Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. nóvember 2023

Samhengisleysi efnahags-, peninga- og atvinnumála

Samhengisleysi á milli stefnu opinberra fjármála og virkni peningastefnu seðlabanka getur haft mjög slæmar afleiðingar.

„Mikilvæg opinber stofnun eins og seðlabanki sem eykur óróa á vinnumarkaði eða seðlabanki sem styður ekki við efnahagsstefnu ríkisstjórnar er augljóslega ekki að sinna verkefnum sínum vel.“

Eftir Ásgeir Brynjar Torfason

Seðlabankinn hefur hvorki eitt markmið né eitt tæki til að ná því markmiði. Vextir á nokkrum mismunandi innlánsreikningum bankans fyrir viðskiptabankana eru kallaðir stýrivextir eða meginvextir. Þessi vextir, sem peningastefnunefnd bankans ákvarðar, lækka ekki verðbólguna sjálfkrafa, heldur eru áhrifin af hækkun eða lækkun vaxtanna kölluð miðlun peningastefnunnar. Hún á að stuðla að því að vísitalan sem mælir verðlag og þannig verðbólguna lækki, en það tekur bæði tíma, byggist á öðrum ytri þáttum og felur í sér ýmsa óvissu.

Það þarf miklu fleira að koma til en einföld, eða margföld, hækkun vaxtanna til þess að verðbólga hjaðni. Þess utan var lögum um Seðlabankann breytt árið 2019 og nú er verðstöðugleiki ekki æðsta markmiðið heldur gildir samhliða öðrum markmiðum um fjármálastöðugleika ásamt traustu og öruggu fjármálakerfi. Þannig verður stjórnun seðlabanka miklu flóknari en áður. Mikilvæg opinber stofnun eins og seðlabanki sem eykur óróa á vinnumarkaði eða seðlabanki sem styður ekki við efnahagsstefnu ríkisstjórnar er augljóslega ekki að sinna verkefnum sínum vel.

 

Trúverðugleiki
Útbreiddur misskilningur um hugtakið aðhald var leiðréttur skilmerkilega af fyrrverandi seðlabankastjóra Má Guðmundssyni í viðtali við vikuritið Vísbendingu í sumar, sem einnig var fjallað um í Heimildinni dagana 16.-26. júní 2023. Það að tala um aðhald opinberra fjármála felur í sér annaðhvort eða bæði, hækkun skatta eða lækkun útgjalda, ekki aðeins það síðarnefnda.

Alþjóðlegur samanburður er eitt öflugasta tólið til þess að vita hvernig gengur í efnahagsstjórn. Lengi var sagt á Íslandi, sérstaklega þegar meginhluti tekna þjóðarinnar kom af fiskútflutningi, að hagsveiflan hérlendis væri allt önnur en í nágrannalöndunum. Þessi gamla tugga er löngu orðin úrelt, bæði eftir að við fengum aðild að sameiginlega evrópska markaðnum með samningnum um EES fyrir aldarfjórðungi, en ekki síður eftir að ferðaþjónusta varð stærsti hluti útflutningsteknanna.

Samanburður á verðbólgu milli landa getur verið flókinn. Til einföldunar gerir evrópska hagstofan samræmda vísitölu neysluverðs fyrir verðbólgusamanburð. Stýrivaxtahækkunum hefur verið beitt hraðar og meira hérlendis en í öðrum Evrópuríkjum og samt er verðbólga hér meiri en þar. Vaxtahækkanir hafa fært bönkunum hérlendis aukinn hagnað, því stýrivextirnir eru greiddir á innstæður viðskiptabanka hjá seðlabanka. Jafnframt hefur fjármagnskostnaður vegna hins opinbera hallareksturs hækkað verulega, enda er seðlabanki ekki aðeins banki bankanna heldur einnig banki ríkisins, þar sem meginvextirnir stýra miklu um lántökuskilyrði.

 

Samvinna
Íslenski vinnumarkaðurinn stækkaði mikið við samninginn um EES sem færði okkur frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu innan evrópska markaðarins. Meginstraumur hagfræðikenninga hefur einnig breyst á þeim aldarfjórðungi síðan við gengum inn á hinn sameiginlega markað. Þó eimir enn eftir af þeirri hugmyndafræði sums staðar að hagfræðin og hagkerfið stýri sér sjálfkrafa.

