Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. nóvember 2025

Forréttindi að fá að leiða svona félag

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis. Ljópsmynd/BIG

„Það hefur verið vinsælt að tala um afnám áminningarskyldunnar sem lausn á mannauðsvanda ríkisins, en raunveruleg lausn felst í að fjárfesta í fólki. Við þurfum að gera stjórnendur sterkari, veita þeim þjálfun og verkfæri til að leiða vel. Það er þar sem fjármunirnir eiga að fara. Það er dýrt að missa gott starfsfólk og enn dýrara að endurnýja stöður.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, segir fyrstu mánuðina í starfi hafa verið lærdómsríka, krefjandi og gefandi. Hann ræðir ábyrgðina sem fylgir formennskunni, mannlegu hliðina á stéttarfélagsstarfinu, réttindi opinberra starfsmanna og þá framtíðarsýn sem hann vill móta fyrir félagið.

Kári tók við formennsku í Sameyki í janúar 2025 og segir fyrstu mánuðina hafa verið mikið ferðalag. „Ég hef oft spurt sjálfan mig þessarar spurningar,“ segir hann og brosir þegar hann er spurður hvernig hafi gengið að komast inn í hlutverkið. „Fyrstu mánuðirnir fóru að miklu leyti í ákveðin verkefni, til dæmis undirbúning aðalfundarins og allt sem því fylgdi. Það var ekki fyrr en í kringum sumarið sem ég fór almennilega að átta mig á hlutverkinu mínu.“

Þó Kári sé nýr í formennskunni er hann ekki ókunnugur starfi félagsins. „Ég þekki innra starf Sameykis nokkuð vel. Ég hef setið í stjórn félagsins, verið varaformaður, trúnaðarmaður og tekið þátt í samninganefndum, en hlutverk formanns er auðvitað stærra. Það snýst ekki um að vinna öll verk sjálfur heldur um að forgangsraða, velja og hafna, og treysta starfsfólkinu í kringum mig. Ég hef fengið mjög góðan stuðning frá stjórninni og er heppinn með starfsfólkið hér. Þau hafa leiðbeint mér, stutt mig og tekið að sér ýmis hlutverk sem hefur hjálpað mér gríðarlega,“ segir hann.


„Það er alltaf erfitt að brúa bilið á milli þess sem fólk vonast eftir að Sameyki geti gert fyrir sig, og þess sem við getum raunverulega gert.“

Hann viðurkennir að formannsstarfið sé umfangsmikið og krefjandi en um leið gefandi. „Þetta er stórt hlutverk að vera formaður þessa félags og það tekur tíma að ná utan um það í rauninni. Ég læri á það með hverjum nýjum degi en enginn dagur er eins eiginlega, og ég er mjög ánægður með hvernig þetta hefur gengið hingað til, þó ég segi kannski eitthvað allt annað eftir hálft ár,“ segir hann og hlær.

 

Þarf að halda sig við leikreglurnar
Þegar Kári er inntur eftir því hvað hafi komið honum mest á óvart í starfi formanns hjá Sameyki, hugsar hann sig aðeins um og svarar síðan: „Það sem hefur komið mér mest á óvart er þyngd einstaklingsmála sem koma inn á borð félagsins,“ segir hann. „Þau eru oft afskaplega sorgleg, snerta líf fólks djúpt og sýna okkur hversu mikilvægt starf stéttarfélögin sinna. Það kom mér á óvart hversu fjölbreytt þessi mál eru og hversu úrræðagott starfsfólkið þarf að vera til að sinna þessum viðkvæmu málum vel. Starfsfólk Sameykis þarf þess vegna að hafa bæði faglegan og andlegan styrk til að taka á móti félagsfólki sem kemur til okkar í erfiðri stöðu og það er raunin hjá okkur,“ lýsir hann.

Kári segir að erfiðasti hluti starfsins sé að finna jafnvægið milli væntinga og þess sem raunhæft er að gera. „Það er alltaf erfitt að brúa bilið á milli þess sem fólk vonast eftir að Sameyki geti gert fyrir sig, og þess sem við getum raunverulega gert. Við vinnum innan ákveðinna leikreglna og kjarasamninga, og það eru mörk sem við getum ekki farið út fyrir. Við reynum þó að nýta alla möguleika innan þeirra marka til að hjálpa okkar félagsfólki.“

Kári talar opinskátt um það sem hann kallar mannlega þátt starfsins. „Stundum langar mann að stíga dýpra inn í mál, að gera meira fyrir fólk, en maður þarf líka að halda sig við leikreglurnar. Það er þó hægt að hafa áhrif eins og með því að ræða mál á opinberum vettvangi, vekja athygli og þrýsta á breytingar.“ Hann segir að í sumum tilvikum leiti Sameyki til BSRB eða annarra stéttarfélaga eftir áliti og stuðningi. „Það er styrkur í samstöðunni innan BSRB. Við erum mörg stéttarfélög í einu bandalagi og það er mikilvægt að geta leitað ráða og stuðnings hvert hjá öðru. BSRB er góð fjölskylda og eins og í öllum fjölskyldum eru ólíkar skoðanir og það bara er hollt og heldur okkur á tánum.“

