í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmann. Eins og á öðrum fundum með félagsfólki var farið ítarlega yfir umsögn sem Sameyki sendi inn í samráðsgátt stjórnvalda.


Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, á fundi með félagsfólki í morgun.

Kári sagði Sameyki ósammála þeirri túlkun ríkisstjórnarinnar að áinningarferlið væri of flókið ferli fyrir stjórnendur vinnustaða. Í umsögn Sameykis segir að áminningarferlið tryggi réttindi starfsfólks og stuðlar einnig að gæðum stjórnsýslunnar. Það er ekki einungis réttaröryggi fyrir starfsfólk að geta varist fyrirvaralausum uppsögnum, heldur einnig mikilvægt verkfæri fyrir stjórnendur og stjórnvöld. Með skýru áminningarferli er tryggt að starfsmaður fái vitneskju um ávirðingar sem kunna að leiða til uppsagnar, að honum sé veitt tækifæri til úrbóta og að andmælaréttur sé virtur í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar áður en gripið er til uppsagnar.

„Við sjáum ekki að stjórnendur verði betri stjórnendur ef áminningarskyldan verði afnumin,“ sagði Kári.

Þá sagði hann að það væri markviss herferð í gangi hjá Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði gegn opinberum starfsmönnum. „Það fer stundum um mig hvernig þessir aðilar tala um opinbera starfsmenn og það er svívirðilegt hvernig orðræðan er gegn opinberu starfsfólki, vinnustöðum Reykjavíkurborgar og stofnunum ríkisins. Við verðum að berjast gegn þessari orðræðu því það er verið að tala niður opinbera grunnþjónustu sem skiptir þjóðfélagið öllu máli og eru þessi störf gríðarlega mikilvæg.“

Umræður sköpuðust um áminningarferlið og hæfi stjórnenda vinnustaðanna að fylgja því og bent var á í umræðunni að opinberum starfsmönnum væri ekki hægt að segja upp. „Það er alrangt,“ sagði Kári og bætti við. „Opinberu starfsfólki er sagt upp störfum fyrirvaralaust og oft á tíðum notuð skýringin að um skipulagsbreytingu sé að ræða. Við erum mjög meðvituð um þessar aðferðir sem notaðar eru til að komast hjá áminningarferlinu.“

Hann sagði að Sameyki ásamt BSRB hvetji stjórnvöld eindregið til að falla frá fyrirhuguðum breytingum, tryggja fræðslu og leiðbeiningar til stjórnenda um lögin og standa þannig vörð um sanngjarna málsmeðferð sem tryggir fagmennsku og traust í opinberri stjórnsýslu.


Starfsreynsla, fagreynsla og önnur laun
Á fundinum ræddi Sigdís Þóra Sigþórsdóttir, sérfræðingur í kjaradeild, um persónuálag í kjarasamningi og launatöflur í því sambandi. Persónuálag er hluti af launamyndunarkerfi hjá Reykjavíkurborg og tekur breytingum á samningstímanum frá 1. apríl 2024 1,6 prósent, frá 1. apríl 2025 1,7 prósent, frá 1. apríl 2026 1,75 prósent og frá 1. apríl 2027 1,8% prósent. Þá ræddi hún um greinar 1.2.2.2 til 1.2.2.5 í kjarasamningi sem varða störf sem krefjast annars vegar ekki háskólamenntunar og hins vegar fagreynslu sem krefjast háskólamenntunar.

Í verklagi um viðmið um önnur laun er m.a. gert ráð fyrir að hægt er að meta starfsreynslu sem nýtist í starfi og er umfram grunnkröfur sem hefur áhrif á laun. Þá sagði hún að önnur laun flytjist ekki milli starfa og þá kemur til kasta starfsreynsla og fagreynsla sem þarf að meta og í þeim tilfellum sem starfsmaður er með umfangsmikla starfsreynslu úr öðru starfi eða störfum en tekur svo starf sem krefst háskólamenntunar. Þá er hægt að leggja inn beiðni um önnur laun á grundvelli þess að búa yfir færni sem er umfram kröfur í starfið.


Sigdís Þóra Sigþórsdóttir, sérfræðingur í kjaradeild Sameykis.

„Það er nauðsynlegt að fara yfir kjarasamninga á fundum sem þessum því það er mikilvægt að félagsfólk sé upplýst hvernig kjör þess geta breyst, t.d. þegar það flyst á milli starfa eða vinnustaða, og þá kemur til kasta þessir þættir um starfsreynslu og fagreynslu í kjarasamningi. Það eru ótrúlega fáir sem vita um þennan hluta kjarasamningsins,“ sagði Sigdís Þóra.

Að lokum þakkaði Kári félagsfólki fyrir komuna og sagði morgunverðarfundina mikilvægan vettvang til að ræða um Sameyki og það helsta sem væri á döfinni hjá félaginu hverju sinni. Því fyrirkomulagi verði haldið áfram.


  • Fréttamyd
  • Fréttamyd