Líkön í hagfræði og raunveruleiki hagkerfisins eru stundum úr tengslum við hvort annað. Þá verður verkefni hagfræðinganna að brúa bilið þar á milli og útskýra muninn. Það er alls ekki hlutverk hagfræðinga að predika yfir hagkerfinu hvernig það eigi að virka eða haga sér til þess að raunveruleikinn stemmi við líkönin þeirra. Fagleg skylda hagfræðinganna er að leiðrétta líkönin ef þau stemma ekki við veruleikann. Geri þeir það ekki verður starf þeirra fljótt gagnslaust. Hagfræðin er félagsvísindi en hvorki raunvísindi sem byggjast á náttúrulögmálum, né trúarbragðafræði til að fjalla um útbreiðslu kennisetninga.

Trúverðugleiki er samt sem áður mikilvægur fyrir bæði hagfræðinga og þær opinberu stofnanir sem þeir starfa fyrir eða stýra. Breyttur heimur getur kallað á að gamalgrónar kenningar þarfnist endurskoðunar við. Það lærðum við í þeirri hagfræðilegu tilraun sem efnahagsleg viðbrögð við heimsfaraldri færðu okkur. Sama á við um verðbólguna sem blossaði upp út um allan heim eftir innrásina í Úkraínu.

Samræmi og samhljómur milli atvinnustefnu og efnahagsstefnu hins opinbera er mikilvægur. Samhengisleysi á milli stefnu opinberra fjármála og virkni peningastefnu seðlabanka getur haft mjög slæmar afleiðingar. Ef stefnumörkun miðar ekki í sömu átt þá verður mikil óreiða á góðæristímum en það hefur enn hræðilegri afleiðingar þegar á reynir við ágjöf og erfiða tíma. Segl sem ekki eru stillt í sömu átt, eða stýri sem ekki er stjórnað samhæft við seglin getur látið skútuna brotna eða stranda. Ábyrgð hagfræðinganna sem stýra vissum köðlum eða stillingum seglanna er þar mikil en ábyrgð stjórnmálamannanna sem halda um stýrið er enn meiri. Hvorugur hópurinn getur hrópað á restina af áhöfninni til þess að rétta stefnuna af. Ef fólkið á fyrsta farrými kemst eitt í björgunarbátana en ekki aðrir bátsverjar, þá er stórslys í uppsiglingu.

 

Samband
Sambandsleysi á milli stefnumörkunar efnahagsmála og velsældar eða lífskjara veldur einnig miklum vanda hérlendis. Stærstu útgjaldaliðir flestra venjulegra heimila eru kostnaður vegna húsnæðis, matvæla og samgangna. Tekjur eru oftast aðeins launatekjur en fyrir efstu tekjuhópana, eða fólkið á fyrsta farrými, koma einnig til fjármagnstekjur. Uppbygging skattkerfisins og millifærslur því tengdar hafa svo áhrif á ráðstöfunartekjur hvers heimilis.

Ljóst er af lífskjarakönnunum að stöðugt fleiri eiga erfitt með að ná endum saman hérlendis. Erlendis var hugtakið um lífskjarakrísu mikið notað á síðasta ári en viðbrögð stjórnvalda þar hafa mildað þá krísu og jafnvel látið hana hverfa fyrir stóran hluta heimila. Verðbólgan í Evrópu hefur enda lækkað síðan í október 2022 úr 10,6% niður í 2,9%.

Hugmyndafræði sem vinsæl virðist hérlendis á allt of mörgum sviðum er að allt muni reddast, en er nú að afhjúpast sem hræðilega léleg fyrir efnahagsstefnu. Þó að við höfum á vissa mælikvarða verið heppin sem þjóðfélag efnahagslega í eftirmálum og úrvinnslu fjármálahrunsins þá er ekki víst að sama gerist eftir heimsfaraldur og hina alþjóðlegu verðbólgu. Nú stefnir allt í þá átt, ef marka má reynslu þessa árs, að lærdómurinn hérlendis á næsta ári verði sá að hlutir reddist ekki alltaf.

Hagkerfið er ekki stjórnlaus skepna sem fer sínu fram af einhverri eðlishvöt. Hagkerfinu er stjórnað af aðgerðum mismunandi aðila og hópa sem að því koma með ólíkum hætti. Íhaldssöm öfl og sterk viðhorf hérlendis byggja á fyrrum meginstraumshagfræði sem viðurkennt er orðið á alþjóðavísu að stenst ekki próf hins efnahagslega raunveruleika sem einkennt hefur heiminn undanfarin ár. Einsleitni umræðunnar hér, bæði frá hinni stjórnmálalegu hlið og hinni hagfræðilegu, er hættuleg, sérstaklega á þeim umbrotatímum sem við nú lifum. Það að stýra efnahagsmálum þjóðarskútunnar út frá almannatengslum og ímyndaruppbyggingu getur gengið tímabundið þegar byrinn er góður en þegar á móti blæs þá sést hverjir standa berskjaldaðir.

Höfundur er doktor í fjármálum og ritstjóri Vísbendingar.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)