Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. október 2023

Fjárhagsstaða félagsfólks Sameykis gríðarlega ólík

Niðurstöðurnar sýna að fjárhagsstaða þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu er verst.

Fjárhagsstaða félagsfólks í Sameyki er gríðarlega ólík þegar hún er skoðuð eftir starfsgreinum. Fjárhagsstaða þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu er verst. Staða þeirra sem starfa við fræðslu-, uppeldis-, kennslu og tómstundastörf og í öðrum greinum er einnig nokkuð verri en þeirra sem starfa við stjórnsýslu, fjármálaþjónustu, upplýsingatækni og almenn skrifstofustörf.

Eftir Kristínu Hebu Gísladóttur

Fjárhagsstaða félagsfólks Sameykis er almennt ögn betri en annars félagsfólks í aðildarfélögum BSRB og ASÍ. Þetta sýna niðurstöður könnunar Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins sem unnar voru upp úr könnuninni um stöðu launafólks á Íslandi, að beiðni Sameykis.

Þegar fjárhagsstaða félagsfólks Sameykis er borin saman við meðaltalsstöðu félagsfólks í öðrum aðildarfélögum BSRB og ASÍ á svipað hlutfall erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman (18% á móti 19%) og hærra hlutfall á nokkuð auðvelt með að ná endum saman (36% á móti 33%). Hærra hlutfall Sameykisfólks gæti mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar (54% á móti 50%). Einnig býr lægra hlutfall við efnislegan skort (9% á móti 10%) og hefur þurft á einhvers konar fjárhagsaðstoð að halda á síðastliðnu ári (13% á móti 14%).

Mikill munur á fjárhagsstöðu félagsfólks eftir starfsgreinum
Ofangreindar tölur segja hins vegar aðeins hálfa söguna því fjárhagsstaða félagsfólks Sameykis er gríðarlega ólík þegar hún er skoðuð eftir starfsgreinum. Niðurstöðurnar sýna að fjárhagsstaða þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu er verst. Staða þeirra sem starfa við fræðslu-, uppeldis-, kennslu og tómstundastörf (hér eftir nefnt fræðslustörf) og í öðrum greinum er einnig nokkuð verri en þeirra sem starfa við stjórnsýslu, fjármálaþjónustu, upplýsingatækni og almenn skrifstofustörf (hér eftir nefnd skrifstofustörf).Fjárhagsstaða fólks í heilbrigðisþjónustu verst
Um fjórðungur (25%) þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu innan Sameykis á erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman og ríflega helmingur (53%) gæti ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Ríflega einn af hverjum tíu (10%) hefur ekki efni á staðgóðri máltíð annan hvern dag og nánast sama hlutfall (11%) hefur ekki efni á bíl. Meira en fjórðungur hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu sinni (27%). Tæpur fimmtungur (18%) hefur þurft að fá aðstoð frá vinum eða ættingjum í formi peninga- eða matargjafa á síðastliðnu ári. Verri fjárhagsstaða foreldra sem eru félagar í Sameyki og starfa í heilbrigðisþjónustu birtist einnig þegar litið er til kostnaðarsamra þátta sem fylgja því að vera með börn á heimili. Tæplega fjórðungur (23%) þeirra hefur til að mynda ekki getað keypt nauðsynlegan klæðnað fyrir börnin sín, tæplega fimmtungur (19%) hefur ekki haft efni á eins næringarríkum mat og þau telja börnin sín þurfa og sama hlutfall (19%) hefur ekki getað greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna, eins og að fara í bíó með vinum eða í afmæli til vina.Staða á húsnæðismarkað ólík eftir starfsgreinum
Staða launafólks á húsnæðismarkaði hefur mikil áhrif á lífskjör þess og niðurstöður kannana Vörðu hafa ítrekað sýnt að þeir hópar sem búa við verri fjárhagsstöðu eru að sama skapi í meiri mæli á hinum almenna leigumarkaði þó að niðurstöðurnar segi ekki til um orsakasamhengið. Þegar staða félagsfólks Sameykis á húsnæðismarkaði er greind sést að hærra hlutfall er í eigin húsnæði (74% á móti 62%) og lægra hlutfall í leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði (14% á móti 25%) samanborið við annað félagsfólk í aðildarfélögum BSRB og ASÍ. Meðaltalstölurnar gefa þó ekki rétta mynd af stöðu ólíkra hópa. Nokkur munur sést á stöðu félagsfólks Sameykis á húsnæðismarkaði eftir því í hvaða starfsgreinum það starfar. Lægst er hlutfall þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu og búa í eigin húsnæði (62%), næstlægst meðal þeirra sem eru í fræðslustörfum (68%), því næst meðal þeirra sem eru í öðrum störfum (72%) en langhæst hjá félagsfólki í skrifstofustörfum (85%). Að sama skapi er hæst hlutfall félagsfólks í heilbrigðis-þjónustu sem er á almennum leigumarkaði (19%), því næst í fræðslustarfsemi (17%) og öðrum störfum (17%) en lægst meðal þeirra sem eru í skrifstofustörfum (9%).

Sama mynd birtist þegar litið er til byrði húsnæðiskostnaðar. Að meðaltali býr lægra hlutfall félagsfólks Sameykis við þunga byrði af húsnæðiskostnaði (30% á móti 36%) samanborið við meðaltalstölur fyrir félagsfólk í aðildarfélögum BSRB og ASÍ. Þegar byrði húsnæðiskostnaðar er skoðuð eftir starfsgreinum innan félagsins kemur í ljós að þau sem starfa í heilbrigðisþjónustu búa í mestum mæli við þunga byrði af húsnæðiskostnaði (39%), því næst þau sem eru í fræðslustörfum (35%) og öðrum störfum (30%) en hlutfallið er talsvert lægra meðal fólks í skrifstofustörfum (23%).Gögn og greiningar og gildi þeirra
Í almennri umræðu er sífellt kallað eftir ítarlegri gögnum og greiningu þegar samfélagsleg viðfangsefni eru til umfjöllunar. Þetta ákall var að nokkru leyti grundvöllur þess að BSRB og ASÍ ákváðu að setja á fót Vörðu – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins. Markmiðið var að verkalýðshreyfingin gæti með þeim hætti staðið fyrir rannsóknum og fylgst með afkomu og lífskjörum félaganna. Eitt umfangsmesta verkefni Vörðu er árleg könnun um stöðu launafólks á Íslandi. Niðurstöður könnunarinnar veita yfirgripsmiklar upplýsingar um fjárhagsstöðu og heilsu launafólks og eru grundvöllur þeirra upplýsinga sem hér koma fram.

Greiningar og gögn eru til margs góð og nauðsynleg en mikilvægt er að hugað sé að því hvernig er farið með þau. Meðaltöl segja oft og tíðum eingöngu hálfa söguna og því nauðsynlegt að geta kafað dýpra til að gefa rétta mynd af stöðu mismunandi hópa. Niðurstöður könnunarinnar um stöðu launafólks fyrir Sameyki sýna einmitt þetta. Staða félagsfólks Sameykis er að meðaltali góð miðað við meðaltalsstöðu félagsfólks í öðrum aðildarfélögum BSRB og ASÍ. Það er hins vegar augljóst að fjárhagsstaða hjá félagsfólki Sameykis er ólík eftir atvinnugreinum. Slíkar upplýsingar eru mikilvægt leiðarljós í starfsemi stéttarfélaganna, kjarasamningsviðræðum og mótun áherslna gagnvart stjórnvöldum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vörðu - rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)