Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

4. desember 2023

Að gefast upp á ábyrgðinni

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Eftir Þórarin Eyfjörð og Hafstein Karlsson

Í önnum hins daglega lífs hefur almenningur væntingar um að samfélagskerfin okkar virki með sæmilegum hætti. Að heilbrigðiskerfið, félagslegu kerfin, samgöngukerfin og skólakerfið skili okkur eins góðu samfélagi og kostur er hverju sinni. Jú, jú … það má ýmislegt betur fara af og til, en við göngum út frá því að allir séu að reyna sitt besta. Allt frá almennu starfsfólki til stjórnenda sem starfa í mikilvægum innviðum, og þá ekki síst í menntakerfinu.

Reykjavíkurborg rekur margháttaða grunnþjónustu fyrir borgarana. Umönnun af öllu tagi. Almenningssamgöngur, velferðarþjónustu og ekki síst stórt menntakerfi leik- og grunnskóla. Í leikskólunum stíga börnin okkar sín fyrstu skref inn í hið formlega menntakerfi. Í námi, leik og í öðru metnaðarfullu skapandi starfi takast þau á við áskoranir sem þroska þau og efla. Þau syngja, leika sér, lesa og þjálfast í að taka þátt, vinna saman og hjálpast að. Þau leggja sitt af mörkum til daglegs starfs í leikskólanum sínum. Við gerum ríkar kröfur til leikskólans og starfsins sem þar fer fram og við vitum að það er nauðsynlegt að reka leikskóla af miklum metnaði til að ná þeim markmiðum sem við höfum fyrir okkar yngsta fólk. Ábyrgð forystufólks í Reykjavík og í öðrum bæjarfélögum er því mikil þegar kemur að leikskólanum. Hann er hluti af almannaþjónustunni og opinberri þjónustu.

Inn á borð Sameykis kom nýlega mál þar sem ljóst þótti að verið væri að segja upp starfsfólki í eldhúsi leikskóla í Reykjavík og ráða verktaka úti í bæ til að sjá um mötuneytið. Sameyki sendi því fyrirspurn til Mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar til að leita svara við hvort það væri stefna borgarinnar að útvista störfum í mötuneytum leikskólanna og birtist hún í tímariti félagsins og á vef þess. Óhætt er að endurtaka svarið sem barst. Þar svarar sviðsstjóri Mannauðs- og starfsumhverfissviðs og segir:

„Varðandi fyrirspurn stéttarfélagsins um hvort það sé stefna Reykjavíkurborgar að útvista störfum í eldhúsum í leikskólum borgarinnar er því til að svara að svo er ekki. Hins vegar hefur átt sér stað þróun í þá átt sem er tilkomin að frumkvæði stjórnenda leik- og grunnskóla sem hafa séð þörf fyrir að endurskipuleggja rekstur á sínum starfsstað með þessum hætti. Þar hefur verið horft til t.d. áhrifa á skipulag daglegs starfs, utanumhald af hálfu starfsstaðar hvað varðar mönnun vegna forfalla, pöntun aðfanga, lager fyrir matvöru og umsjón með réttri geymslu matvæla. Aðkeypt mötuneytisþjónusta felur einnig í sér þjónustu við samsetningu matseðla sem tekur mið af manneldismarkmiðum, matarstefnu og sérþarfa þegar við á, sem er oft á tíðum flókið utanumhald á starfsstöðum sviðsins.

Hvað varðar þá spurningu um hvort það sé stefna Reykjavíkurborgar að einkavæða opinbera þjónustu er svarið við því neitandi. Svo sem að framan greinir hafa stjórnendur leik- og grunnskóla sjálfir tekið ákvarðanir um útvistun mötuneyta vegna aðstæðna á þeirra starfsstað“.

Hafa stjórnendur Reykjavíkurborgar gefist upp á að standa undir þeirri ábyrgð að reka samfélagslega mikilvæga innviði eins og skólamötuneyti? Að þeir finni lausn í að láta einhvern úti í bæ taka við hlutverkinu?

Gott skólamötuneyti er mikilvægur hluti af faglegu skólastarfi. Það stuðlar að farsæld og vellíðan barna og starfsfólks. Mötuneyti í leikskóla sem sinnt er af metnaði og alúð af þeim sem þar starfa, eins og fjölmörg dæmi eru um, hafa ótvírætt uppeldislegt gildi. Börnin sjá og finna fyrir því að matargerð er mikilvægur hluti hins daglega lífs. Þau taka jafnvel þátt í matargerðinni og eldhússtörfunum, læra mikilvægi þess að borða næringarríkan og hollan mat, fara vel með hráefni og að vinna gegn matarsóun. Þau eru stolt af eldhúsi skólans og biðja gjarnan um uppskriftir af uppáhaldsmatnum sínum sem þau elda svo með foreldrum sínum heima.

Við hvetjum Reykjavíkurborg til að stöðva einkavæðingu opinberrar þjónustu eins og rekstur eldhúss og standa betur að þessari mikilvægu opinberu þjónustu sem hefur svo ótvírætt uppeldislegt og samfélagslegt gildi ef rétt er að henni staðið.

Hafsteinn Karlsson, skólamaður.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Pistillinn birtist fyrst á vef Heimildarinnar.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)