Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. janúar 2026

Sameyki fagnaði 100 ára sögu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Sameyki fagnaði á laugardaginn sl., 17. janúar, að 100 ár eru liðin síðan Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar var stofnað en það er annað af stofnfélögum Sameykis. Viðburðurinn var haldinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, þar sem félagsfólk, samstarfsaðilar, fyrrum formenn og gestir söfnuðust saman til að fagna þessum áfanga í sögu verkalýðshreyfingarinnar og almannaþjónustunnar.

Guðrún Gunnarsdóttir sá um veislustjórn og boðið var upp á léttar veitingar. Formaður Sameykis, Kári Sigurðsson, bauð gesti velkomna. Í ræðu sinni rifjaði hann upp sögu St.Rv og lagði áherslu á þann stóra þátt sem félagið hefur átt í baráttunni fyrir réttindum og bættum kjörum borgarstarfsmanna í gegnum tíðina.

„Heil öld er langur tími og á þeim tíma stóð félagið vörð um réttindi borgarstarfsmanna, byggði upp samstöðu og lagði grunninn að því félagi sem Sameyki er í dag. Það eru engar ýkjur að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, sem er eitt af hornsteinum Sameykis, er samofið sögu verkalýðshreyfingarinnar og þróun velferðarsamfélagsins sem hún lagði grundvöllinn að á Íslandi, og auðvitað hér í Reykjavík líka,“ sagði Kári.

Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson fór með gestum í gegnum sögu Starfsmannafélagsins, frá stofnun þess fyrir einni öld til dagsins þegar félagið ásamt SFR stofnuðu Sameyki 26. janúar 2019. Þar kom fram hversu mikilvægt félagið hefur verið í að efla samstöðu, réttindabaráttu og félagslegt samfélag meðal launafólks innan borgarinnar.

Fyrrum formenn St.Rv., Sjöfn Ingólfsdóttir og Garðar Hilmarsson stikluðu á stóru í sögu félagsins og sögðu frá sínum reynslum og mikilvægustu viðfangsefnum síðustu áratuga. Sjöfn sagði það skipta miklu máli að tengja fortíðina við nútíðina og sýna fram á samfellda baráttu og þróun í verkalýðsmálum.

„Stéttarfélög byggja á félagshyggju – þeirri einföldu hugmynd að við stöndum sterkari saman. Um þessa hugsjón verðum við alltaf að standa vörð um því stéttarfélög verja ekki bara réttindi sem þegar hafa áunnist. Þau sækja fram. Þau bæta kjör. Þau styrkja röddu fólks og tryggja virðingu,“ sagði Sjöfn.

Þá færði formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Sameyki glæsilegt málverk að gjöf, sem formaður Sameykis tók við. Gjöfin er tákn um þá arfleið sem Starfsmannafélagið hefur skilið eftir sig og þann styrk sem félagið hefur skapað fyrir fyrir félagsfólk. Katrín Halldóra Sigurðardóttir flutti söngatriði og Sunna Gunnlaugs, djasspíanisti, sá um lifandi undirleik milli atriða. Í salnum var jafnframt varpað ljósmyndum úr sögu félagsins.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd