Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

22. desember 2025

Harpa Hrund hlýtur MA styrk Sameykis

Harpa Hrund Berndsen tekur á móti MA styrk Sameykis úr höndum Kára Sigurðssonar, formanns Sameykis. Ljósmynd/Jóhanna

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu hefur staðið árlega fyrir vali á Stofnun ársins í vinnumarkaðskönnun sem unnin er í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Reykjavíkurborg og ná kannanirnar allt aftur til ársins 2006. Um er að ræða eina stærstu reglulegu vinnumarkaðskönnun landsins. Í ár óskaði Sameyki eftir umsóknum meistaranema sem stefna á að vinna lokaverkefni veturinn 2025-2026 sem tekur mið af málefnum sem tengjast könnuninni Stofnun ársins.

Niðurstaða nefndarinnar var að veita Hörpu Hrund Berndsen MA styrkinn í ár. Rannsóknarspurning í umsókn hennar og tilgátur eru skýrt mótaðar og munu að mati nefndarinnar hafa fræðilegt og hagnýtt notagildi fyrir félagsfólk í Sameyki. Harpa Hrund ætlar í lokaritgerð sinni að fjalla um tengsl starfsumhverfis og veikindafjarvista hjá Reykjavíkurborg en rannsókn hennar er megindleg.

Upphæðin sem afhent er hverju sinni veitir einum meistaranema styrk til að skrifa meistararitgerð sem tekur mið af málefnum sem tengjast könnuninni Stofnun ársins. Styrkupphæðin er kr. 750.000,- sem dreifist á þrjá mánuði, en skilyrði fyrir styrkveitingu er að umsækjandi sé búinn með a.m.k. 30 ECTS-einingar í meistaranámi.

Harpa Hrund tók á móti styrknum úr hendi Kára Sigurðsson, formanns Sameykis, í morgun og óskaði henni innilega til hamingju. Sagði Harpa Hrund við það tækifæri að styrkurinn myndi koma sér vel fyrir ritgerðarsmíðina.

„Ég verð að segja að þessi styrkveiting koma mér nokkuð á óvart. Ég þakka Sameyki fyrir að veita mér þessa viðurkenningu sem mun styrkja mig og hvetja í lokaverkefninu mínu sem fjallar um veikindi og starfsumhverfi starfsfólks sem vinnur hjá Reykjavíkurborg.“