Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. nóvember 2023

Tökum loftslagsmál alvarlega!

Eftir Pétur Ásbjörnsson

Fundur um loftslagsmál var haldinn á laugardaginn sl. að undirlagi Umhverfis- og loftlagsnefndar Sameykis í samstarfi við Eyþór Eðvarðsson sem sett hefur fram gagnrýni á áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Tilgangur fundarins var að fjalla um loftslagsmál í stóru samhengi og var haldinn í félagamiðstöðinni að Grettisgötu 89. Meðal gesta voru stjórnmálafólk og fræðimenn. Um var að ræða stutta fyrirlestra og pallborðsumræðu. Á eftir erindum var rætt saman í hópum með þjóðfundarfyrirkomulagi um lausnir í loftlagsmálum.

Meðal gesta sem héldu fyrirlestra voru Rafn Helgason sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, Ólafur Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Auður Önnu Magnúsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri Landverndar, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir aðjunkt við Háskóla Íslands og hefur rannsakað samgöngur og skipulag, Finnur Ricart Andrason formaður Félags ungra umhverfissinna á Íslandi og Halldór Björnsson doktor í haf- og veðurfræði.

Mikil aukning í losun gróðurhúsalofttegunda
Rafn Helgason fjallaði um landnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið sem hann sagði að hafi aukist um 14.1 milljón tonn en á sama tíma sé talað um losunarhlutleysi árið 2040. Hann fjallaði um hlutdeildarmarkmið Evrópusambandsins og losunarbókhald umhverfisstofnunar. Samkvæmt losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar var losun Íslands 13.519 koltvíoxíðs árið 2020. Þessi mikla aukning allt frá árinu 1990 skýrist einkum af aukinni málmframleiðslu á Íslandi. Losun frá úrgangi jókst um 12,4% milli 1990-2020 en losun frá orku og landbúnaði dróst saman um 9,6%. Hægt er að kynna sér skýrslu Umhverfisstofnunar hér.

Stór hluti landsins er illa gróinn og sandfok er mikið
Ólafur Arnalds sem er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði í sínu erindi um rannsóknir á íslenskum jarðvegi og á ferlum sem móta yfirborð og ástand vistkerfa.

Hann sagði að það þyrfti að loka skurðum strax í mólendi sem gerðir voru til að þurrka upp land til ræktunar. Votlendi skiptir miklu máli því það bindur gróðurhúsalofttegundir. Þurrt land græðir ekki. Á þjóðlendum þurfi að ráðast í ræktun lands með gróðursetningum trjáa sem binda gróðurhúsalofttegundir. Hann sagði að sauðfé hafi mest áhrif í eyðingu gróðurs í þjóðlendum. Stór hluti landsins er illa gróinn og sandfok er meira en víðast annars staðar og frá auðnunum berst mikið ryk sem hefur mótandi áhrif á náttúru vistkerfa á landinu auk áhrifa á lífkerfi sjávar og lýðheilsu fólks. Rannsóknirnar Ólafs hafa meðal annars beinst að eðli sandfoksins og hvaðan og hve mikið ryk berst frá landinu.

Þá sagði Ólafur að fara þurfi varlega að selja kolefnisbindingar í sambandi við skóglendur og benti á að ekki sé hægt að setja niður skóga allstaðar. Hægt er að kynna sér skýrsluna Vistheimt á Íslandi hér sem gefin var út af Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins.

 

Ráðast þarf að rótum vandans
Auður Önnu Magnúsdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og doktor í lífefnafræði frá Stokkhólmsháskóla sagði að markmið stjórnvalda um fjölgun rafbíla hafi ekki tekist því ekki var ráðist að rótum vandans sem er m.a. mengandi stóriðja. Hún sagði að það verði að uppfæra aðgerðir strax sem varða loftslagsvarnir sem verði að gera í nánu samráði og samstarfi við almenning. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir tók í sama streng og sagði að áætlanagerð um sjálfbæran hreyfanleika væri bæði flókið og krefjandi verkefni. Þekking á því hvernig eigi að skipta út mörgum, oft misvísandi, markmiðum sé heldur ekki alveg skýr. Eitt umdeildasta og ruglingslegasta atriðið í samhengi borgarskipulags hefur verið, og er enn, staður bílsins innan sjálfbærs hreyfanleika í þróun. Nýleg tilkoma öflugs stefnumótunar- og skipulagsstuðnings við innleiðingu rafknúinna ökutækja vekur upp vandræðalegar spurningar um hvort þessi þróun muni vera viðbót við eða stangast á við önnur markmið áætlanagerðar um sjálfbæra hreyfanleika, svo sem leit að þéttum borgum, takmarkanir á bíla, kynningu á gangandi og hjólandi og stuðningur við almenningssamgöngur. Þá sagði Ásdís Hlökk að borgarlínan gangi ekkert og að ekki hafi verið sýnt fram á neinn raunverulegan árangur um breyttar ferðavenjur. Lesa má um losun gróðurhúsalofttegunda og áhrif á veðurfar á vef Himins og jarðar hér.

 

Hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað
Finnur Ricart Andrason, formaður Félags ungra umhverfissinna á Íslandi og ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og óháður sérfræðingur í loftslags- og umhverfisstefnu, kallaði eftir því að hugarfarsbreyting eigi sér stað meðal almennings. Hann sagði að ekki skipti máli hvaðan losun gróðurhúsalofttegunda komi því hún hefur áhrif á veðurfar um alla jörðina sem allir finna fyrir. Hann sagði að Íslendingar þurfi eins og aðrar þjóðir að huga alvarlega um stöðu á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Hann benti í þessu sambandi á skýrslu sem Háskóli Íslands gaf út um sjálfbærni og loftlagsmal sem hægt er að sjá hér.

Halldór Björnsson, doktor í haf- og veðurfræði og hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands, sagði að umfang og afleiðingar og áhrifa loftslagsbreytinga sé þegar farið að gæta hér á landi með breytingum á náttúrufari og lífsskilyrðum fólks og með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Lesa má ítarlega samantektarskýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem Halldór Björnsson situr í um umfang og afleiðingar hnattrænna loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á Íslandi hér.

 

Ég vil þakka gestum sem komu á fundinn fyrir góð erindi og uppbygglega og upplýsandi samræðu um loftslagsmál. Loftslagsmál koma öllu fólki við. Þau hafa áhrif á samfélag, menningu og félagslega innviði. Þau hafa áhrif á heilbriðgiskerfið því spáð er að loftslagsbreytingarnar sé stærsta heilsufarsógnin sem blasi við mannkyninu. Eins og kemur fram í skýrslu um loftslagsbreytingarnar eru þær eitt stærsta efnahagsmál samtímans því áhrif á atvinnuvegi geta verið bæði bein og óbein, svo sem í gegnum aðfangakeðjur, og haft samfélags- og efnahagslegar afleiðingar. Enn fremur segir í skýrslunni að loftslagsbreytingarnar eru þegar farnar að hafa áhrif á ýmsa innviði á Íslandi sem hefur kallað á viðbrögð stofnana og fyrirtækja.

Við þurfum að taka þessu alvarlega!

Höfundur er félagi í Sameyki og situr í Umhverfis- og loftslagsnefnd Sameykis.

 

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)