 

Árásir ríkisstjórnarinnar og hagsmunasamtaka á opinbera starfsmenn
Þegar talið berst að stöðu opinberra starfsmanna lýsir Kári áhyggjum af hvernig umræðan um áminningarskylduna hefur þróast í samfélaginu. „Það er þungt að sjá að eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda virðist vera að draga úr réttindum opinberra starfsmanna í nafni sparnaðar,“ segir hann. „Þessi umræða kemur mikið frá samtökum á almennum vinnumarkaði sem hafa talað fyrir því að jafna réttindi niður á við – en við í Sameyki ætlum ekki að samþykkja það.“ Hann útskýrir að áminningarskyldan sé ekki hindrun heldur réttarbót. „Hún tryggir réttláta málsmeðferð. Það er algjör misskilningur að áminningarskyldan sé vandamálið. Vandinn liggur í því að stjórnendur séu ekki alltaf nægilega þjálfaðir í að fylgja verkferlum. Lausnin er ekki að veikja réttindi launafólks, heldur að efla stjórnendur.“

Kári bætir við að virðing fyrir leikreglum sé grundvallaratriði. „Þegar við tölum um að segja upp fólki, þá verður það að gerast eftir lögbundnum hætti og eftir lögbundnum leiðum um reglur og skyldur opinberra starfsmanna. Það má ekki gerast með einhverjum geðþóttaákvörðunum. Ég hef stundum sagt að það væri eins og ef lögreglan gæti ákveðið hver færi í fangelsi án dóms og laga. Við höfum leikreglur, kjarasamninga og lög til að tryggja réttlæti og það sama á við um vinnumarkaðinn.“

 

Afregluvæðing og ábyrgð ríkisins
Kári hefur áhyggjur af því sem hann kallar afregluvæðingu samfélagsins. „Það er greinileg stefna síðustu ára að draga úr hlutverki hins opinbera og færa verkefni til einkaaðila, en samfélag án leikreglna og ábyrgðar verður ósanngjarnt og brothætt.“ Hann segir að lausnin sé ekki að brjóta niður reglur, heldur að efla mannauð og traust. „Það hefur verið vinsælt að tala um afnám áminningarskyldunnar sem lausn á mannauðsvanda ríkisins, en raunveruleg lausn felst í að fjárfesta í fólki. Við þurfum að gera stjórnendur sterkari, veita þeim þjálfun og verkfæri til að leiða vel. Það er þar sem fjármunirnir eiga að fara. Það er dýrt að missa gott starfsfólk og enn dýrara að endurnýja stöður.“

Hann bendir á að stundum virðist markmiðið með skipulagsbreytingum ekki vera umbætur, heldur að losna við fólk eins og hilluvöru komna yfir síðasta söludag í stór „Við sjáum dæmi þar sem breytingar eru gerðar til að ýta fólki út, jafnvel því sem hefur haft hugrekki til að gagnrýna stjórnendur og yfirmenn á vinnustöðum. Þá eru nýleg dæmi um að fólk sem á stutt í að fara á eftirlaun sé rekið fyrirvaralaust úr starfi án áminningar. Það gera ekki góðir stjórnendur, þeir tala við fólkið sitt, stilla saman væntingar og fylgja þeim eftir. Þannig skapast traust milli starfsfólks og stjórnenda á vinnustaðnum.“

 

Skortur á starfsfólki í velferðarþjónustu
Kári hafnar alfarið hugmyndinni um að það sé of margt starfsfólk í opinberum störfum eins Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa verið í herferð gegn um langt skeið. „Þegar talað er um fjölgun opinberra starfsmanna sér fólk fyrir sér fleiri skrifborð og fleiri yfirmenn á góðum launum – en raunveruleikinn er sá að það vantar fólk í heilbrigðisþjónustuna, í menntakerfið og í félagslega þjónustu. Þetta eru opinberir starfsmenn sem halda uppi innviðum samfélagsins.“ Hann segir að ákall almennings sé ekki eftir niðurskurði heldur eftir úrbótum á ýmsum sviðum velferðarkerfisins. „Fólk vill frekar sjá fleiri úrræði og meiri umhyggju á sama tíma og ríkir gríðarlegt úrræðaleysi, sérstaklega í málefnum ungs fólks sem ég þekki svo vel úr fyrra starfi mínu. Við þurfum að fjárfesta í aukinni þjónustu og í starfsfólki. Spurningin er einföld: Viljum við hagnað í krónum eða í velferð fólks? Ef forgangurinn er að skila hagnaði á Excel-skjali, þá gleymist að hagnaður samfélagsins mælist líka í lífsgæðum og réttlæti. Ég held að flestir séu sammála því.“


