14. janúar 2026
Morgunverðafundur haldinn með trúnaðarmönnum sem starfa hjá ohf. fyrirtækjum

Á morgunverðarfundi með trúnaðarmönnum Sameykis.
Í morgun var haldinn morgunverðarfundur í félagamiðstöðinni í BSRB-húsinu á Grettisgötu 89 með trúnaðarmönnum Sameykis sem starfa hjá ohf. fyrirtækjum í eigu ríkis og sveitarfélaga; Faxaflóahöfnum, Félagsbústöðum, Fríhöfninni, Isavía, Orkuveitunni, Rarik, Strætó bs. og RÚV. Kári Sigurðsson setti fundinn sagðist hann hafa nokkrar áhyggjur af að ohf. fyrirtæki í eigu opinberra aðila virði ekki kjarasamninga um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna.

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, í pontu á fundinum.
Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur, fór yfir kjararéttindi; orlofsrétt og veikindarétt starfsfólks sem starfar hjá fyrirtækjum í eigu opinberra aðila. Hún sagði að Sameyki hafi tekið eftir því að rekstraraðilar sumra þessa opinberu fyrirtækja hafi reynt að veikja orlofsréttindi starfsfólks t.d. með fyrningu orlofs, en hægt er að kynna sér niðurstöður dómsmála þar um hér. „Þessir aðilar hafa verið að reyna að saxa á þessi réttindi félagsfólks okkar sem starfa í ohf. félögum og við fylgjumst vel með þessu og bregðumst við. Þá er rétt að það komi fram að sé orlof eða hluti orlofs tekið utan orlofstímabilsins, að skriflegri beiðni yfirmanns, skal sá hluti orlofsins lengjast um 25 prósent.“

Jenný Stefánsdóttir fjallaði um orlofsréttindi á fundinum.
Hún sagði að í kjarasamningum við ISAVIA taki það starfsmann fimm ár að fá 30 daga orlofsrétt á meðan almennir ríkisstarfsmenn njóta þess réttar um leið og þeir hefja störf hjá ríkinu. Hins vegar hafi í síðustu kjarasamningum náð að semja um rétt um 30 daga orlofsrétt en ólaunað umfram 24 daga orlofsréttar. Það væri þó misjafnt eftir samningum hvað orlofsrétturinn er ríkur. Hægt er að kynna sér orlofsrétt eftir kjarasamningum hér.
Þá sagði Jenný um veikindi á meðan orlofi stendur komi fram í kjarasamningum að geti starfsmaður ekki farið í orlof vegna veikinda skal hann tilkynna yfirmanni sínum strax um veikindin eða slys og framvísa læknisvottorði. Svo að veikindi í orlofi séu greiðsluskyld af atvinnurekanda er ekki nægilegt að læknir viðkomandi votti að um veikindi sé að ræða. Veikindi í orlofi þurfa að vera með þeim hætti að ekki sé hægt að njóta orlofsins vegna þeirra.
„Að uppfylltu framangreindu getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tímum en orlofstímabilinu. Í slíkum tilvikum er heimilt að flytja ótekið orlof til næsta árs.“
Brynjar Ö. Guðnason, vefstjóri, kynnti á fundinum nýja vefsíðu sem hann hefur haft umsjón með að búa til fyrir Sameyki og verður fljótlega sett í loftið. „Það væri gott að þið mynduð skoða vefsíðuna og senda mér athugasemdir um það sem betur mætti fara,“ sagði Brynjar.
Kári ræddi um orlofshús félagsins sem nú eru í fullri uppbyggingu við Úlfljótsvatn. „Við vonum að við getum hafið útleigu á orlofshúsum félagsins við Úlfljótsvatn á þessu ári. Uppbyggingin gengur vel á svæðinu og við ætlum að leigja fyrstu húsin í sumar svona í tilraunaskyni fyrst til að byrja með. Þetta verður svona til prufu þangað til húsin fara í almenna útleigu. En lóðirnar verða líklega ekki frágengnar þegar til þess kemur vegna rasks sem fylgir þessu,“ sagði Kári.

Trúnaðarmenn Sameykis á morgunverðafundinum.
Að lokum fjallaði Kári um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hann sagði það vera mikilvægt grundvallaratriði að vinnuveitendur bæru virðingu fyrir þeim lögum og færu eftir þeim þegar starfsfólki er sagt upp störfum. „Uppsagnir starfsmanna verða að framkvæmast eftir lögbundnum leiðum um reglur og skyldur opinberra starfsmanna sem bundin eru í lög fyrir ríkisstarfsmenn og í kjarasamningi félagsfólks sem starfar hjá Reykjavíkurborg.“