Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

4. desember 2025

Haustskýrsla kjaratölfræðinefndar kynnt

Í skýrslu KTN kemur fram að kjarasamningar hafi verið undirritaðir fyrir langflest launafólk á íslenskum vinnumarkaði í yfirstandandi kjarasamningslotu sem hófst í febrúar 2024. Ljósmynd/1. maí/BIG

Kjaratölfræðinefnd birti haustskýrslu 2025 um kjarasamninga, launaþróun og stöðu efnahags- og vinnumarkaðsmála 27. nóvember sl. Þar kemur fram að kjarasamningar hafi verið undirritaðir fyrir langflest launafólk á íslenskum vinnumarkaði í yfirstandandi kjarasamningslotu sem hófst í febrúar 2024. Áætlað er að nærri 260 kjarasamningar hafi verið gerðir á vettvangi þeirra aðila sem eiga aðild að kjaratölfræðinefnd og að félagsfólk á kjörskrá stéttarfélaga í þessum samningum hafi verið um 190.000. Eftir standi rúmlega 20 samningar fyrir um 3.000 manns, sem samsvarar um 1–2 prósent launafólks.

 

Launaþróun og kaupmáttur eftir mörkuðum
Í skýrslunni eru birt sundurliðuð gögn um launaþróun eftir mörkuðum frá upphafi samningalotunnar fram til júní 2025. Þar kemur fram að hækkun grunntímakaups hafi verið nokkuð mismunandi milli markaða. Frá febrúar 2024 til júní 2025 hækkaði grunntímakaup eins og hér segir:

• Á almennum markaði um 11,9%,
• hjá ríki um 12,2%,
• hjá Reykjavíkurborg um 12,9%
• hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur um 14,3%.

Þá kemur fram að í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið í lotunni hafi almennt verið farin blönduð leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana, sem þýðir að hlutfallslegar launahækkanir eru að jafnaði mestar á lægri laun. Samningar Kennarasambands Íslands við ríki og sveitarfélög hafi þó verið frábrugðnir öðrum samningum vegna áherslu á virðismat.

Að teknu tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur grunntímakaups í júní 2025 um 5,1% frá upphafi samningalotunnar. Á tímabilinu frá janúar 2024 til júní 2025 jókst kaupmáttur sem hér segir:

• Á almennum vinnumarkaði um 4,9%
• hjá ríki um 5,2%,
• hjá Reykjavíkurborg um 5,9%
• hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur um 7,2%.


Efnahags- og vinnumarkaðsmál í haustskýrslunni
Haustskýrsla KTN fjallar einnig um þróun efnahagsmála og vinnumarkaðar. Þar kemur meðal annars fram að hægst hafi á efnahagsumsvifum á Íslandi árið 2024 og að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1% eftir mikinn vöxt árin á undan þegar hagkerfið var að jafna sig eftir áhrif heimsfaraldursins. Í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir 1,7% hagvexti á þessu ári, en Seðlabanki Íslands spáir 0,9% hagvexti. Verðbólga hefur verið nokkuð óbreytt frá febrúar og mældist 4,3% í október. Í skýrslunni er einnig fjallað um húsnæðislið vísitölunnar, þróun gengis krónunnar og vaxta.

Um vinnumarkaðinn kemur fram að dregið hafi úr spennu samhliða hægari efnahagsumsvifa. Starfandi fólki fjölgi nú hægar en áður, dregið hafi lítillega úr fjölda starfandi í ferðaþjónustu og færra fólk með erlendan bakgrunn komi til landsins. Atvinnuleysi sé áfram lágt og atvinnuþátttaka mikil, en lausum störfum hafi fækkað lítilsháttar á árinu og færri stjórnendur telji skort á starfsfólki. Í skýrslunni er jafnframt fjallað um að innflytjendum á vinnumarkaði hafi fjölgað hratt undanfarinn áratug, en að fjöldi erlendra ríkisborgara sem flytji til landsins sveiflist með efnahags- og atvinnuástandi og hafi nú dregist saman í takt við minni vöxt í efnahagslífinu.

 

Sjá kynningu Kjaratölfræðinefndar hér