Einkavæðing grunnþjónustunnar varasöm
Að mati Kára hefur einkageirinn fengið of stórt hlutverk í opinberri þjónustu. „Ríkið og sveitarfélögin bera ábyrgð gagnvart þegnum sínum og í þeim efnum er velferðarþjónusta bara alls ekki markaðsvara, hún á að byggjast á jöfnuði og trausti sem allir landsmenn eiga að geta notið án tillits til stöðu og efnahags en því miður hefur þróunin orðið önnur eins og við vitum. Við sjáum að verið er að markaðsvæða mannauðinn sem tækifæri einkaaðila að græða peninga á ýmsum störfum í heilbrigðisþjónustunni.“


„Við megum ekki gleyma jafnvæginu milli launafólks og vinnuveitenda. Þegar við gleymum því, veikjum við samfélagið sjálft því stéttarfélögin í landinu eru burðarstoðir mannréttindabaráttunnar og réttláts samfélags.“

Kári segir að útvistun geti verið réttlætanleg í sumum tilvikum, en ábyrgðin verði alltaf að liggja hjá hinu opinbera. „Við verðum að spyrja okkur hver tryggir gæði þjónustunnar sem veitt er og um leið er ekki nóg að kaupa þjónustu, það þarf að fylgjast með henni af opinberum eftirlitsaðilum. Ég ætla ekki að segja að einkageirinn sé alvondur – alls ekki – en þegar þjónusta er veitt af einkaaðila fyrir opinbert fé ber ríkið samt ábyrgðina og þarf að veita slíkum rekstri opinbert aðhald. Það er allt í lagi að hagræða, en ekki á kostnað starfsfólks á undirmönnuðum vinnustöðum í grunnþjónustunni. Við megum ekki hagræða í burtu grunnþjónustunni. Það verður að tryggja að hún sé góð, réttlát og aðgengileg fyrir alla sem þurfa að njóta hennar.“


Framtíðarsýn Sameykis
Þegar talið berst að framtíð félagsins segir Kári að Sameyki eigi að vera leiðandi afl í baráttunni fyrir réttlæti og jöfnuði. „Það er okkar hlutverk.“ Hann segir að stærsta áskorunin sé að minna fólk á af hverju stéttarfélög eru til. „Við megum ekki gleyma jafnvæginu milli launafólks og vinnuveitenda. Þegar við gleymum því, veikjum við samfélagið sjálft því stéttarfélögin í landinu eru burðarstoðir mannréttindabaráttunnar og réttláts samfélags.“

Þá segir Kári að máli skipti að rödd Sameykis heyrist. „Við þurfum að vera sýnileg, bæði út á við og inn á við. Þó að við séum ekki alltaf sammála um allt, þá styrkir það okkur. Umræða um ólík sjónarmið á mál er bara af hinu góða. BSRB hefur verið sterkur málsvari fyrir okkur, og við tökum virkan þátt í þeirri samstöðu. Við eigum frábært starfsfólk sem vinnur af trúnaði og samheldni. Það gerir okkur kleift að standa sterk út á við og það er þessi sameiginlegi styrkur sem heldur félaginu lifandi.“


Jólahald formannsins
Þegar samtalið færist yfir í jólahald og persónulegri spurningar, léttir yfir Kára. „Ég er ekkert mjög vanafastur þegar kemur að jólunum,“ segir hann og brosir. „Ég held þau með konunni minni, syni okkar og oft er móðir mín með okkur líka á aðfangadagskvöld og því erum við venjulega fjögur saman. Ég elska að stússast í eldhúsinu og það er mín hugleiðsla. Ég byrja snemma á Þorláksmessu að undirbúa matinn og nýt þess mjög. Ég er kjötæta, en konan mín ekki – þannig að það er alltaf tvíréttað hjá okkur. Mér finnst það frábært.“

Kári segist þó eiga sér eina sérstaka hefð. „Ég byrja jólin á að fá mér ristað brauð með graflaxi á aðfangadag. Það er mín hefð, og líklega enginn annar í fjölskyldunni sem gerir það,“ segir hann og hlær. Spurður hvort Sameykisfáninn hangi á jólatrénu, hlær hann aftur. „Ekki enn, en kannski verður hann jólastjarnan í ár.“

Að lokum segir Kári að það fylgi bæði ábyrgð og ánægja að leiða Sameyki. „Það eru forréttindi að fá að leiða svona félag,“ segir hann ákveðinn. „Því fylgir ábyrgð, en líka mikið stolt. Það er ekkert betra en að vita að maður getur haft áhrif, staðið með fólki og unnið fyrir réttlæti.“ Hann segir að Sameyki standi fyrir samstöðu og trú á betra samfélag. „Við vinnum saman, við hlustum og við reynum að bæta samfélagið. Það ætlum við halda áfram að gera.“