26. janúar 2026
Sameyki varar við einkavæðingu Strætó bs.

Á félagsfundi Sameykis með starfsfólki Strætó bs. 23. janúar kom skýrt fram að fyrirhuguð uppstokkun á rekstri Strætó bs. er pólitísk ákvörðun sem mun hafa víðtækar afleiðingar fyrir starfsfólkið, þjónustugæði og samfélagið í heild sagði Kári Sigurðsson ,formaður Sameykis, á fundinum. „Áformin fela í sér áframhaldandi einkavæðingu opinberra verkefna og er markviss aðför að opinberum störfum.“
Kári lagði áherslu á að einkavæðing almenningssamgangna færi ábyrgð frá sveitarfélögunum yfir til einkaaðila án þess að tryggt sé hver beri ábyrgð þegar þjónusta bregst, hvernig réttindi starfsmanna verði vernduð eða hvort gæði þjónustunnar verði viðunandi. Slík stefna byggir á hugmyndafræði markaðsvæðingar þar sem hagnaður er settur ofar öryggi, stöðugleika og réttindum starfsfólks.
Vel var mætt á fundinn og sagði formaður Sameykis að baráttan snérist ekki eingöngu um félagaskipti eða félagsgjöld, heldur um grundvallarréttind starfsfólksins.
„Við munum beita okkur fyrir því að enginn hópur starfsmanna verði neyddur til að fara í ný störf á verri kjörum með skert réttindi. Félagið mun beita sér af fullum þunga til að hafa áhrif á útboðslýsingar og þjónustusamninga og knýja fram skýra pólitíska ábyrgð eigenda Strætó bs. Samstaða starfsfólksins er lykilatriði. Sameyki mun halda áfram samtalinu, boða til frekari funda því þessi barátta snýst um framtíð opinberrar þjónustu og réttindi þeirra sem halda henni gangandi,“ sagði Kári.
Á fundinum kom fram að starfsfólk standi frammi fyrir verulegri óvissu um framtíð sína. Hluti starfsmanna kann að flytjast yfir í nýtt rekstrarform, en aðrir gætu færst til einkaaðila í kjölfar útboða, þar sem hætta er á lakari kjörum, lakari réttindum og sundrungu. Þá kom fram á fundinum að Sameyki telur óásættanlegt að starfsfólk sé látið greiða verðið fyrir pólitískar ákvarðanir sem teknar eru án nægilegs samtals og skýrra trygginga.



